Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 257/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 64/1981, 10. gr.  

Atvinnuleysistryggingagjald — Launaframtal — Kjarasamningur — Hagstofa Íslands — Atvinnuleysistryggingargjaldsstofn — Gjaldskyldar vinnuvikur — Vanreifun — Frávísun

Kært er álagt atvinnuleysistryggingaiðgjald gjaldárið 1982 og þess krafist að gjaldið verði ákvarðað af 443 tryggingarvikum í samræmi við fjölda þann sem færður er inn á launamiðaafrit er fylgja kærunni til ríkisskattanefndar. Í hinum kærða úrskurði hafði skattstjóri áætlað vikufjöldann 1.165 með hliðsjón af launaframtölum þar sem hann væri ekki tilgreindur á launamiðum.

Með bréfi, dags. 2. maí 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kröfu kæranda verði hafnað.

Innsend gögn þykja ekki þannig úr garði gerð að þau verði lögð til grundvallar kröfum kæranda.

Svo virðist sem sumir launamiðar séu samhljóða og verður því eigi byggt á þeim sem fullnægjandi gögnum.“

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, skulu atvinnurekendur greiða iðgjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs, er sé 1% af útborguðu vikukaupi fyrir dagvinnu skv. 8. launaflokki A. Verkamannasambands Íslands, lægsta starfsaldurþrepi, vegna hverrar vinnuviku, sem starfsmaður vinnur í þjónustu hans. Sé um að ræða fasta starfsmenn, reiknast árið 52 tryggingarvikur, en hjá öðrum starfsmönnum reiknast hverjar unnar 40 klukkustundir ein tryggingarvika. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal við ákvörðun iðgjaldsins miða við meðalkaup á síðastliðnu ári samkvæmt nefndum taxta og skal það reiknast af Hagstofu Íslands.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið hverjir hafi verið fastráðnir starfsmenn kæranda á árinu 1981 og hverjir lausráðnir. Þá liggur heldur ekki fyrir fjöldi unninna klukkustunda lausráðinna starfsmanna. Að því virtu og með vísan til framangreindra lagaákvæða þykir kæra kæranda vanreifuð og er henni af þeim sökum vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja