Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 530/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 91. gr., 100. gr. 8. mgr.
Framsending — Framsending til skattstjóra — Skattframtal — Áætlun — Skattframtal ófullnægjandi — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Vefenging skattframtals — Frávísun — Áskorun skattstjóra — Svarfrestur — Kærumeðferð
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts árið 1981 á tilskildum tíma. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Álagningin var kærð með bréfi, dags. 29. október 1981, og boðað að skattframtal yrði sent hið allra fyrsta. Þeirri kæru vísaði skattstjóri frá, þar sem engin gögn hefðu borist frá kæranda. Frávísunarúrskurði skattstjóra var skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. desember 1981. Með bréfi, dags. 13. maí 1982, barst ríkisskattanefnd skattframtal kæranda árið 1981. Með úrskurði nr. 321, dags. 28. júní 1982, vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1981 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfi, dags. 16. nóvember 1982, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar og gögn varðandi nokkur atriði skattframtalsins. Var þar um að ræða greinargerð um kaup á K-BÍ-128, sundurliðun veðskulda og sundurliðun og kvittanir fyrir gjaldaliðnum „sölukostnaður erlendis o.fl.“. Þá gat skattstjóri þess, að skattframtal kæranda væri óundirritað, sem ekki væri fullnægjandi framtalsskil, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Svarfrestur var gefinn 14 dagar. Ekki barst svar innan frestsins og með úrskurði, dags. 13. desember 1982, vísaði skattstjóri málinu frá sökum vanreifunar af hendi kæranda.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. desember 1982. Fylgdu kærunni gögn varðandi þau atriði, sem skattstjóri krafðist upplýsinga um, þ.e.a.s. greinargerð um kaup á K-BÍ-128, yfirlit veðskulda og gagn varðandi sölukostnað erlendis.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 25. júlí 1983:
„Kæra kæranda hefur að geyma svör við fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 16. nóv. 1982. Telja verður svör kæranda fullnægjandi að því undanskildu að ekki hefur verið gerð nægjanleg grein fyrir liðnum sölukostnaður erlendis o.fl. í rekstrarreikningi en skv. framlögðu gagni virðist sölukostnaður oftalinn og því krafist breytinga í þeim lið rekstrarreiknings.“
Skattframtal kæranda árið 1981 barst upphaflega ríkisskattanefnd í framhaldi af kæru til nefndarinnar. Skattframtalið hafði því ekki sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra. Með úrskurði nr. 321 frá 28. júní 1982 sendi ríkisskattanefnd skattstjóra kæruna til uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju með heimild í 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda hefur enn eigi sætt efnisúrlausn. Rétt þykir að framsenda skattstjóra mál þetta til meðferðar ásamt svari kæranda og meðfylgjandi gögnum við fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 16. nóvember 1982, enda verður eigi talið, að málið sé til lykta leitt á skattstjórastigi, sbr. áður tiltekið lagaákvæði.