Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 452/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. mgr. 9. tl., 53. gr. 3. mgr.  

Olíusamlag — Samlag — Stofnsjóður — Stofnsjóðsinnstæða — Sölusamtök — Eignarhlutur í félagi — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Óverðtryggð innstæða — Lögskýring — Arður — Arðsfrádráttur — Reiknaður arður — HRD. 30. október 1986 í málinu nr. 98/1985.

Málavextir eru þeir, að með fyrirspurnarbréfi, dags. 6. desember 1982, óskaði skattstjóri m.a. eftir, að kærandi skýrði nánar tölu á verðbreytingarfærslublaði „Skuldabréf til lengri tíma o.s.frv.“ Samkvæmt leiðbeiningum á bakhlið eyðublaðsins teldist stofnsjóðseign í samvinnufélagi og eignarhlutir í félögum ekki til eignar í þessu sambandi. Þá var kærandi beðinn að skýra nánar gjaldfærslu á arði kr. 150.000 (10%) út frá 9. tl. 31. gr. skattalaga. Í svarbréfi, dags. 28. desember 1982, vísar kærandi til svarbréfs síns, dags. 24. sama mánaðar til skattstjóra. Þar segir kærandi, að tekjur af stofnsjóðsinneign í samlagi séu skattskyldar og því sé rökrétt að slík eign komi til útreiknings verðbreytingarfærslu. Bakhlið verðbreytingarblaðs taki ekki á slíku tilviki. Í fyrrgreinda svarbréfinu er ítrekað að framsetning verðbreytingarfærslublaðs með skattframtali kæranda 1982 verði tekin gild. Varðandi gjaldfærslu arðs 150.000 kr. er í sama svarbréfi gefin sú skýring, að frádreginn hafi verið helmingur greidds arðs og helmingur reiknaðs arðs.

Með bréfi, dags. 7. janúar 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun álagðra opinberra gjalda á hann gjaldárið 1982. Frádráttur hefði verið lækkaður um 75.000 kr. þ.e. gjaldfærslu arðs umfram 5% af nafnverði hlutafjár sbr. 9. gr. (sic) laga nr. 75/1981. Verðbreytingarfærsla hefði verið leiðrétt út frá 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981. Eignarhlutir í félögum teldust ekki til eigna er færast skyldu á verðbreytingarfærslublað. Verðbreytingarfærsla yrði 215.537 kr. í stað 154.191 kr. Tekjuskattsstofn yrði 759.302 kr.

Umboðsmaður kæranda kærði nefnda endurákvörðun skattstjóra til hans með kærubréfi, dags. 1. febrúar 1983. Mótmælt var lækkun á gjaldfærslu arðs og hækkun á tekjufærslu verðbreytingarfærslu. Frádráttur vegna greidds arðs hafi numið 75.000 kr. og samkvæmt heimild í síðasta m.l. 9. gr. (sic) hafi einnig verið dreginn frá reiknaður arður 75.000 kr. Þótt frádráttur verði með þessu meiri en 5% af nafnverði hlutafjár, þá hljóti þetta að vera heimilt á því ári sem reiknaður arður sé fyrst tekinn til gjalda. Eftir það ár komi aðeins reiknaður arður til gjalda að hámarki 5% af nafnverði. Varðandi breytingu á verðbreytingarfærslu er vísað til svarbréfs, dags. 28. desember 1982. Til vara óskaði umboðsmaðurinn eftir því í kæru sinni til skattstjóra, að tillag í varasjóð reiknaðist 25% af breytingu á tekjuskattsstofni.

Með úrskurði uppkveðnum 10. febrúar 1983 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda að öðru leyti en því að fallist var á varakröfu kæranda um hækkun varasjóðstillags. Í úrskurði skattstjóra segir, að skv. 9. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 skuli frádráttur vegna arðs aldrei vera hærri en 5% af nafnverði hlutafjár þ.e. 75.000 kr. hjá kæranda. Stofn til verðbreytingartekjufærslu hafi verið hækkaður um 114.684 kr. Eignarhluti kæranda í stofnsjóði Olíusamlags útvegsmanna 114.656 kr. og stofnsjóði SH. 28. kr. hafi verið talinn til eigna á verðbreytingarfærslublaði. Með vísan til 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 og nánari skýringa á bakhlið verðbreytingarfærslublaðs beri ekki að telja eignarhluti í félögum og stofnsjóðseignir til eigna er færast eigi á nefnt eyðublað.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 10. mars 1983. Er óskað eftir úrskurði nefndarinnar um ágreiningsefni þau varðandi skattframtal kæranda 1982 er fram komi í hinum kærða úrskurði skattstjóra. Varðandi rökstuðning er vísað til bréfa, dags. 28. desember 1982 og 1. febrúar 1983. Auk þess segist umboðsmaðurinn vilja benda á, að fjöldi fyrirtækja hafi notið „tvöfalds“ frádráttar á arði fyrsta árið, sem heimilt hafi verið að draga hluta af reiknuðum arði frá tekjum. Umbjóðandi sinn hljóti að eiga rétt á sömu meðhöndlun þótt hann hafi verið seinna á ferð með sinn frádrátt.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 9. maí 1983, gert svofellda kröfu í kærumáli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Skv. ótvíræðu ákvæði 9. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt takmarkast frádráttur kæranda vegna greidds arðs við 5% af nafnverði hlutafjár.“

Umboðsmaður kæranda hefur að ósk ríkisskattanefndar lagt fram myndrit stofnsamnings og laga fyrir Olíusamlag útvegsmanna. Samkvæmt efnahagsreikningi kæranda hinn 31. desember 1980 taldi hann sér til eignar undir liðnum hlutabréf og stofnfé, liðinn olíusamlag útvegsmanna 11.465.554 gkr. Gerir hann þá kröfu, að eignaliður þessi verði talinn meðal eigna þeirra, er mynda eigi stofn til útreiknings verðbreytingarfærslu í ársreikningi hans 1981. Krafa þessi er tekin til greina.

Þá þykir einnig bera að taka kröfu kæranda til greina um að stofnsjóðseign hans í SH. 2.806 gkr. samkvæmt efnahagsreikningi hans hinn 31. desember 1980 verði talin meðal eigna þeirra, er mynda eigi stofn til útreiknings verðbreytingarfærslu í ársreikningi hans 1981. Með hliðsjón af því að kærandi er í ársreikningi sínum 1981 og skattframtali 1982 að breyta um frádráttarreglu varðandi arðsfrádrátt, þykir mega fallast á þá kröfu hans að hann fái að draga frá helming greidds arðs og reiknaðs arðs í skattframtali sínu 1982. (Sjá dóm bæjarþings ísafjarðar dags. 27. febrúar 1985 í máli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn kæranda í þessu máli varðandi verðbreytingafærsluna, þar sem komist var að annarri niðurstöðu. Í HRD. 30/10 1986 var bæjarþingsdómurinn staðfestur að því er varðar stofnsjóðsinneign í olíusamlaginu, en krafa kæranda tekin til greina varðandi stofnsjóðsinneign í S.H.)

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja