Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 270/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 44. gr., 53. gr., 59. gr., 96. gr. 1. mgr. og 3. mgr.
Reiknað endurgjald — Sérstök fyrning — Fyrirspurn skattstjóra — Tilkynning skattstjóra — Málsmeðferð — Kröfugerð — Vanreifun — Frávísun — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Tekjufærsla vegna verðbreytinga — Lántaka — Sönnun — Sjávarútvegsskýrsla
Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði ýmsar breytingar á skattframtali kæranda árið 1982. Vextir, er færðir voru til frádráttar í skattframtali vegna skuldar við KEA er sögð var vegna íbúðarbyggingar, voru felldir brott af framtali og skuldin sjálf færð á sjávarútvegsskýrslu og vextirnir til gjalda þar. Skattstjóri byggði á því, að fram hefði komið af hálfu kæranda, að skuld þessi við KEA væri nær eingöngu tilkomin vegna útgerðar. Þá kom fram af hálfu skattstjóra, að ekki væri um fasteignaveðlán að ræða og liðin væru meira en 6 ár síðan íbúðarhúsbygging kæranda hófst. Væru því ekki uppfyllt skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna þessarar tilfærslu skuldar hækkaði skattstjóri tekjufærslu vegna verðbreytinga, sbr. ákvæði 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá kom fram, að tekjur hefðu verið vantaldar og voru þær færðar til tekna. Ennfremur voru fyrningar leiðréttar, er leiddi til hækkunar á þeim lið. Að gerðum breytingum skattstjóra námu hreinar tekjur af rekstri 53.749 kr., en framreiknaðar eftirstöðvar eldri rekstrartapa námu 96.430 kr. og yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs nam því 42.681 kr. samkvæmt þessu. Hluti hinna vantöldu tekna ákvað skattstjóri, að leiða skyldi til hækkunar á reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Í kæru til skattstjóra, dags. 15. október 1982, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda, að skuld við KEA verði ekki talin á sjávarútvegsskýrslu, heldur sem lán tekið utan rekstrar, enda sé kæranda fyllilega heimilt að taka lán í eigin nafni og leggja féð fram til rekstrar og greiða sjálfur vexti, sem ekki yrðu þá gjaldfærðir á rekstrarreikningi. Var því mótmælt, að vaxtagjöld yrðu færð til gjalda í rekstri svo og tekjufærslu vegna verðbreytinga vegna uppfærslu skuldarinnar í efnahagsreikningi. Taldi umboðsmaður kæranda, að fjármögnun og kostnaður, sem af henni leiddi, væri ákvörðunaratriði stjórnanda hvers fyrirtækis. Þá taldi umboðsmaðurinn, að ekki lægi ljóst fyrir, hver uppruni skuldar við KEA væri og yrði að kanna viðskipti kæranda við kaupfélagið og hlutfall úttektar til útgerðar og einkaúttektar svo og innleggja útgerðar og einkainnleggja. Þess var krafist í kærunni, að reksturinn kæmi ekki út með tapi heldur kæmu breytingar til lækkunar á gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi að því lágmarki, sem eðlilegt mætti teljast í hans atvinnugrein. Þá var á það bent, að taka yrði tillit til sérstakrar fyrningar samkvæmt 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á móti tekjufærslu vegna verðbreytinga.
Með úrskurði, dags. 19. nóvember 1982, ákvað skattstjóri, að álögð opinber gjöld skyldu óbreytt standa. Rök skattstjóra fyrir tilfærslu skuldar við KEA eru greind hér að framan. Þá benti skattstjóri á, að það væri á misskilningi byggt, að rekstrartap væri rekstrarárið 1981 að gerðum breytingum og ákvörðun reiknaðra launa ylli ekki myndun rekstrartaps það ár. Hins vegar væri um að ræða rekstrartöp fyrri ára, sem kæmu til frádráttar tekjum og eftirstöðvar þeirra yfirfærðust til næsta árs.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. desember 1982. Ítrekaðar eru kröfur um meðferð skuldar við KEA og vaxtagjalda vegna hennar. Þá er og ítrekað, að reiknað endurgjald miðist við, að rekstur komi út hallalaus, enda séu forsendur fyrir ákvörðun reiknaðs endurgjalds brostnar vegna breytinga þeirra, sem ákveðnar hafi verið.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 10. mars 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Telur ríkisskattstjóri, að breyting skattstjóra á skattframtali kæranda hafi falið í sér leiðréttingu í samræmi við lög og fyrirmæli, er gildi um álagningu gjalda. Að því er varði eigin laun kæranda þá beri að ákvarða þau óháð rekstrarafkomu þannig að breytingar skattstjóra geti ekki gefið tilefni til lækkunar á reiknuðum eigin launum.
Með bréfi, dags. 28. maí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að fyrirhugað væri að bæta við tekjur hans ætluðum vanframtöldum afurðatekjum. Svarfrestur var veittur til 1. júní 1982. Barst svar kæranda, dags. þann 16. júní 1982. Eigi verður séð, að skattstjóri hafi tilkynnt kæranda um þá breytingu, sem hann gerði á skattframtalinu í framhaldi af nefndu fyrirspurnarbréfi, sbr. 3. mgr. 96. gr. nefndra laga, og eigi fær það staðist, sem segir í fyrirspurnarbréfi þessu, að skattframtali verði breytt án tilkynningar þar um, berist svar ekki eða staðfesti svar fyrirspurnaratriði. Þrátt fyrir þessa hnökra á málsmeðferð skattstjóra að því er þetta atriði snertir þykir eigi ástæða til að ómerkja þessa breytingu, enda eigi ágreiningur um hana í máli þessu. Hinar kærðu breytingar voru boðaðar kæranda með þremur bréfum, dags. 24. og 26. ágúst 1982 og 22. september 1982. Í þeim bréfum öllum er gefinn 7 daga svarfrestur frá dagsetningu þeirra. Með bréfi, dags. 4. október 1982, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1982. Engin svör höfðu borist, en fram kemur af málsgögnum, að skattstjóri hefur að nokkru byggt á munnlegum skýringum kæranda, er eigi var rétt, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af málflutningi umboðsmanns kæranda er það helst að ráða, að óljóst sé, hvernig skuld kæranda við KEA hafi stofnast. Liggur það næst kæranda að upplýsa um slíkt, en enga gangskör hefur hann gert að því. Þykir því málið vanreifað af hendi kæranda að þessu leyti og er þessu kæruatriði því vísað frá. Svo sem fram kemur hjá skattstjóra og rakið er hér að framan varð eigi tap af rekstri rekstrarárið 1981 við þær breytingar, sem skattstjóri gerði, þ. á. m. við hækkun reiknaðs endurgjalds vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Kæran til ríkisskattanefndar er eigi svo glögg sem skyldi. T.d. er eigi ljóst, hvort af hálfu kæranda er krafist sérstakrar fyrningar á móti þeirri hækkun á tekjufærslu, sem skattstjóri ákvað, sbr. 44. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þá hvað fyrna beri, en á móti upphaflega reiknaðri tekjufærslu er slík fyrning færð. Þá skortir ennfremur rökstudda kröfu um fjárhæð reiknaðs endurgjalds af hendi kæranda, en hann sýnist eigi binda sig lengur við það, sem hann upphaflega tilfærði í skattframtali sínu, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Allir þessir þættir þurfa að liggja ljóst fyrir til þess að unnt sé að taka kröfur kæranda til úrlausnar með fullnægjandi hætti. Eftir atvikum og svo sem málið liggur fyrir þykir þó mega lækka reiknað endurgjald í þá fjárhæð, sem kærandi ákvarðaði sjálfur upphaflega í skattframtali sínu. Að öðru leyti þykir eigi unnt að fjalla efnislega um kröfur kæranda um þessi kæruatriði að svo stöddu sökum vanreifunar af hans hendi.