Úrskurður yfirskattanefndar
- Flýtifyrning
Úrskurður nr. 428/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 147/1994, ákvæði til bráðabirgða I
Skattstjóri felldi sérstaka fyrningu af rekstrarreikningi kæranda vegna rekstrar hópbifreiðar á þeim forsendum að óheimilt væri að mynda rekstrartap með fyrningu þessari óháð því að hagnaður af öðrum rekstri kæranda væri hærri en nam tapi af rekstri hópbifreiðar. Yfirskattanefnd hnekkti ákvörðun skattstjóra þar sem talið var að skýra yrði lagaákvæði um flýtifyrningar svo að afkoma einstakra rekstrarþátta eða þeirrar rekstrareiningar sem hin fyrnda eign væri nýtt í skipti ekki máli um heimild til fyrningar þessarar.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 4. mars 1996, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1995 að undangengnum bréfaskiptum. Sú breyting sem ágreiningur er um er að skattstjóri felldi sérstaka fyrningu að fjárhæð 344.025 kr. af rekstrarreikningi kæranda vegna reksturs hópbifreiðar. Um var að ræða fyrningu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 147/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Forsendur skattstjóra voru að óheimilt væri að mynda rekstrartap með fyrningu þessari óháð því að hagnaður af öðrum rekstri kæranda væri hærri en nam tapi af rekstri hópbifreiðar.
Umboðsmaður kæranda mótmælti endurákvörðuninni með kæru, dags. 29. mars 1996. Í rökstuðningi með kærunni kom fram að rekstur kæranda væri deildaskiptur og verulegur hagnaður af rekstrinum í heild. Því yrði að telja umkrafða fyrningu heimila þótt halli væri á viðkomandi rekstrareiningu. Þá væri umrædd bifreið notuð jöfnum höndum við báða þætti rekstrar kæranda, en ekki hefði þótt ástæða til að sýna það þar sem reksturinn væri sameinaður á samræmingarblaði.
Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 22. apríl 1996. Tók hann fram að samkvæmt c-lið ákvæðis til bráðabirgða I með lögum nr. 147/1994 væri ekki heimilt að mynda tap með slíkum fyrningum sem kveðið væri á um í þeim ákvæðum. Samkvæmt leiðréttum rekstrarreikningi bifreiðar væri rekstrarhalli 238.515 kr. og flýtifyrning óheimil. Kveðst skattstjóri hafna því að bifreiðin væri nýtt við annan rekstur kæranda en önnur bifreið hefði verið nýtt við þann rekstur og reksturinn algjörlega sérgreindur. Ekki kæmi til álita að fyrna bifreiðina í rekstri sem hún væri ekki nýtt í.
Með kæru, dags. 20. maí 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Rökstuðningur kærunnar barst með bréfi, dags. 7. ágúst 1996. Eru þar ítrekuð fyrri rök kæranda og kröfur.
Með bréfi, dags. 11. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Óumdeilt er í máli þessu að hagnaður af rekstri kæranda á árinu 1994 hafi verið 1.089.524 kr. án hinna umdeildu fyrninga en 745.499 kr. að teknu tilliti til fyrninganna. Hamla því ákvæði c-liðar ákvæðis I til bráðabirgða í lögum nr. 147/1994 ekki hinni umkröfðu fyrningu, enda verður að skýra ákvæðið svo að afkoma einstakra rekstrarþátta eða þeirrar rekstrareiningar sem hin fyrnda eign er nýtt í skipti ekki máli í því samhengi. Er því fallist á kröfu kæranda.