Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 567/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 3. gr. 5. tl., 9. tl., 7. gr. C-liður 2. tl. 2. mgr., 116. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Húsaleiga — Húsaleigutekjur — Arðberandi eign — Matsreglur ríkisskattstjóra — Reiknaðar húsaleigutekjur — Eignarskattsskylda — Skattmat — Atvinnuhúsnæði

Kærandi er búsettur erlendis og ber takmarkaða skattskyldu hér á landi. Skattstjóri færði kæranda til tekna reiknaða leigu af atvinnuhúsnæði hans að G., Reykjavík, samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Nam hin reiknaða húsaleiga 11.250 kr., sem voru 2,7% af fasteignamati húss og lóðar. Þá var kæranda gert að greiða eignarskatt og sérstakan skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Skattstjóri tók fram, að ekki kæmu fram neinar skýringar á því að engin húsaleiga væri tilfærð í skattframtali kæranda árið 1982 vegna húsnæðisins.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 15. ágúst 1983, er tekjufærslu á húsaleigu mótmælt, þar sem ekki hafi verið um útleigu á húsnæðinu að ræða. Skýrir umboðsmaður kæranda svo frá, að faðir kæranda hafi tekið að sér umsjón með húsnæðinu. Samkvæmt upplýsingum hans hafi ekki verið um neina leigu að ræða, en hins vegar hafi fyrirtækið B. hf., sem faðir kæranda veiti forstöðu, heimild til nýtingar á húsnæðinu gegn því skilyrði að sjá um rekstur þess.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 10. október 1983:

„Fallist er á kröfu kæranda.

Húsnæði kæranda að G. er nýtt sem verslunarhúsnæði og þykir því ekki vera fyrir hendi heimild í skattalögum til að ákvarða kæranda heildarleigutekjur sem 2,7% af fasteignamats-verði húseignarinnar.

Í kæru umboðsmanns kæranda kemur fram að umrædd húseign er nýtt af fyrirtækinu B. hf., gegn því skilyrði að félagið sjái um rekstur húseignarinnar.

Fasteign kæranda verður því talin gefa arð sem nýttur er til að greiða öll útgjöld vegna eignarinnar.

Tekjur kæranda verða þó ekki taldar mynda tekjuskattsstofn og er því fallist á að álagður tekjuskattur og álagt útsvar verði fellt niður.“

Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu, er álagt útsvar og tekjuskattur felldur niður. Hins vegar stendur álagður eignarskattur óbreyttur, þar sem fyrir liggur, að sú eign, sem um ræðir í málinu, gefur af sér tekjur, sem nýttar eru til rekstrar hennar, sbr. 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja