Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 512/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 3. gr., 95. gr., 96. gr., 98. gr.  

Álagningarmeðferð skattstjóra — Skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Brottflutningur — Brottför — Hagstofa Íslands — Álagning — Álagningarskrá — Álagningarlok — Valdsvið ríkisskattanefndar — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Frávísun — Álagningarseðill

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1981. Kæran varðar úrskurð ríkisskattstjóra dags. 9. mars 1983.

Umboðsmaður kæranda gerir þá aðalkröfu að álagning opinberra gjalda verði felld niður þar sem skattstjóri hafi ekki gætt réttra aðferða við álagninguna. Til vara gerir hann þá kröfu að álagning verði miðuð við að umbjóðandi sinn hafi haft skattalega heimilisfesti hér á landi allt árið 1980. Í kæru er svofelld grein gerð fyrir kröfum: „Aðalkröfu rökstyð ég með því, að skattar voru ekki lagðir á umbj. m. fyrir lok skattlagningar skv. 95. gr. laga nr. 75/ 1981 um tekjuskatt og eignarskatt (tskl.), sbr. 98. gr. s.l. Ákvörðun skattstjóra um að leggja ekki skatta á umbj. m. var breytt með álagningarseðli dags. 20. október 1981, sem sendur var í almennum pósti. Bréf þetta barst ekki til umbj. m. og var endursent sendanda. Af þessu má ljóst vera, að umbj. m. hefur ekki verið gefinn kostur að tjá sig um álagningu skattstjóra með lögmæltum hætti, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 98. gr. tskl. Ber þegar af þessari ástæðu að fella niður hina umræddu álagningu. Um rökstuðning fyrir varakröfu vísast til bréfa minna til ríkisskattstjóra dags. 24. mars 1982 og 3. september 1982.“

Í bréfi, dags. 6. apríl 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Hvað varðar aðalkröfu kæranda bendir ríkisskattstjóri á að með álagningarseðli, dags. 20. október 1981, var lagt á innsent framtal kæranda eins og það hafði borist skattstjóra. Við álagningu var höfð hliðsjón af takmörkuðum dvalartíma kæranda hér á landi skv. opinberri skráningu Hagstofu Íslands.

Eigi verður annað séð en að álagningu hafi verið staðið með lögfræðilegum réttarhætti og hefur því aðalkrafa kæranda ekki við rök að styðjast.

Í málinu liggur fyrir að kærandi felldi niður heimilisfang sitt hér á landi. Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur því verið haldið fram að kærandi hafi farið af landi brott í þeim tilgangi að leggja stund á nám og heimsækja venslafólk sitt. Þá hafi kærandi einnig átt við veikindi að stríða og af þeim sökum ranglega tilkynnt lögheimilisflutning erlendis.

Að áliti ríkisskattstjóra hefur kærandi eigi lagt fram fullnægjandi gögn til að hægt sé að taka kröfu hans um skattalega heimilisfesti hér á landi til greina.

Álagning gjalda virðist því rétt og er því krafist að hún standi óbreytt.“

Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu dags. þann 28. október 1981 boðaði skattstjórinn í Reykjavík að skv. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, væri álagningu lokið í Reykjavíkurumdæmi á þá aðila sem skattskyldir væru hér á landi skv. 2. tl. 1. gr. og 3. gr. greindra laga. Álagningarseðlar hefðu verið póstlagðir er sýndu þau gjöld er skattstjóra bæri að leggja á þessa aðila á árinu 1981. Jafnframt var tilkynnt um kærufrest frá og með dagsetningu umræddrar auglýsingar.

Telja verður, að umrædd álagning hafi verið gerð með lögmætum hætti. Því þykir bera að synja aðalkröfu kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um, hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt téðri lagagrein. Þar eð ágreiningur um heimilisfesti heyrir ekki undir valdsvið ríkisskattanefndar er varakröfu kæranda vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja