Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 711/1983

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr.  

Reiknað endurgjald — Landbúnaður — Hjón — Ellilífeyrisþegi — Sönnun — Valdsvið skattstjóra — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að færa eiginkonu til tekna á skattframtali 1983 reiknað endurgjald að fjárhæð kr. 68.745 vegna starfa hennar við búrekstur kærenda. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að kærendur hefðu eigi fært sér til tekna slíkt endurgjald og að eiginmaður ynni ekki við búreksturinn. Miðaði skattstjóri endurgjaldið við umfang búrekstrarins. Eiginkona færði sér til launatekna frá eiginmanni kr. 8.000 og felldi skattstjóri þær tekjur niður. Andmæli sín byggja kærendur m.a. á því að því hafi aldrei verið haldið fram að eiginmaður vinni ekki við búið „heldur hinu að heilsufarið er ekki gott og aldur nokkuð hár, og hlýtur slíkt að koma fram á búinu t.d. með miklum aðkeyptum rekstrarvörum.“ Þá er minnst á mjög erfitt árferði við búreksturinn.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 1983 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að staðfest verði sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna reiknað endurgjald.

Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum þykir þó eðlilegra að hluti fjárhæðarinnar komi til tekna á framtali eiginmanns.“

Á því þykir bera að byggja að eiginkona hafi reiknað sér kr. 8.000 í endurgjald vegna vinnu við búreksturinn á árinu 1982. Með hliðsjón m.a. af heilsufari hennar samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði, aðkeyptri vinnu við búið og vinnu eiginmanns við búreksturinn er ósannað að fjárhæðin sé lægri en efni standa til sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. og 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Óheimilt er skattyfirvöldum að reikna eiginmanni endurgjald, sbr. 8. ml. 1. mgr. 59. gr. sömu laga, en eiginmaður er ellilífeyrisþegi. Er því fallist á framkomnar kröfur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja