Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 288/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 44. gr. 1. mgr., 53. gr., 74. gr. 3. tl.  

Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Verðbreytingarfærsla — Sérstök fyrning — Mat skattskyldra eigna til eignarskatt — Fyrnanlegt lausafé — Leiðrétting ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. þann 28. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tekjufærsla vegna verðbreytinga hefði verið hækkuð, þar sem við ákvörðun kæranda á stofni til verðbreytingarfærslu samkvæmt 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefði ekki verið tekið tillit til langtímaskulda. Í kæru, dags. þann 25. ágúst 1982, fór umboðsmaður kæranda þess á leit, að nýtt yrði heimild 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um fyrningu eigna um þar greint hlutfall af tekjufærslu vegna verðbreytinga. Með úrskurði, dags. þann 21. febrúar 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem eignir þær, sem ætlunin væri að fyrna samkvæmt ofannefndri heimild, væru ekki tilgreindar og útreikningar fyrninganna fylgdu ekki.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. þann 10. mars 1983, og fylgdi kærunni verðbreytingarfærsla R-3, fyrningarskýrsla R-2, greinargerð um aðstöðugjaldsstofn og útreikningur skattstofna. Í gögnum þessum er tekið tillit til þeirra breytinga, sem að ofan getur, þ.e. hækkunar á tekjufærslu vegna verðbreytingar og þeirrar fyrningar, sem kærandi óskaði eftir í kæru til skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. þann 15. apríl 1983, fallist á kröfu kæranda með vísan til efnis nefndra fylgigagna með kæru.

Fallist er á kröfu kæranda um hin breyttu skattskil, sem fram koma af hans hendi í téðum gögnum. Eigi verður þó byggt á tilgreiningu eignarskattsstofns í innsendu skattstofnablaði, þar sem stofninn er þar ranglega ákvarðaður. M.a. telur kærandi, að gjaldfærð fyrning samkvæmt áðurnefndu ákvæði 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatts, eigi ekki að hafa áhrif á mat hinna fyrndu eigna til eignarskatts, er eigi fær staðist, sbr. 3. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er þetta og aðrir hnökrar á uppgjöri eignarskattsstofns leiðrétt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja