Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 725/1983

Gjaldár 1982

Skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1982 3.4.0. C-liður 3. tl. og 3.2.2.   Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr., 30. gr. A-liður 2. og 3. tl.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Eigin notkun — Fargjöld — Verkfræðingur — Málsmeðferð skattstjóra — Skattframtal, vefenging — Sönnun — Skattmat — Matsreglur ríkisskattstjóra — Vinnustaður — Langferð — Langferð milli heimilis og vinnustaðar

Málavextir eru þeir, að kærandi móttók ökutækjastyrk að fjárhæð kr. 23.458, frá vinnuveitanda sínum, X s.f., á árinu 1981. Tekjufærði kærandi fjárhæð þessa í skattframtali sínu árið 1982 og færði jafnframt til frádráttar kr. 23.020, sem kostnað á móti ökutækjastyrk. Var frádráttarfjárhæð þessi byggð á skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1981, sem fylgdi skattframtali hans árið 1982. Samkvæmt þeirri skýrslu nam heildarakstur kæranda á árinu 1981 alls 17.500 km. Akstur í þágu vinnuveitanda var talinn 10.000 km eða 57,15% heildaraksturs. Akstur í eigin þágu var talin 7.500 km og tilgreindur sem annar akstur í eigin þágu, þ.e.a.s. ekki akstur í eigin þágu til og frá vinnu. Heildarreksturskostnaður bifreiðar kæranda á árinu 1981 var talinn kr. 40.283 í skýrslunni og af þeim kostnaði færði kærandi til frádráttar 57,15% í samræmi við akstursskiptingu sína. Þá færði kærandi til frádráttar sem fargjöld vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar kr. 12.700, samkvæmt 2. tl. A-liðs l.mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. matsreglur ríkisskattstjóra í lið 3.2.2 í skattmati fyrir framtalsárið 1982, dags. 7. janúar 1982. Vinnustaður kæranda var á Keflavíkurflugvelli og samkvæmt yfirlýsingu vinnuveitanda, dags. 4. febrúar 1982, sem fylgdi skattframtali kæranda, var kæranda nauðsyn á notkun bifreiðar í starfi sínu sem verkfræðingur hjá fyrirtækinu vegna eftirlits með hinum ýmsu framkvæmdum þess.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 1983, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á akstri milli heimilis og vinnustaðar á árinu 1981 eins og gert væri ráð fyrir á eyðublaði vegna ökutækjastyrks og ökutækjareksturs og var veittur frestur til svars til 18. febrúar 1983. Í svarbréfi sínu, dags. 15. febrúar 1983, gat kærandi þess, að akstur milli heimilis og vinnustaðar væri a.m.k. 20.000 km á ári, ef farið væri daglega á milli og væri greiddur ökutækjastyrkur því engan veginn nægjanlegur fyrir þessum ferðum, enda ekki til þess ætlaður svo sem fram kæmi í yfirlýsingu vinnuveitanda. Þar kæmi fram, að ökutækjastyrkurinn væri greiddur vegna bifreiðakostnaðar við eftirlit með framkvæmdum fyrirtækisins, svo sem í Keflavík, Grindavík, Sandgerði, Reykjavík og Hvalfirði. Kostnaður við akstur milli heimilis og vinnustaðar væri bættur í launum, sem talin væru til tekna í reit 21 í skattframtali og leyfðist því frádráttur fargjalda vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar í reit 33 í skattframtali, samsvarandi fargjaldakostnaði með áætlunarbifreiðum. Samkvæmt þessu og því, sem skráð væri á eyðublaðið, skyldi allur akstur milli heimilis og vinnustaðar teljast til einkaþarfa. Hefði því verið talið eðlilegast að skrá allan akstur í eigin þágu þ.m.t. akstur milli heimilis og vinnustaðar í eina tölu eða 7.500 km í annan reitinn á eyðublaðinu og sýndi reiturinn því allan akstur í eigin þágu en ekki eingöngu svonefndan annan akstur í eigin þágu.

Með bréfi, dags. 8. apríl 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að endurákvarða áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 og lækka frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk í kr. 11.500, og væri þá miðað við 5.000 km akstur í þágu vinnuveitanda. Í svarbréfi kæranda, dags. 15. febrúar 1983, hefði ekki verið gerð nein grein fyrir því hversu oft hann hefði ekið í eigin bifreið milli heimilis og vinnustaðar á árinu 1981 og vegalengd þar á milli. Kærandi teldi akstur í eigin þágu að viðbættum akstri til og frá vinnu vera 7.500 km. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra væri miðað við 7.000 km lágmarksakstur í eigin þágu fyrir utan akstur milli heimilis og vinnustaðar. Væri því ekki unnt að fallast á, að akstur milli heimilis og vinnustaðar væri innifalinn í þeim kílómetrafjölda, sem tilgreindur væri sem annar akstur í eigin þágu í skýrslu kæranda. Veittur var 10 daga frestur til andsvara.

Svarbréf barst frá kæranda, dags. 15. apríl 1983. Í bréfinu telur kærandi, að ágreiningsefnið snúist um viðmiðunartölu ríkisskattstjóra, þ.e.a.s. 7.000 km akstur í eigin þágu án aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Kærandi vísaði til áður framkominna skýringa og röksemda og mótmælti fyrirhugaðri breytingu. Til vara fór kærandi fram á, að frádráttur á móti ökutækjastyrk yrði miðaður við kr. 20.718, samkvæmt nýrri skýrslu um ökutækjarekstur og ökutækjastyrk, sem fylgdi bréfinu. Þar var akstur til eigin þarfa talinn alls 8.500 km, sem skiptist þannig, að 2.296 km voru talinn akstur milli heimilis og vinnustaðar en 6.204 km annar akstur í eigin þágu. Fyrrnefnda talan var allur akstur milli heimilis og vinnustaðar samkvæmt tilgreiningu kæranda, sem var 2 x 41 km á dag í 28 daga og akstur þessi allur talinn í eigin þágu með vísan til leiðbeininga ríkisskattstjóra um að svo skyldi með fara, ef framteljandi ætti rétt til frádráttar fargjalda vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Samkvæmt þessari nýju skýrslu kæranda var akstur í þágu vinnuveitanda talinn 1.000 km lægri en í fyrri skýrslunni. Þá gat kærandi þess, að einkanot á árinu 1981 hefðu verið í lágmarki, þar sem starfsvettvangur hefði bundið bifreið hans og hann vænti þess, að tekið yrði tillit til nokkru minni einkanota í annan akstur en 7.000 km, enda væri sú tala aðeins til viðmiðunar.

Með bréfi, dags. 17. maí 1983, tók skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1982 til endurákvörðunar vegna lækkunar á frádrætti á móti ökutækjastyrk í kr. 11.500. Taldi skattstjóri tilgreiningu kæranda á akstri milli heimilis og vinnustaðar ekki fá staðist, þ.e.a.s. að ekki hafi verið farið oftar en 28 daga á milli heimilis og vinnustaðar á árinu. Yrði þessi þáttur akstursins miðaður við 5.000 km. Með hliðsjón af viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra yrði ekki talið, að þessi akstur gæti rúmast innan tilgreinds annars aksturs í fyrri skýrslu kæranda.

Þessari ákvörðun skattstjóra mótmælti kærandi með kæru, dags. 13. júní 1983 með vísan til fyrri rökstuðnings. Með úrskurði, dags. 7. júlí 1983, synjaði skattstjóri kærunni.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. ágúst 1983. Telur kærandi í fyrsta lagi, að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt, þar sem ekki hefði komið skýrt fram í upphafi af hálfu skattstjóra, hvers óskað væri og skattstjóri hefði þegar í bréfi sínu, dags. 8. apríl 1983, verið búinn að gera upp hug sinn í þessu máli. Að öðru leyti vísar kærandi til bréfa sinna til skattstjóra varðandi kröfur sínar og rökstuðning. Þá bendir kærandi á, að skattstjóri hafi ekki gætt þess við áætlun sína á akstri í einkaþágu, að draga fyrst 500 km akstur frá heildarakstri í eigin þágu, þannig að svokallaður annar akstur í eigin þágu verði 7.000 km, og draga síðan eftirstöðvar þessarar akstursáætlunar 4.500 km frá akstri í þágu vinnuveitanda þannig að sá akstur yrði talinn 5.500 km. Áætlunin öll 5.000 km hefði verið dregin frá akstri í þágu vinnuveitanda, sem næmi 10.000 km samkvæmt fyrri skýrslunni.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 8. nóvember 1983, gerðar svofelldar kröfur í málinu: „Af hálfu kæranda er því haldið fram að akstur í þágu vinnuveitanda felist ekki í því að komast til og frá vinnu heldur þurfi hann á bifreið sinni að halda vegna eftirlits með ýmsum framkvæmdum á vegum vinnuveitanda, svo sem í Keflavík, Grindavík, Sandgerði, Reykjavík og Hvalfirði. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til bréfs vinnuveitanda er fylgdi skattframtali.

Skv. skýrslu kæranda, dags. 18. apríl 1983, um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur, er fylgdi bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 15.—18. apríl s.á., telur hann akstur í þágu vinnuveitanda nema 9.000 km akstri vegna fyrrgreindra eftirlitsstarfa.

Að áliti ríkisskattstjóra er þar um óeðlilega mikinn akstur að ræða þegar tekið er tillit til nálægða þeirra staða er kærandi þarf einkum að rækja eftirlitsstörf sín.

Þá hefur í málinu eigi verið upplýst nægjanlega af hálfu kæranda hvar bifreið hans er geymd þá daga sem hún er ekki notuð til að komast í og úr vinnu en skv. skýrslu kæranda virðist hann einungis nota bifreið sína í 28 daga til að komast í og úr vinnu.

Ríkisskattstjóra þykir ástæða til að benda á að þegar litið er til staðsetningar vinnustaðar kæranda er ekki óeðlilegt að telja greiðslu vinnuveitanda til kæranda fyrst og fremst vera vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar.

Yfirlýsing vinnuveitanda þykir ekki girða fyrir þá skoðun.

Að virtu framangreindu og málsatvikum í heild þykir mega telja að fjárhæð sú er skattstjóri ákvarðaði til frádráttar greiðslu frá vinnuveitanda sé ekki lægri en kostnaður kæranda vegna bifreiðaaksturs í þágu vinnuveitanda svo og fargjaldakostnaður.

Ríkisskattstjóri krefst því að álögð gjöld verði látin óbreytt standa.“

Þeir annmarkar verða eigi fundnir á málsmeðferð skattstjóra, að ómerkja verði hina kærðu breytingu af þeim ástæðum svo sem kærandi virðist halda fram í kærunni til ríkisskattanefndar. Er þessari kröfu hans því hafnað. Mál þetta hefur snúist um það í meðferð skattstjóra, hvort tilfærður akstur kæranda í eigin þágu með tilliti til atvika og aðstæðna væri svo lítill, að eigi yrði á þeim upplýsingum byggjandi og í því sambandi ber skattstjóri m.a. fyrir sig að skýrsla kæranda um fjölda ferða til og frá vinnu fái eigi staðist. A það má fallast, að eigi hafi glögglega fram komið af hálfu kæranda hversu þessum þætti hefur verið háttað en helst er að ætla að bifreiðin hafi verið geymd á vinnustað. Á hinn bóginn er á það að líta, að kærandi nýtur frádráttar samkvæmt 2. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna fargjalda sökum langferða milli heimilis og vinnustaðar í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Af þeim ástæðum telst akstur milli heimilis og vinnustaðar allur til einkaþarfa samkvæmt niðurlagsákvæði C-liðs 3. tl. í lið 3.4.0. Í skattmati ríkisskattstjóra framtalsárið 1982, dags. 7. janúar 1982. Heildarakstur kæranda hefur eigi verið vefengdur og eigi heildarbifreiðakostnaður. Með tilliti til þessa og svo sem málið liggur fyrir þykir rétt að byggja á þeim akstri í eigin þágu, sem kærandi hefur tilfært og leggja til grundvallar síðari skýrslu hans, dags. 18. apríl 1983, enda þykja eigi hafa verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra, að tilfærður akstur í þágu vinnuveitanda sé ofmetinn. Samkvæmt þessu verður frádráttur á móti ökutækjastyrk ákveðinn kr. 20.718 samkvæmt fyrrnefndri skýrslu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja