Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 558/1983
Gjaldár 1978
Lög nr. 107/1978
Sérstakt tímabundið vörugjald — Innlendar framleiðsluvörur — Vörugjald — Sælgætisgerð — Vörugjaldsskylda
Kærð er endurákvörðun ríkisskattstjóra á sérstöku tímabundnu vörugjaldi A. h.f. tímabilið 1. júlí — 31. desember 1978. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:
„Mótmælt er lið nr. 2 er varðar árið 1978 þ.e.a.s. úrskurð ríkisskattstjóra um sölu til X. hf., á tímabilinu 1. júlí - 31. desember 1978. Því miður reyndist ekki unnt að senda kæruna inn fyrr, því að X. hf., gaf sér góðan tíma til að athuga bókhald sitt fyrir árið 1978, áður en þeir gáfu frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu.
Eigendur A hf., eru hins vegar jafn sannfærðir sem áður að öll sala til X hf., hafi verið án vörugjalds enda þótt það hafi farist fyrir að sundurgreina það að hluta á sölunótum. Hins vegar þykir rétt að kæra þessi nái aðeins til þess hluta af sölunni sem X. hf., staðfestir að hafi verið án vörugjalds.
Því er þess krafist að sala að upphæð 2.039.582 gkr. verði dregin frá þeirri áætlun sem ríkisskattstjóri gerði um vanframtalda vörugjaldsskylda veltu 1978.“
Með bréfi dags. 28. júní 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún virðist of seint fram komin.
Fallist ríkisskattanefnd á að taka kæruna til efnismeðferðar, þrátt fyrir ofangreindan meintan formgalla, er gerð sú varakrafa að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar. Nokkurs ósamræmis gætir í kröfugerð kæranda svo og gögnum sem hann hefur lagt fram að því er fjárhæðir varðar. En með tilvísan til yfirlýsinga X. hf., sem engum athugasemdum hefur sætt af hálfu ríkisskattstjóra er fallist á framkomna kröfu kæranda