Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 417/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 32. gr. 2. tl., 44. gr. 1. mgr., 53. gr.   Lög nr. 32/1978, V. kafli  

Hlutafélag — Hlutafjárhækkun — Hluthafalán — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Sérstök fyrning — Fyrnanleg eign — Hlutafjárloforð — Hluthafi — Ræktun á bújörðum

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var talið fram til skatts fyrir álagningu gjalda gjaldárið 1981 og er skattframtalið dagsett 19. júlí 1981. Með bréfi dags. 26. ágúst 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda um þá breytingu á framtalinu að til tekna vegna verðbreytinga hefðu verið færðar 1.069.853 kr. Í stað gjaldfærslu að fjárhæð 501.423 kr., þar sem stofn til verðbreytingarfærslu hefði ekki verið rétt ákvarðaður þar. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til ákvæða 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980, um breytingu á þeim lögum. Þannig breytt lagði skattstjóri framtalið til grundvallar álagningu gjalda.

Að hálfu kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru dags. 22. október 1981. Fylgdi þeirri kæru leiðrétt skattframtal 1981 og þess óskað að opinber gjöld yrðu endurákveðin í samræmi við það. Tekið er fram að á árinu 1979 hafi verið ljóst að hlutafé kæranda yrði aukið og hafi hluthafar þá greitt inn ákveðna fjárhæð vegna fyrirhugaðrar hlutafjáraukningar, sem formlega hafi verið gengið frá á árinu 1980, svo sem fram kæmi í efnahagsreikningi pr. 31. desember 1980. Á efnahagsreikningi pr. 31. desember 1979, sem fylgdi skattframtali 1980, væri þessi innborgun skráð „lán hluthafa“ sem væri ekki rétt. Fylgdi kærunni leiðréttur efnahagsreikningur pr. 31. desember 1979.

Með kæruúrskurði dags. 18. nóvember 1981, ákvað skattstjóri að álögð gjöld 1981 skyldu óbreytt standa. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á því að hlutafjáraukning í kæranda hafi ekki átt sér stað fyrr en á árinu 1980, og því stæði umrædd skuld 1.069.853 kr. Í efnahagsreikningi pr. 31. desember 1979, sem verðbreytingarfærsla hefði verið reiknuð af.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 16. desember 1981. Er kröfugerð hans svohljóðandi:

„Til viðbótar fyrri kæru vill umbj. m. taka fram:

Með kæru dags. 22. október 1981 til skattstjóra Norðurlandsumdæmis vestra fylgdi leiðrétt framtal í samræmi við lög nr. 75/1981, og var óskað eftir því, að opinber gjöld 1981 yrðu endurákveðin í samræmi við það.

Í úrskurði skattstjóra dags. 18. nóvember 1981 er aðeins fjallað um eitt atriði framtalsins, þ.e. verðbreytingarfærslu og hækkun skattstofu á tekjum vegna verðbreytinga og hafnaði hann gjaldfærslu skv. útreikningi á fskj. R-3 með framtali og ákvað að tekjuhækkun skattstofu skyldi standa og álögð gjöld yrðu óbreytt. Önnur atriði framtalsins, svo sem fyrningar (leiðréttar), voru því ekki tekin til greina.

Þessu er mótmælt og farið fram á að opinber gjöld verði endurákveðin í samræmi við leiðrétt framtal. Vegna útreiknings verðbreytingarfærslu, sem er í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, er vísað til skýringa í kæru dags. 22. október 1981.

Ef nefndin getur ekki fallist á umrædda gjaldfærslu vegna verðbreytinga og ákveður að verðbreytingartekjufærsla skattstjóra skuli standa, er til vara farið fram á að nýta heimild 44. gr. áðurnefndra laga um fyrningu á 40% tekjufærslu, 427.941 kr. sem dragist frá einhverju húsa á fyrningarskýrslu.“

Með bréfi dags. 10. mars 1981 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kröfu kæranda um niðurfellingu verðbreytingarfærslu verði hafnað.

Við ákvörðun á verðbreytingarfærslu í ársreikningum skattaðila árið 1980 skal miða við stöðu eigna og skulda í árslok 1979.

Skv. efnahagsreikningi er fylgdi skattframtali kæranda árið 1980 var fært til skuldar í árslok 1979 lán til (sic) hluthafa að fjárhæð 2.530.000 gkr.

Í kæru heldur umboðsmaður kæranda því fram að hér sé um að ræða hlutafjárloforð hluthafa og bendir í því sambandi á ársreikning kæranda er fylgdi skattframtali hans árið 1981 en þar kemur fram að hlutafé kæranda hefur verið aukið úr 500.000 gkr. í 4.000.000 gkr. Engin frekari gögn s.s. endurrit úr fundargerðarbók kæranda fylgdu framangreindu til stuðnings.

Krafa kæranda verður því með vísan til færslna í ársreikningi eigi talin eiga sér stoð.

Varðandi varakröfu kæranda þykja eigi efni til að fallast á hana þar sem fyrningar-skýrsla er fylgdi leiðréttu skattframtali hans 1981 byggir eigi á réttu endurmati.“

Fram kemur í málinu, að hlutafjárhækkun samkvæmt V. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, fór eigi fram, fyrr en á árinu 1980. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra og er aðalkröfu kæranda því hafnað. Fallist er á varakröfu kæranda um sérstaka fyrningu sbr. 44. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og er fyrning að fjárhæð 427.941 kr. færð til lækkunar á stofnverði ræktaðs lands.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja