Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 447/1983

Gjaldár 1982

Skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1982, liður 3.2.2.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 2. og 3. tl., 99. gr. 1. mgr., 116. gr.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Eigin notkun — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat — Fargjöld — Langferðir — Ríkisskattstjóri — Vinnustaður — Kærufrestur — Frávísun — Síðbúin kæra — Sönnun — Fargjaldakostnaður

Málavextir eru þeir, að kærandi móttók ökutækjastyrk að fjárhæð 44.502 kr. frá vinnuveitanda, X. sf. Sömu fjárhæð kærði kærandi til frádráttar sem kostnað á móti ökutækjastyrk þessum, sem hann tekjufærði. Samkvæmt skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1981, sem fylgdi skattframtali hans árið 1982 nam heildarakstur hans á árinu 1981 alls 28.500 km. Akstur milli heimilis og vinnustaðar var talinn 20.000 km, sem allur var talinn vera í þágu vinnuveitanda. Akstur í eigin þágu var talinn vera 6.000 km og akstur í þágu vinnuveitanda alls 22.500 km, sem samkvæmt framansögðu var að meginstofni til fólginn í akstri milli heimilis og vinnustaðar.

Með bréfi, dags. 11. júní 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að kostnaður á móti tekjufærðum ökutækjastyrk hefði verið lækkaður í 27.506 kr. á þeim forsendum, að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra skyldu 30% aksturs milli heimilis og vinnustaðar teljast í eigin þágu, sbr. 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og matsreglur tilgreindar á eyðublaði fyrir ökutækjastyrk og ökutækjarekstur. Samkvæmt þessu bæri að miða frádráttarbæran ökutækjakostnað við 16.500 km akstur. Með kæru, dags. 28. ágúst 1982, var þessari breytingu mótmælt af hálfu kæranda. Tók kærandi fram, að starfsmenn X. sf. hefðu fengið kostnað viðurkenndan á móti ökutækjastyrk, þar sem vegalengd milli heimilis og vinnustaðar væri meiri en 25 kílómetrar og væri sérstakt samkomulag um þetta við skattyfirvöld. Þá gat kærandi þess í kærunni, að hann vildi breyta skýrslu sinni um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á svofelldan hátt: „Varðandi innsent eyðublað þá vil ég breyta „akstri í eigin þágu til og frá vinnu“6.000 km í að það verði 7.000“ fyrir annan akstur í eigin þágu.“

Með úrskurði, dags. 26. október 1982, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Kæran hefði verið móttekin þann 30. ágúst 1982, en kærufrestur hefði runnið út þann 28. ágúst 1982, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en auglýsing um lok álagningar samkvæmt 98. gr. nefndra laga hefði birst í Lögbirtingablaði útgefnu þann 30. júlí 1982.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. nóvember 1982. Er þess krafist, að málið verði tekið til úrlausnar. Kærandi kveðst hafa látið kæruna til skattstjóra í póstkassa skattstofunnar þann 28. ágúst 1982 eða áður en kærufrestur var liðinn.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 28. júní 1983, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Með skírskotun til staðhæfingar kæranda um skil kærunnar til skattstjóra þykir eftir atvikum rétt að taka mál þetta til efnisúrlausnar. Svo sem fram kemur hér á undan hefur akstur sá sem talinn er vera vegna atvinnu kæranda að mestu leyti falist í því að komast til og frá vinnu, en kærandi býr í Reykjavík og starfar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum kæranda í skýrslu um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1981 og kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1982, hefur akstur í þágu vinnuveitanda annar en akstur milli heimilis og vinnustaðar numið að því er best verður séð 1.500 km. Verður því að telja, að greiðsla vinnuveitanda til kæranda, sú sem í máli þessu greinir, sé fyrst og fremst vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Frádráttur á móti greiðslu frá vinnuveitanda þykir því í máli þessu einkum geta byggst á 2. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lið 3.2.2. í skattmati ríkisskattstjóra, dags. 7 janúar 1982, tekjuárið 1981. Þegar þetta er virt þykir óyggjandi mega telja, að fjárhæð sú, sem skattstjóri ákvarðaði til frádráttar greiðslu frá vinnuveitanda, sé eigi lægri en kostnaður kæranda vegna bifreiðaaksturs í þágu vinnuveitanda svo og fargjaldakostnaður, sá sem kæranda ber samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og umræddum matsreglum. Krafa kæranda verður því eigi tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja