Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 635/1983
Gjaldár 1981 og 1982
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl.
Landgöngufé — Risna — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Sönnun — Landhelgisgæslan — Skipherra — Risnukostnaður — Risnufé — Ríkisstarfsmaður
Málavextir eru þeir, að þann 10. janúar 1983, ritaði skattstjóri kæranda svohljóðandi bréf:
„Hér með tilkynnist yður, að fyrirhugað er að taka skattframtöl yðar gjaldárin 1981 og 1982 til endurúrskurðar og fella niður úr frádráttarliðum landgöngufé sem hér segir: Árið 1981 309.221 gkr. og árið 1982 4.418 kr., en enginn frádráttur er heimill á móti greiðslum landgöngufjár.
Ef þér hafið einhverjar athugasemdir fram að færa varðandi ofangreint, þurfa þær að hafa borist skattstofunni innan 10 daga frá dags. bréfs þessa.“
Kærandi, sem er skipherra hjá Landhelgisgæslunni, mótmælti hinni fyrirhuguðu breytingu skattstjóra með bréfi, dags. 17. janúar 1983. Í bréfinu segir kærandi, að forsendur fyrir greiðslu landgöngufjár af hálfu útgerðar hefðu í engu breyst. Útgerðin hafi ávallt litið svo á, að risna og landgöngufé væri eitt og hið sama, þ.e.a.s. risna. Engu breyti í þessum efnum, þótt landgöngufé og risna sé nú aðskilið á launaseðli. Þá vísaði kærandi til viðræðna milli skattstjórans í Reykjavík og Landhelgisgæslunnar um þessi mál á árinu 1978 og bréfs starfsmannastjóra Landhelgisgæslunnar, dags. 22. febrúar 1978, til skattstjórans í Reykjavík um málefnið. Lét kærandi ljósrit af bréfi þessu fylgja svarbréfi sínu. Þessar viðræður og skýringar hafi leitt til þess, að skattstjórinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að skoða bæri báða þessa launaliði sem risnu.
Ekki féllst skattstjóri á sjónarmið kæranda og með bréfum, dags. 17. maí 1983, tilkynnti hann kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárin 1981 og 1982 hefðu verið endurákvörðuð í tilefni af niðurfellingu landgöngufjár til frádráttar, 309.221 gkr. gjaldárið 1981 og 4.418 kr. gjaldárið 1982, þar sem lagaheimild skorti fyrir frádrættinum.
Með bréfi, dags. 16. júní 1983, kærði kærandi nefndar breytingar skattstjóra og krafðist þess, að tilfært landgöngufé til frádráttar yrði látið óhaggað standa með vísan til 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og samþykktar ríkisskattanefndar, dags. 8. febrúar 1971, varðandi vinnu- og landgöngufé yfirmanna á farmskipum.
Með úrskurði, dags. 14. júlí 1983, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með vísan til þess, að lagaheimild skorti fyrir umræddum frádráttarlið. Skattstjóri tók fram, að sú skýring kæranda, að landgöngufé væri í raun greitt sem risnufé, fengi ekki staðist í ljósi þess, að kærandi fengi einnig greidda risnu á árunum 1980 og 1981, sem hann hefði fengið frádrátt á móti samkvæmt 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með kæru, dags. 15. ágúst 1983, hefur úrskurði skattstjóra af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar. Þess er krafist að hinir umdeildu frádráttarliðir verði að fullu teknir til greina. Vísað er til skýringa Landhelgisgæslunnar á eðli landgöngufjár í bréfi, dags. 22. febrúar 1978, til skattstjóra og samþykktar ríkisskattanefndar, dags. 7. mars 1967, um skattalega meðferð risnufjár.
Með bréfi, dags. 20. október 1983, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Eigi þykir skipta sköpum í máli þessu, hvaða heiti hinum umdeildu gjaldaliðum hefur verið valið. Úrlausn málsins þykir eiga að ráðast af því, hvort um hafi verið að ræða endurgreiðslu kæranda á útlögðum kostnaði í þágu vinnuveitanda. Að virtum þeim skýringum, sem fyrir liggja í málinu, m.a. í bréfi Landhelgisgæslunnar, dags. 22. febrúar 1978, til skattstjórans í Reykjavík, þykja eftir atvikum næg rök leidd að því, að um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar hafi verið að ræða, enda sýnist hinu gagnstæða eigi haldið fram af hálfu skattstjóra og ákvörðun hans eigi að neinu leyti á slíku byggð. Er því fallist á kröfur kæranda, enda þykja hinar umdeildu fjárhæðir vera innan hóflegra marka.