Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 320/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 6. gr., 7. gr. A-liður 1. tl., 82. gr.   Lög nr. 68/1971, 4. gr.   Lög nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 2. gr., 40. gr., 67. gr.  

Barn — Barnasköttun — Sköttun barns — eignarskattsstofn — Eignarskattur — Foreldri — Arfur — Stjórnarskrá — Stjórnskipulegt gildi laga — Valdsvið ríkisskattanefndar — Jafnræðisreglan — Skattaðilar — Lögjöfnun — Lögskýring — Eignarréttur — Andlag eignarskattsálagningar — Ákvörðun eignarskattsstofns

Málavextir eru þeir, að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1982 krafðist kærandi sérskattlagningar á eignir og eignatekjur dætra sinna, I. f. 15. júlí 1969 og D.E. f. 10. júní 1972. Í fylgiskjali með skattframtalinu var gerð grein fyrir eignum þessum, sem féllu dætrunum í arf eftir föður þeirra, eiginmann kæranda, sem andaðist á árinu 1981. Þá voru tekjur af eignunum færðar á sérstök skattframtöl dætranna (skattframtöl barna). Með bréfi, dags. 26. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að ekki hefði verið fallist á sérskattlagningu á eignir og tekjur dætranna. Með bréfi, dags. 26. ágúst 1982, var ákvörðun skattstjóra kærð til hans af hálfu umboðsmanns kæranda og ítrekaðar kröfur um sérskattlagninguna, þar sem framkvæmd álagningar skattstjóra íþyngdi kæranda umfram aðra gjaldendur. Var á það bent, að lögjafna mætti þeim aðstæðum, sem væru fyrir hendi um eignarskattsálagningu við álagningu tekjuskatts samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að skattleggja bæri slíkar eignir barna sérstaklega samkvæmt 6. gr. laganna. Þá var því í annan stað haldið fram, að 6. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt væri andstæð 67. gr. stjórnarskrárinnar og þeirri eignarréttarskipan, sem hún hvíldi á og að nefnd 6. gr. fengi ekki samræmst löggjafarhugtaki 2. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 40. gr. hennar, enda væri þessi skattlagningarregla ekki byggð á málefnalegum löggjafarsjónarmiðum.

Með úrskurði, dags. 28. september 1982, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Tók skattstjóri fram í úrskurðinum, að það væri ekki á valdsviði hans að veita úrlausn um það, hvort lagaákvæði brytu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá gat skattstjóri þess, að í 6. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kæmi fram sú meginregla, að börn innan 16 ára aldurs á viðkomandi tekjuári væru ekki sjálfstæðir skattaðilar. Frá því væri sú undantekning ein gerð, að ákveðnar tekjur mætti skattleggja sérstaklega hjá þeim. Í 82. gr. laga nr. 75/1981 væri kveðið á um, að eignir barna innan 16 ára aldurs, sbr. 6. gr. laganna, teldust með eignum foreldra eða hjá þeim, sem nytu barnabóta vegna barnsins. Þar sem fyrir hendi væri skýrt lagaákvæði um skattlagningu eigna barna yrði ekki komið við lögjöfnun með þeim hætti, sem haldið væri fram af hálfu kæranda.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. október 1982, og kröfur um sérskattlagningu barnanna ítrekaðar. Skírskotað er til sömu röksemda og fram koma í kæru til skattstjóra og vísað til lögjöfnunarkosts samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þá er auk annarra röksemda vakin athygli á þeirri heimild, sem fólst í 4. gr. eldri skattalaga til sérskattlagningar barna varðandi eignarskatt. Svo virðist sem það ákvæði hafi verið fellt úr gildandi lögum án nokkurra sérstakra umræðna eða óska einstakra þingmanna. Þá er þess krafist, að ríkisskattanefnd fjalli um það kæruatriði, að 82. gr. skattalaganna fái ekki samræmst stjórnarskránni og eignarréttarskipaninni. Þá er skírskotað til svonefndrar jafnréttisreglu og réttarþróunar undangenginna ára á sviði jafnréttismála og á það bent, að foreldrum efnaðra barna sé mismunað við slíka eignarskattsálagningu gagnvart öðrum skattgreiðendum. Þá sé aðili hér skattlagður vegna atriða, sem hann hafi ekki sjálfur forræði á.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 1982, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ríkisskattanefnd á eigi úrskurðarvald um það, hvort umrædd lagaákvæði brjóti í bága við einstök ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og er því eigi bær til umfjöllunar um þær málsástæður kæranda, sem á þessu eru byggðar. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

(Sjá hér dóm bæjarþings Kópavogs frá 15. október 1985 í málinu nr. 48/1984).

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja