Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 309/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 44. gr. 1. mgr.  

Fyrning — Sérstök fyrning — Fyrning, sérstök — Fyrningarskýrsla

Kærð er álagning gjalda 1982 og er kæruatriðið sá hluti í úrskurði skattstjóra er varðar hækkun fyrningar skv. 44. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, að fjárhæð 49.668 kr. Í kæru gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Af okkar hálfu er gerð sú aðalkrafa að úrskurði skattstjóra um að nefndur hluti fyrri kæru (dags. 5. ágúst 1982) okkar sé vanreifaður verði hrundið og tekjuskattsstofn X. h.f. gjaldárið 1982 verði 493.969 kr., eftir að tekið hefur verið tillit til varasjóðsframlags skv. 12. tl. 1. málsgr. 31. gr. nefndra laga. Ljóst má vera að hækkun aukafyrninga færist til fyrningar á sömu eign og aukafyrningar gjaldársins 1982 voru færðar á í áður innsendu framtali X. h.f. Hér er um að ræða skrifstofubyggingu að D-götu. Telja verður að með orðunum „þeir útreikningar sem fylgja fyrningum eru ekki sýndir“ (tilvitnun í nefndan úrskurð skattstjóra), sé átt við að senda hefði átt nýja fyrningaskýrslu. Þessu er mótmælt m.a. með vísan til þess að skattstjóri samþykkir í nefndri kæru einfalda breytingu tekjuskattsstofns án þess að sent sé nýtt framtal 1982, skv. ennfremur 99. gr. nefndra laga.

Til vara krefjumst við þess, að verði ekki fallist á aðalkröfu okkar, þá verði nefnd hækkun fyrninga gjaldárið 1982 leyfð, að uppfylltum vanköntum þeim er skattstjóri sá við fyrri kæru, skv. meðfylgjandi fyrningaskýrslu. Tekjuskattsstofn X. h.f. verði því 493.969 kr. eftir að tekið hefur verið tillit til varasjóðsframlags skv. 12. tl. 1. málsgr. 31. gr. laga nr. 75/ 1981.“

Með bréfi, dags. 25. apríl 1983, fellst ríkisskattstjóri á aðalkröfu kæranda. Fallist er á aðalkröfu kæranda. Leiðrétta þykir bera eignarskattsstofn kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja