Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 203/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II   Reglugerð nr. 76/1988  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Notkun húsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1990. Kærður er svohljóðandi úrskurður skattstjóra, dags. 17. desember 1990:

„Skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 92/1987, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, er það skilyrði fyrir ákvörðun húsnæðisbóta gjaldárið 1988 (sex ára bóta) að maður hafi í fyrsta sinn á árunum 1984-1987 keypt eða hafið byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Íbúð sína að X, Reykjavík, keypti kærandi ekki til eigin nota og er honum því synjað um húsnæðisbætur.“ Kærandi hafði keypt umrædda íbúð árið 1985 og fór fram á húsnæðisbætur árin 1988 – 1994.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með svohljóðandi kæru, dags. 16. janúar 1991:

„Undirritaður getur ekki fallist á að skýra beri umrætt ákvæði svo þröngt að kaupandi verði að búa allan tímann í íbúðinni.

Samkvæmt skilningi skattstjóra mætti íbúðarkaupandi ekki flytja tímabundið út á land eða erlendis vegna vinnu sinnar. Hann mætti ekki flytja til ástmanns/konu tímabundið nema því aðeins að hann bryti lög um lögheimili og skráði sig til dvalar í eigin húsnæði. Umbjóðandi minn á ekkert annað húsnæði.

Húsnæði er almennt eina eign alþýðumanna þ.e. þeirra lífsstarf eða afrakstur þess er bundið í húsnæði. Húsnæðisbótum var ætlað að létta undir með kaupanda húsnæðis. Húsnæði er trygging kaupanda fyrir framtíðaröryggi. Tímabundnar ástir, vinna o.s.frv. er valda fjarveru úr eigin húsnæði geta ekki svipt kaupanda rétti til húsnæðisbóta.

Umbjóðandi minn krefst því þess að honum verði úthlutaðar húsnæðisbætur frá árinu 1987 og niður verði felldur úrskurður skattstjóra.“

Með bréfi, dags. 22. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi hefur ekki sýnt fram á að honum beri húsnæðisbætur eins og krafist er. Skal í því sambandi bent á að umrætt húsnæði er leigt út af kæranda.

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja