Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 609/1983
Gjaldár 1983
Lög nr. 75/1981, 91. gr., 96. gr., 99. gr., 106. gr.
Síðbúin framtalsskil — Vantaldir skattstofnar — Kærumeðferð skattstjóra — Skattframtal, ófullnægjandi — Fylgigögn skattframtals — Álag — Vanreifun — Frávísun
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1983. Þann 13. júní 1983, barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1983. Því fylgdi hvorki ársreikningur né önnur gögn nema greinargerð um aðstöðugjaldsstofn eftir því sem fram kemur í málinu. Eigi verður annað séð en skattstjóri hafi við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 stuðst við þetta skattframtal. Með bréfi, dags. 15. júlí 1983, sendi umboðsmaður kæranda annað skattframtal árið 1983 ásamt ársreikningi og öðrum fylgigögnum. Var þess farið á leit, að áður innsendu skattframtali yrði breytt til samræmis við hin nýju gögn og heimildarákvæðum um álag yrði ekki beitt með tilliti til þeirra aðstæðna, sem sköpuðust af árstíðabundnum önnum vegna framtalsskila. Bréf þetta tók skattstjóri sem kæru og með úrskurði, dags. 5. ágúst 1983, ákvarðaði skattstjóri gjaldstofna í samræmi við hið síðara skattframtal að viðbættu 15% álagi á þá hækkun gjaldstofna, sem leiddi af skattframtalinu, frá því sem ákvarðað hafði verið á grundvelli fyrra framtalsins.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. september 1983. Er þess krafist, að álag það, sem skattstjóri beitti, verði fellt niður. Vísað er til þess, að skattframtal og greinargerð um aðstöðugjaldsstofn hafi verið send skattstjóra þann 13. júní 1983 og þær fjárhæðir, sem þar komu fram, hafi verið lagðar til grundvallar álagningu. Ákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi hér ekki við og ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar ættu að vera næg ástæða til niðurfellingar álagsins, þar sem löggjafarvaldinu sjálfu sé um að kenna hvernig framtalsskilamálum sé komið. M hafi skattstjóri ekki uppfyllt ákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi skriflega áskorun.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi, dags. 20. október 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Skattstjóri beitti eigi álagi vegna síðbúinna framtalsskila svo sem umboðsmaður kæranda virðist álíta. Skattstjóri bætti álagi við vantalda gjaldstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem leitt varð af kærugögnum og stóðu ákvæði 96. gr. nefndra laga því eigi í vegi. Kæran er því eigi byggð á réttum forsendum af hálfu umboðsmanns kæranda. Að svo vöxnu og þar sem málsreifun umboðsmannsins er þannig áfátt þykir eigi verða hjá því komist að vísa kærunni frá sökum vanreifunar.