Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 468/1983
Gjaldár 1982
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 59. gr., 96. gr., 106. gr
Bifreiðahlunnindi — Eigin notkun — Bifreiðahlunnindamiði — Forstjóri — Sönnun — Álag — Endurákvörðun — Áætlun — Vantaldar tekjur — Vefenging skattframtals — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra
Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 1. desember 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að samkvæmt upplýsingum frá X. h.f. hefði bifreið fyrirtækisins verið „vistuð við heimili yðar utan vinnutíma hjá félaginu á árinu 1981.“ Þá gat skattstjóri þess, að félagið upplýsti einnig, að afnot kæranda af bifreiðinni væru takmörkuð við notkun í þágu þess. 1 málinu liggur fyrir ljósrit af bifreiðahlunnindamiða, útgefnum af X. vegna afnota kæranda af bifreið fyrirtækisins, þar sem nefndrar takmörkunar á afnotum er getið. Skattstjóri tók fram í téðu bréfi, að afnot þau, sem fælust í akstri kæranda á bifreiðinni milli1 heimilis og vinnustaðar teldust til skattskyldra hlunninda samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri fór þess á leit við kæranda, að hann staðfesti, að hann hefði engin eigin afnot haft af bifreiðinni að frátöldum akstri milli heimilis og vinnustaðar. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. desember 1982, er tekið fram, að kærandi telji bifreiðina nær eingöngu notaða í þágu fyrirtækisins. Akstur bifreiðarinnar milli heimilis og vinnustaðar sé m.a. af gæsluástæðum, þar sem starfsstöð fyrirtækisins sé fjarri íbúðarbyggð og því óæskilegur geymslustaður bifreiðar um nætur. Þess er getið í svarbréfinu, að heildarakstur milli heimilis og vinnustaðar og hugsanleg einkanot sem í hæsta lagi séu alls 3.000 km. Þá var tekið fram, að kærandi ætti sjálfur bifreið sem hann notaði í einkaþágu.
Með bréfi, dags. 9. febrúar 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1982 til endurálagningar og færa honum til tekna bifreiðahlunnindi, sem fyrirhugað væri að miða við 7.000 km akstur að viðbættu 25% álagi á vantalin hlunnindi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri kvaðst líta svo á, að kærandi hefði í raun haft til afnota að eigin vild bifreið áðurnefnds fyrirtækis. Væri því ætlað, að afnotin af bifreiðinni í einkaþágu væru mun meiri en kærandi hefði gert grein fyrir í svarbréfi sínu, dags. 13. desember 1982. Samkvæmt þessu myndu skattskyldar tekjur hækka um 18.506 kr., á skattframtali 1982, en hlunnindamat samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra væri 2,35 kr. á km.
Fyrirhugaðri tekjuhækkun var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 19. febrúar 1983. Var gerð sú aðalkrafa að engin einkanot yrðu metin, til vara að hlunnindamatið yrði miðað við 1.500 km akstur í einkaþágu og til þrautavara, að miðað yrði við 3.000 km akstur í einkaþarfir.
Með bréfi, dags. 18. mars 1983, hækkaði skattstjóri tekjur kæranda um 16.450 kr., vegna vantalinna bifreiðahlunninda að viðbættu 25% álagi og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 í samræmi við þessa tekjuhækkun. Tók skattstjóri fram, að fyrir lægi, að kærandi hafði á árinu 1981 haft að eigin vild endurgjaldslaus afnot af bifreið í eigu X. Þá væri eigi hjá því komist að beita álagi, þar sem bifreiðahlunnindi undanfarin ár hefðu verið vantalin. Endurákvörðuninni var mótmælt af hálfu kæranda í kæru, dags. 23. mars 1983. Ítrekaði kærandi þar fyrri rök þess efnis, að nauðsyn bæri til vegna bílaþjófa og skemmdarvarga að geyma bifreiðir fyrirtækisins við heimili starfsmanna. Með úrskurði, dags. 20. apríl 1983, hafnaði skattstjóri kærunni.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. maí 1983. Eru gerðar sömu kröfur og um getur í bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 19. febrúar 1983, og viðurlögum eigi beitt, ef skattskyld bifreiðahlunnindi verða ákveðin sem skýrt er frá hér að framan. Þess er getið, að kærandi sé forstjóri X. og framtalin laun hans frá fyrirtækinu séu um 40% hærri en hæstu viðmiðunarlaun samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Vantalin hugsanleg bifreiðahlunnindi séu því ekki sérstakt áhugamál kæranda, heldur vefenging skattstjóra á innsendu skattframtali, sem ekki verði unað við. Að öðru leyti er vísað til fyrri raka og skýringa.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 21. júní 1983, gerðar svofelldar kröfur í málinu:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur á árinu 1981 haft afnot bifreiðar í eigu fyrirtækis þess er hann starfar við og meðal annars nýtt hana til að fara í og úr vinnu. Kærandi hefur eigi mótmælt bifreiðaafnotum en mótmælt að þau séu það mikil að leiða eigi til skattskyldu.
Afnot kæranda af téðri bifreið verða tvímælalaust talin skattskyld hlunnindi skv. A-lið 7. gr. skattalaganna og bar því kæranda, þegar við framtalsgerð, að gera sérstaka grein fyrir þeim hlunnindum á skattskýrslu sinni. Við mat á fjárhæð hlunnindanna verður ekki tekið mið af öðrum tekjum kæranda heldur byggt á hvað teljist sennilegur einkaakstur. Skattstjóri hefur við ákvörðun sína lagt til grundvallar 7.000 km einkaakstur og verður eigi annað séð en að skattstjóri hafi gætt þar sanngirni en 7.000 km akstur getur eigi talist verulegur.
Af hálfu kæranda hafa ekki komið fram neinar skýringar er bent gætu til takmarkaðs aksturs kæranda, s.s. dvöl erlendis eða langvarandi bilun ökutækis.
Í skattalögum eru eins og áður hefur komið fram ákvæði er mæla fyrir um að bifreiðahlunnindi skuli skattlögð. Þannig hefur löggjafinn lagt skyldur á hendur skattyfirvöldum að hafa eftirlit með að slík bifreiðahlunnindi séu framtalin og þá hefur löggjafinn ennfremur falið ríkisskattstjóra að meta til peninga hlunnindi. Verður því að telja að skattyfirvöld hafi heimild til að ákvarða fjárhæð slíkra hlunninda þegar af hálfu framteljenda er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir þeim enda liggi fyrir viðurkenning á móttöku þeirra.
Að virtu framangreindu krefst ríkisskattstjóri staðfestingar á úrskurði skattstjóra og þar með staðfestingu á þeirri málsmeðferð sem þar er viðhöfð.“
Í máli þessu liggur ljóst fyrir, að kærandi telur einkaafnot sín af bifreið í eigu X. nánast engin, þar sem hann lítur svo á, að akstur bifreiðarinnar milli heimilis og vinnustaðar sé vegna öryggisráðstafana í þágu fyrirtækisins og því engin einkaafnot þeim akstri samfara. Þá liggur fyrir, að samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins á bifreiðahlunnindamiða voru umráð kæranda yfir bifreiðinni takmörkuð við notkun í þágu fyrirtækisins. Skattstjóri staðhæfir, að kærandi hafi haft að eigin vild endurgjaldslaus afnot bifreiðarinnar, er eigi verður skilið öðruvísi en honum hafi verið frjáls einkanotkun bifreiðarinnar. Eigi verður séð, hvernig skattstjóri kemst að þessari niðurstöðu. Hvorki verður hún leidd af skýringum kæranda né upplýsingum fyrirtækisins. Önnur gögn málsins geta eigi leitt til hennar. Ákvörðun skattstjóra þykir því eigi nægum rökum studd. Kærandi hefur gefið þær upplýsingar í málinu, að heildarakstur milli heimilis og vinnustaðar og hugsanleg einkanot sé í hæsta lagi samtals 3.000 km, sbr. og þrautavarakröfu kæranda. Við ákvörðun á fjárhæð skattskyldra bifreiðahlunninda kæranda þykir rétt að miða við þennan akstur, enda verður eigi fallist á þá röksemd kæranda, að hagsmunir fyrirtækisins vegna geymslu bifreiða við heimili starfsmanna leiði óhjákvæmilega til þess, að starfsmenn geti eigi talist njóta hlunninda vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Samkvæmt þessu ákvarðast kæranda 7.050 kr. sem skattskyld bifreiðahlunnindi gjaldárið 1982. Eftir atvikum þykir eigi ástæða til beitingar viðurlaga.