Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 471/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld, frádráttarbærni — Frádráttarbær vaxtagjöld — íbúðarlán — íbúðarhúsnæði — Eigin notkun — Sönnun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarviðskipti

Málavextir eru þeir, að í skattframtali kærenda árið 1982 voru færð til frádráttar vaxtagjöld að fjárhæð 48.702 kr. af ýmsum skuldum. Með bréfi, dags. 10. maí 1982, boðaði skattstjóri niðurfellingu vaxtagjalda þessara með tilvísan til ákvæða 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem hann liti svo á, að ekki væri fyrir hendi skilyrði til þess að leyfa frádráttinn. Skriflegt svar skyldi hafa borist í síðasta lagi 20. maí 1982. Ekki var bréfinu svarað og þann 26. júlí 1982 tilkynnti skattstjóri, að tilfærð vaxtagjöld í reit 87 hefðu verið flutt í reit 88 í skattframtali á grundvelli ofannefnds lagaákvæðis.

Af hálfu kærenda var álagning opinberra gjalda gjaldárið 1982 kærð til skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1982. Í framhaldi af kærunni barst rökstuðningur kærenda í bréfi, dags. 24. september 1982. Var breytingum skattstjóra á meðferð vaxtagjalda mótmælt á þeim forsendum, að vaxtagjöld þessi væru vegna skulda, sem notaðar hefðu verið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sbr. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekið var fram, að kærendur hefðu keypt 2 herbergja íbúð að H-götu, Hafnarfirði, á árinu 1978 og 4 herbergja íbúð að G-götu, Reykjavík, á árinu 1980. Báðar þessar íbúðir hefðu kærendur síðan selt á árinu 1981 og keypt í staðinn á sama ári sérhæð að S-götu, Reykjavík. Hefðu þau strax flutt í þá íbúð. Íbúðarkaupin hefðu verið liður í þeim áfanga að öðlast þá íbúð, sem kærendur vildu búa í.

Með úrskurðum, dags. þann 20. október 1982, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda. Í forsendum sínum getur skattstjóri þess, að á skattframtali árið 1981 hafi öll vaxtagjöld réttilega verið færð í reit 88. Á skattframtali árið 1982 hafi skuldaaukning í reit 86 umfram eignaaukningu í reitum E-3, E-5 og E-6 verið minni en næmi nettóframlagi til bílakaupa svo sem skattstjóri gerði nánar grein fyrir. Með hliðsjón af þessu væri ekki fallist á að nefnd skuldaaukning stafaði af íbúðarkaupum á árinu 1981. Þá væri ekki á það fallist, að vaxtagjöld af skuldum, sem stofnað hefði verið til með íbúðarkaupum á árunum 1978 og 1980 leyfðust til frádráttar á skattframtali árið 1982, enda hefðu þær íbúðir ekki verið til eigin afnota og því ekki uppfyllt skilyrði 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurðum skattstjóra skutu kærendur til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1982. Í bréfi, dags. 30. desember 1982, gerðu kærendur grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi. Þess er krafist, að tilfærð vaxtagjöld í skattframtali árið 1982 verði leyfð til frádráttar tekjum. Rökstuðningur kærenda er svohljóðandi:

„1. Í forsendum úrskurðar skattstjórans er vísað til 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 þar sem fjallað er um frádráttarbær vaxtagjöld, en þar segir m.a.“....enda séu gjöld þessi af skuldum sem sannanlega eru notaðar til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota....“.

Skattstjórinn virðist túlka „íbúðarhúsnæði til eigin nota“ afar þröngt þ.e.a.s. á þann hátt að eigandi þurfi að búa í húsnæðinu. Undirrituðum finnst þetta afar hæpin túlkun, því eigandi getur haft af húsnæði margs konar not þótt ekki búi hann í því svo sem í umræddu tilfelli. Þar bjuggu eigendurnir í leiguhúsnæði vegna þess að íbúðir þeirra hentuðu þeim ekki. Að vísu var íbúðin við G-götu sem þau keyptu 23. maí 1980 fjölskyldunni nógu stór en hjá þeim voru þessi kaup einungis liður í að komast í framtíðar húsnæði, þ.e.a.s. fjárfesting þegar þeim stóðu heppileg lán til boða.

Hafi löggjafinn ætlast til þess að tilvitnuð grein væri túlkuð á þann hátt sem skattstjórinn gerir þá hlyti hann að hafa orðað hana miklu skýrar t.d. „...til eigin búsetu...“.

2. Á framtali 1982 kemur greinilega fram hvernig kaupin gerðust. Heildarútborgun vegna sölu á G-götu og H-götu var 753.177 kr. en heildarútborgun vegna kaupa á S-götu, var 920.000 kr. eða mismunur 166.823 kr., þar af var umframgreiðsla á kaupári 47.500 kr., sem var fjármögnuð með láni frá Lífeyrissjóði verslunarmanna að upphæð 60.000 kr.

3. Að áliti undirritaðs hafa vaxtagjöld á framtali 1981 verið færð í reit 88 í stað 87 af misgáningi eða klaufaskap. Öll þau lán sem færð voru á framtöl 1981 og 1982 að undanskildu láni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru tekin beinlínis í sambandi við íbúðarkaupin.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 25. júlí 1983, gerðar svofelldar athugasemdir:

„Ríkisskattstjóri getur fyrir sitt leyti fallist á að vaxtagjöld af skuldum kærenda er tengjast kaupum kærenda á íbúðarhúsnæðinu að S-götu fullnægi skilyrðum 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt.

Framtalin vaxtagjöld kærenda verða því líklega talin frádráttarbær við ákvörðun tekjuskatts.“

Þegar atvik þessa máls eru virt svo og skýringar kærenda á þeim íbúðaviðskiptum, sem í málinu greinir og lántökum í því sambandi þykir mega á það fallast með kærendum, að tilfærð vaxtagjöld til frádráttar í skattframtali þeirra árið 1982 uppfylli þau skilyrði fyrir frádráttarbærni, sem sett eru í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja