Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 753/1983

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 95. gr., 99. gr. 1. mgr., 100. gr. 1. mgr., 101. gr. 3. mgr.  

Áætlun — Skattkæra — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki ákvörðunar skattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar — Leiðbeining ríkisskattanefndar — Frávísun

Kærendur töldu ekki fram til skatts árið 1983 og áætlaði skattstjóri þeim því skattstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Eigi verður séð af málsgögnum, að sú álagning hafi verið kærð og kæruúrskurður af hendi skattstjóra sýnist af þeim sökum ekki liggja fyrir. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 1983, kveðast kærendur „kæra þann úrskurð sem er áætlun og að úrskurðað verði samkvæmt innlögðum skattskýrslum“, eins og það er orðað. Eftir efni sínu hefur bréf þetta verið tekið sem kæra til ríkisskattanefndar.

Með bréfi, dags. 2. desember 1983, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að kærunni verði vísað frá, enda verði eigi séð að hvaða atriðum hún beinist.

Svo sem að framan segir verður eigi séð, að fyrir liggi kæranlegur úrskurður í máli þessu. Verður því að vísa kærunni frá af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Það skal tekið fram, að ríkisskattanefnd hefur eigi sambærilega heimild og ríkisskattstjóra er veitt í 3. mgr. 101. gr. nefndra laga til breytinga á þegar álögðum opinberum gjöldum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja