Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 315/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 106. gr., 117. gr. 3. mgr.   Auglýsing nr. 13/1970, um samning milli Íslands og Danmerkur til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir, 3. gr. B—liður 1. tl.   Auglýsing nr. 7/1966, um fullgildingu samnings milli Íslands og Noregs um tvísköttun, 24. gr.  

Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Tekjur erlendis — Milliríkjasamningur — Ríkisskattstjóri — Skattgreiðslur erlendis — Lækkunarheimild — Deiliaðferð — Álag — Ótakmörkuð skattskylda — Gildissvið tvísköttunarsamnings

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1982. Í skattframtalinu tilfærði hann tekjur frá tveimur íslenskum fyrirtækjum, en gat þess í athugasemdadálki skattframtalsins, að hann hefði starfað erlendis mestan hluta ársins 1981 og greitt þar skatta af launum sínum. Vinnustaðirnir hefðu verið í Grænlandi og í Noregi. Með bréfi, dags. 12. ágúst 1982, krafði skattstjóri kæranda upplýsinga um fjárhæð þeirra tekna, sem hann hefði aflað í Noregi og Grænlandi, sundurliðað eftir löndum svo og um dvalartíma erlendis. Svar barst ekki innan tilskilins frests og með bréfi, dags. 15. september 1982, áætlaði skattstjóri tekjur kæranda í Noregi og Grænlandi með 25% álagi og ákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 1982 samkvæmt því. Álagningin var kærð af hálfu umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 13. október 1982. Var upplýst um tekjur kæranda í nefndum löndum og dvalartíma þar og þess getið, að skattar hefðu verið greiddir af tekjunum í hlutaðeigandi ríkjum. Af þeim sökum bæri ekki að skattleggja hann á Íslandi af þessum tekjum. Þá fjallaði umboðsmaðurinn um tilhögun skattlagningar, ef svo yrði litið á að skattleggja bæri kæranda í samræmi við ákvæði tvísköttunarsamninga milli Íslands og Danmerkur og Íslands og Noregs. Var þess því aðallega krafist, að kæranda yrði ekki gert að greiða opinber gjöld á Íslandi vegna tekna sinna erlendis, en til vara, að farið yrði með álagninguna eftir þeim tvísköttunarsamningum, sem að framan greinir. Með úrskurði, dags. 26. október 1982, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Tekur skattstjóri fram, að upplýst hafi verið um tekjur kæranda erlendis og séu því opinber gjöld reiknuð að nýju og lagt 25% álag á gjaldstofna erlendis við útreikninginn. Við álagninguna sé höfð hliðsjón af tvísköttunarsamningi milli Íslands og Noregs. Hins vegar sé ekki í gildi samningur til þess að komast hjá tvísköttun að því er Ísland og Grænland varði og ekki hafi verið fengin heimild ríkisskattstjóra til þess að undanþiggja tekjurnar, sem aflað var á Grænlandi, skattlagningu.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. nóvember 1982, og gerðar sömu kröfur og í kæru til skattstjóra, dags. 13. október 1982. Umboðsmaðurinn heldur því fram, að álitaefni sé, hvort tvísköttunarsamningur milli Íslands og Danmerkur, taki ekki til tilviks kæranda. Kærandi hafi unnið hjá dönsku fyrirtæki, X A/S. Ljóst sé að teknanna hafi verið aflað á Grænlandi, en danskt fyrirtæki hafi innt launin af hendi og þau greidd í dönskum gjaldmiðli. Það komi því fullkomlega til álita að hafa hliðsjón af tvísköttunarsamningi milli Íslands og Danmerkur við ákvörðun gjalda kæranda gjaldárið 1982. Sé slík niðurstaða ekki óeðlileg, þegar tekið sé tillit til sambands Grænlands og Danmerkur. Þá er varpað fram spurningu og samlíkingu um íslenska flugmenn, sem starfi um tíma á Grænlandi og fái kaup sitt greitt í íslenskum krónum. Hvort þeir afli teknanna á Grænlandi eða Íslandi. Tekið er fram, að kærandi hafi ekki brugðið lögheimili sínu hér á landi, meðan á dvöl erlendis stóð.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 13. janúar1983:

„Að staðfest verði skattlagning hinna erlendu tekna hér á landi með þeim hætti er skattstjóri framkvæmir.

Eigi þykir þó ástæða til að neyta heimildar til beitingar álags skv. ákvæði 106. gr. skattalaga á hinar erlendu tekjur.

Kærandi var heimilisfastur hér á landi allt árið 1981 og telst því bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Hann er því skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað.

Við skattlagningu hefur skattstjóri réttilega tekið tillit til ákvæða í samningi milli Íslands og Noregs um að komast hjá tvísköttun varðandi tekjur kæranda í Noregi. Sambærilega heimild er ekki að finna gagnvart tekjum þeim er kærandi aflaði á Grænlandi en skv. 3. gr. samnings milli Íslands og Danmerkur um að komast hjá tvísköttun er birtur er í 2. deild Stjórnartíðinda nr. 13, dags. 1. júní 1970, tekur samningurinn ekki til tekna er aflað er á Grænlandi.

Ríkisskattstjóri fellst ekki á það með umboðsmanni kæranda að fyrrgreindur samningur taki til tilviks kæranda þar sem hann hafi unnið hjá dönsku fyrirtæki og laun hafi verið greidd í dönskum gjaldmiðli. Samlíking við störf flugmanna getur eigi átt við sökum eðlis þeirra starfa. Hér þykir bera að leggja til grundvallar þann stað þar sem teknanna er aflað.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar á skattgreiðslu vegna tekna er hann aflaði á Grænlandi og eigi verður séð að skattstjóri hafi bent kæranda á að leita til ríkisskattstjóra skv. heimild í 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981 en skv. því lagaákvæði er ríkisskattstjóra rétt að lækka álagða skatta er nemur skattgreiðslu erlendis.

Fallist ríkisskattanefnd á skattlagningu umræddra tekna hér á landi væri rétt að benda kæranda á að leita til ríkisskattstjóra á grundvelli framangreindrar heimildar.“

Kærandi er skattskyldur hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ber því að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað og eignarskatt af öllum eignum sínum hvar sem þær eru, sbr. upphafsákvæði greinarinnar. Skattlagningu á kæranda ber að haga í samræmi við ákvæði þeirra samninga, sem í gildi eru, til þess að koma í veg fyrir tvísköttun og taka til tilviks kæranda. Skattstjóri hefur við álagninguna gætt ákvæða samnings milli Íslands og Noregs um tvísköttun, sbr. auglýsingu nr. 7 frá 13. júní 1966, en samningurinn er birtur með henni. Við álagninguna tók skattstjóri tillit til tekna kæranda í Noregi með þeim hætti, sem heimilaður er í 1. tl. 24. gr. samningsins (deiliaðferðar). Samsvarandi samningur milli Íslands og Danmerkur, sbr. auglýsingu nr. 13 frá 1. júní 1970, en með henni er samningurinn birtur, tekur eigi til Grænlands samkvæmt skýru ákvæði b) liðs 1. tl. 3. gr. samningsins. Tekur samningurinn því eigi til þeirra tekna, sem kærandi aflaði á Grænlandi og verður eigi talið, að það fái neinu um það breytt, að kærandi starfaði hjá dönsku fyrirtæki. Kærandi kveðst hafa greitt skatta af þeim tekjum, sem hann aflaði á Grænlandi. Rétt er því að benda kæranda á þá heimild, sem ríkisskattstjóri hefur samkvæmt 3. mgr. 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til lækkunar skatta hér á landi með hliðsjón af skattgreiðslum erlendis. Samkvæmt þessu verður eigi fallist á kröfur kæranda. Hins vegar eru viðurlög þau, sem skattstjóri, lagði á tekjur kæranda erlendis, felld niður, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja