Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 712/1983

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 245/1963, 93. gr.   Lög nr. 75/1981, 92. gr., 95. gr., 99. gr.  

Áætlun — Síðbúið skattframtal — Kærufrestur — Síðbúin kæra — Frávísun — Álagningarmeðferð — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra, efnislegur annmarki — Óhófleg áætlun skattstofna

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1983. Skattstjóri áætlaði kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Með kæru, dags. 30. ágúst 1983, til skattstjóra barst skattframtal kæranda. Var þess farið á leit við skattstjóra, að hann legði skattframtalið til grundvallar álagningu í stað hinna áætluðu skattstofna. Með úrskurði, dags. 3. október 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Kærufrestur hefði runnið út þann 25. ágúst 1983 og væri kæran samkvæmt því of seint fram komin.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1983. Er þess farið á leit, að skattframtal kæranda árið 1983, sem sent var með kærunni til skattstjóra verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Móðir kæranda tekur fram í kærunni, að hún hafi lofað kæranda að sjá um skattframtalið, en vegna misskilnings hefði framtalið ekki fylgt öðrum framtölum af heimilinu við skil þeirra til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar athugasemdir í málinu:

„Fallist er á að skattframtal kæranda verði lagt til grundvallar álagningu gjalda að gerðum nauðsynlegum og augljósum leiðréttingum.

Ríkisskattstjóri vekur sérstaka athygli á að við áætlun gjalda virðast kæranda ekki hafa verið ákvarðaðar barnabætur.“

Upplýsingar um tekjur kæranda lágu í tæka tíð fyrir skattstjóra samkvæmt launauppgjöfum greiðenda, þ.á m. fæðingarorlof, láglaunabætur og atvinnuleysisbætur, en auk þessara greiðslna hafði kærandi smávægileg vinnulaun. Samkvæmt þessu og að virtum öðrum gögnum málsins þykir áætlun sú, sem skattstjóri ákvað, úr hófi fram. Þá voru aðstæður kæranda skattstjóra ljósar, samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir honum hafa legið. Bar skattstjóra að ákvarða kæranda barnabætur við frumálagningu, sbr. og umsögn ríkisskattsstjóra og er á það að líta, að skattstjóri var eigi bundinn við kærufrest til leiðréttingar í þeim efnum. Að öllum atvikum virtum í máli þessu er fallist á kröfu kæranda og innsent skattframtal lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja