Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 197/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 1. mgr. 1. tl.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Dráttarvextir — Tímaviðmiðun vaxtagjalda — Vaxtagjöld, tímaviðmiðun — Vaxtagjöld, gjaldfallin — Gjaldfallin vaxtagjöld — Verðbætur — Gjaldfallnar verðbætur — Verðbætur, gjaldfallnar

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hefði gert breytingar í skattframtali kærenda árið 1989. Að því er varðar kæruefnið til ríkisskattanefndar þá lækkaði skattstjóri tilgreind vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali þeirra úr 306.912 kr. í 168.432 kr. þar sem upplýsingar væru ekki í samræmi við framtalsskil undanfarinna ára (upphaflegur höfuðstóll væri mun hærri). Ennfremur segir í bréfinu að breytingin sé gerð með vísan til bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 75/1981, sbr. lög nr. 92/1987, og fyrri framtala. Voru kærendur beðnir að upplýsa skriflega ef umrædd breyting væri röng eða byggð á misskilningi. Kærufrestur til skattstjóra væri 30 dagar frá póstlagningu álagningar.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var tilkynningu skattstjóra svarað með bréfi, dags. 25. júlí 1989. Segir svo í bréfinu varðandi vaxtagjaldalækkun skattstjóra:

„Vaxtagjöld lífeyrissjóðs Vestfirðinga á árinu eru greiddir vextir og verðbætur auk dráttarvaxta vegna uppsafnaðra vanskila. Höfuðstóll fyrri framtala er ekki réttur þar sem láðst hefur að reikna upp vísitöluhækkun á lánið. Mótmælt er því lækkun vaxta og þess krafist að framtal standi óbreytt eins og það var sent inn.“

Með kæruúrskurði, dags. 6. apríl 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum að aðeins vextir, verðbætur og dráttarvextir tilheyrandi árinu 1988 heimiluðust til frádráttar í skattframtali 1989.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. maí 1990. Er úrskurði skattstjóra um lækkun vaxtagjalda í skattframtali 1989 mótmælt og þess krafist að framtaldir vextir verði látnir standa óbreyttir. Segir m.a. svo í bréfinu:

„Með vísan til 51. gr. laga 75/1981 og leiðbeininga um fyllingu skattframtals einstaklinga, verður ekki séð að röksemd skattstofu um að einungis vextir, verðbætur og dráttarvextir ársins 1988 komi til frádráttar í framtali 1989.

Framtaldir vextir og verðbætur eru allir greiddir á árinu og ekki er hægt að lesa út úr 51. gr. laga 75/1981 að einungis geti komið til frádráttar vextir tilheyrandi viðkomandi tekjuári.“

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja