Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 435/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 4. gr.
Skattskylda — Lögaðili — Atvinnurekstur — Stjórnmálastarfsemi — Stjórnmálaflokkur — HRD ár 1946 bls. 433 — Blaðaútgáfa
Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði kæranda að greiða tekjuskatt og eignarskatt gjaldárið 1981 eftir áætluðum gjaldstofnum. Umboðsmaður kæranda kærði þessa álagningu til niðurfellingar með kærubréfi, dags. 16. október 1981, til skattstjóra.
Með úrskurði, dags. 28. desember 1981, ákvarðaði skattstjóri að hin kærðu gjöld skyldu óbreytt standa. Taldi skattstjóri, að kærandi væri sjálfseignarstofnun í merkingu 5. tl. 2. gr.
laga nr. 75/1981 og að undanþáguákvæði 6. tl. 4. gr. laganna tækju ekki til hennar þar sem kærandi ræki umtalsverða atvinnu í sambandi við blaðaútgáfu. Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 12. janúar 1982. Gerir hann þá kröfu, að hinn álagði tekjuskattur og eignarskattur gjaldárið 1981 verði felldir niður. Mótmælir hann því að kærandi sé sjálfseignarstofnun. Stjórnmálafélög þau, sem greind séu í kæru til skattstjóra, eigi óumdeilanlega blaðið Dag eða Útgáfufélag þess eins og það hafi verið nefnt, og beri á því fjárhagslega ábyrgð og stjórni því. Fyrir því finnist enginn stafur, að um sjálfseignarstofnun sé að ræða, að því er það snertir.
Ef talið yrði að blaðaútgáfa þessi kynni að verða talin til atvinnustarfsemi þannig að 6. tl. 4. gr. 1. 75/1981 taki ekki til hennar, þá sé til vara vísað til 5. tl. sömu gr. Því sjónarmiði til stuðnings megi m.a. vísa til 1. tl. 6. gr. regl. nr. 245/1963, en þar séu stjórnmálafélög sett á bekk með vísindafélögum, hjúkrunar- og líknarfélögum o.s.frv. allt eins og nefndur töluliður mæli fyrir um.
Af ríkisskattstjóra hálfu er með bréfi, dags. 14. júlí 1983, gerð svofelld krafa í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Kærandi er sameignarfélag í eigu Framsóknarfélags Eyjafjarðar og Framsóknarfélags Akureyrar. Megintilgangur starfsemi kæranda er að gefa út blaðið Dag sem er málgagn Framsóknarmanna.
Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1946, bls. 433, var komist að þeirri niðurstöðu að útgáfa Alþýðublaðsins væri eðlilegur þáttur í stjórnmálastarfsemi Alþýðuflokksins en ekki raunverulegur atvinnurekstur.
Telja verður tilvik kæranda sambærilegt og í framangreindu máli og með vísan til niðurstöðu hæstaréttar er fallist á kröfu kæranda.“
Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfur kæranda.