Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 534/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 19/1982   Lög nr. 17/1981   Lög nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 40. gr.  

Stjórnarskrá — Stjórnskipunarlög — Sérstakur eignarskattur — Lögskýring — Skattskylda — Innanhússarkitekt — Skrifstofuhald — Lagaheimild — Sköttunarheimild

Um er að ræða húsnæði að X-götu, Reykjavík. Að sögn umboðsmanns kæranda er eignarhlutur kæranda í húsinu nýttur undir vinnustofu hans, en kærandi er innanhússarkitekt að mennt og starfar sem slíkur. Arkitektúr sé listgrein og jafnframt framleiðsla á hugmyndum í þágu iðnaðar. Er því mótmælt að vinnustofa kæranda flokkist undir það húsnæði sem heimilt sé að leggja á fyrrgreindan skatt.

Með bréfi, dags. 9. september 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Eignarhluti kæranda í fasteigninni nr. 3 við X-götu er nýttur undir starfsemi kæranda sem óumdeilanlega flokkast undir skrifstofuhald í skilningi 1. gr. laga um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Kærandi er því ótvírætt skattskyldur vegna téðs skatts enda verður ekki séð að nefnd lög undanþiggi sérstaklega starfsemi kæranda.“

Í 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33. 17. júní 1944 segir að engan skatt megi á leggja nema með lögum. Lög þau, sem ríkisskattstjóri ber fyrir sig í þessu máli, eru lög nr. 17/1981 og lög nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þar sem segir m.a. að eigendur þeirra fasteigna, sem nýttar eru til skrifstofuhalds skulu á árunum 1981 og 1982 greiða sérstakan eignarskatt til ríkissjóðs. f lögum þessum er hinsvegar eigi að finna skilgreiningu á orðinu skrifstofuhald, enda ríkir óvissa um hvaða merkingu löggjafinn hefur haft í huga við lagasetninguna. Verður að telja að túlka beri orð þetta þröngt eins og önnur íþyngjandi lagaákvæði. Kærandi í máli þessu er innanhússarkitekt og stundar þá atvinnu í því húsnæði sem um ræðir í málinu. Af hálfu gjaldkrefjenda þykir eigi hafa verið sýnt fram á að notkun húsnæðisins falli undir skrifstofuhald í skilningi áðurgreindra laga og telst því lagaheimild bresta til hinnar kærðu skattlagningar. Eru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja