Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 532/1983
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. 1. mgr., 109. gr., 114. gr.
Námsfrádráttur — Sjúkraliðaskóli Íslands — Verklegt nám — Bóklegt nám — Nám — Námsfrádráttur — Innheimta opinberra gjalda — Dráttarvextir — Valdsvið ríkisskattanefndar — Kæruheimild — Frávísun
Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:
- Að viðurkenning fáist á fullum námsfrádrætti vegna náms við Sjúkraliðaskóla Íslands.
- Að dráttarvextir sem fallið hafa vegna mistaka skattstjóra við meðferð málsins verði endurgreiddir með vöxtum.
Með kærunni fylgja ljósrit af bréfaskiptum milli maka kæranda og embættis skattstjóra, ljósrit af gjaldheimtuseðlum og ljósrit af reglugerð fyrir Sjúkraliðaskóla Íslands.
Í bréfi ríkisskattstjóra dags. 16. ágúst 1983, gerir hann svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Nám kæranda við Sjúkraliðaskóla Íslands skiptist í verklega og bóklega kennsluþætti.
Ákvæði skattalaga um námsfrádrátt hefur ávallt verið skilið á þann veg að það næði einungis til bóklegs náms. Við mat á námsfrádrætti til handa kæranda ber því að taka mið af hinum bóklega þætti námsins og hefur ríkisskattstjóri metið hann sem 2/3 hluta náms. Verður það mat vart talið vanáætlað.“
Um 1. tl. Með vísan til 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru kröfur kæranda teknar til greina, enda eigi ágreiningur um það, að nám hafi verið stundað í 6 mánuði á árinu 1980.
Um 2. tl. Ágreiningur um innheimtu, sbr. XIII. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verður eigi borinn undir ríkisskattanefnd. Ber því að vísa þessu kæruatriði frá.