Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 433/1983
Gjaldár 1981 og 1982
Lög nr. 75/1981, 4. gr. Lög nr. 73/1980, 36. gr. Lög nr. 48/1975, 1. gr. Lög nr. 68/1967, 5. gr.
Skattskylda — Lögaðili — Atvinnurekstur — Líknarstarfsemi — Endurhæfingarstöð — Iðnaðarmálagjald — Iðnlánasjóðsgjald — Aðstöðugjaldsskylda — HRD ár 1964 bls. 687 — Úrskurður fógetaréttar Kjósarsýslu dags. 17. október 1979
Kærð er álagning „allra opinberra gjalda utan launatengdra“ gjaldárin 1981 og 1982. Er þess krafist að gjöldin verði felld niður, þar sem kærandi sé undanþeginn skyldu til greiðslu þeirra. Plastiðjan Bjarg sé í eigu félags fatlaðra og rekin sem endurhæfingarstöð á sama grundvelli og Reykjalundur og Múlalundur og eigi því opinber skattlagning að vera sú sama og hjá þessum stofnunum.
Með bréfi, dags. 14. júlí 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Fallist er á að rekstur kæranda sé þáttur í líknarstarfsemi og verði kærandi því eigi talinn skattskyldur eftir ákvæðum laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.
Ber því að fella niður álagningu skattstjóra á opinberum gjöldum er byggist á ofangreindum lögum.“
Starfsemi kæranda verður eigi talinn atvinnurekstur hvorki í skilningi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. sjónarmið t.d. í dómi í dómasafni Hæstaréttar ár 1964, bls. 687 og úrskurði fógetaréttar Kjósarsýslu uppkveðnum þann 17. október 1979 í fógetamálinu Mosfellshreppur gegn Vinnuheimilinu að Reykjalundi. Ber því að fella niður þau gjöld sem lögð hafa verið á kæranda samkvæmt þeim lögum. Hins vegar verður eigi séð að nein lagaákvæði undanþiggi kæranda skyldu til greiðslu á iðnaðarmálagjaldi, sbr. lög nr. 48/1975, og á gjaldi til Iðnlánasjóðs, sbr. lög nr. 68/1967, með síðari breytingum.