Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 759/1983

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. 2. mgr., 66. gr., 101. gr. 1. mgr.   Lög nr. 73/1980, 23. og 27. gr.  

Ívilnun — Eignatjón — Valdsvið ríkisskattanefndar — Frávísun — Eftirstöðvar ónýtts frádráttar — Námsfrádráttur — Nám — Flugvirkjun — Verklagsreglur ríkisskattstjóra — Leiðbeining ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1983. Hann sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum það ár. Þá álagningu kærði kærandi með bréfi, dags. 16. ágúst 1983, og fylgdi því skattframtal kæranda árið 1983. Samkvæmt áritun á gögn þessi móttók skattstjóri þau 26. ágúst 1983. Kærandi fór þess á leit, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra án viðurlaga. Ástæðan fyrir síðbúnum framtalsskilum væri sú, að hann hefði verið við störf í Líbýu á vegum X. hf. á árinu svo sem vottorð félagsins, sem kærunni fylgdi, bæri með sér.

Með úrskurði, dags. 20. október 1983, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni, þar sem kærufrestur hefði runnið út 25. ágúst 1983.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. október 1983, og þess farið á leit, að álögð opinber gjöld verði endurskoðuð á grundvelli hins innsenda skattframtals.

Af hálfu ríkisskattstjóra er á það fallist með bréfi, dags. 2. desember 1983, að skattframtal kæranda verði tekið til efnislegrar meðferðar.

Fallist er á kröfur kæranda og skattframtal það, sem hann hefur lagt fram, er lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 án álags. Tekið skal fram í tilefni af ívilnunarbeiðni kæranda í fylgiskjali með skattframtalinu vegna eignatjóns, sbr. 5. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ríkisskattanefnd hefur eigi úrskurðarvald um slíkar beiðnir. Um slík mál fjalla skattstjórar og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórn, sbr. ákvæði nefndrar 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 23. og 27. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá verður eigi tekin afstaða til hugsanlegs frádráttar vegna náms kæranda í flugvirkjun í Bandaríkjunum tímabilið nóvember 1977 — ágúst 1981, sbr. nefnt fylgiskjal. Verklagsreglur um ákvörðun eftirstöðva ónýtts námsfrádráttar til frádráttar tekjum er að finna í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 14. júní 1982, til allra skattstjóra, og er þar m.a. getið sérstakra umsókna og nauðsynlegra gagna hér að lútandi. Þykir rétt að kærandi snúi sér til skattstjóra með þennan þátt málsins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja