Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 782/1983

Gjaldár 1980,1981 og 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 96. gr., 97. gr., 100. gr. 7. mgr.  

Bifreiðahlunnindi — Eigin notkun — Vefenging skattframtals — Endurákvörðun — Tímaviðmiðun endurákvörðunar — Gagnaöflun ríkisskattanefndar — Sönnun

Ágreiningsefnið varðar bifreiðahlunnindi kæranda tekjuárin 1979, 1980 og 1981. Umboðsmaður kæranda gerir kröfur um að hækkanir skattstjóra gjaldárin 1980 og 1981 verði felldar niður. Jafnframt krefst hann þess, að hækkun skattstjóra gjaldárið 1982 verði lækkuð þannig, að miðað verði við 3.500 km akstur kæranda í einkaþágu árið 1981. Um málavexti og rökstuðning vísar hann til fyrri bréfa og kæru til skattstjóra.

Málsatvik eru þau, að kærandi færði til tekna sem bifreiðahlunnindi 215.000 gkr. á skattframtali sínu 1980, 380.000 gkr. á skattframtali 1981 og 5.875 kr. á skattframtali 1982. Fjárhæðir þessar svara til 2.500 km aksturs í einkaþágu á ári þegar höfð er hliðsjón af bifreiðahlunnindamati ríkisskattstjóra. Í fyrirspurnarbréfi, dags. 17. janúar 1983, fór skattstjóri þess á leit að kærandi gerði ítarlega grein fyrir einkanotum af bifreið vinnuveitanda síns árin 1979, 1980 og 1981. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda dags. 7. mars 1983, er þess getið, að einkanot kæranda hafi verið mjög lítil árin 1979 og 1980. Árið 1981 hafi kæranda hins vegar gefist færi á auknum afnotum af bifreið vinnuveitanda síns vegna minna vinnuálags. Því er alfarið mótmælt að ástæða sé til breytinga á skattframtölum kæranda árin 1980 og 1981. Eftir á að hyggja sýnist hins vegar eðlilegt að meta einkanot kæranda á skattframtali ársins 1982 helming af venjulegum einkanotum eða sem svarar til 3.500 km aksturs.

Með bréfi, dags. 24. mars 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda að opinber gjöld hans hefðu verið endurákvörðuð árin 1980,1981 og 1982 með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri taldi, að eins og mál þetta lægi fyrir væri ekki unnt að fallast á þann litla einkaakstur sem fram kæmi í svarbréfi umboðsmanns kæranda. Eftir atvikum þætti hóflegt að áætla bifreiðahlunnindin þannig, að þau miðuðust við 10.000 km akstur í einkaþágu árið 1979, 8.000 km árið 1980 og 8.000 km árið 1981. Teknamat bifreiðahlunninda var hækkað í 860.000 gkr. á skattframtali kæranda árið 1980, í 1.216.000 gkr. á skattframtali 1981 og í 18.000 kr. á skattframtali 1982. Jafnframt var þess getið, að fyrir lægi, að árin 1979, 1980 og 1981 hefði kærandi haft til umráða bifreið í eigu vinnuveitanda síns án takmarkana um eigin notkun. Á þessum tíma hafi kærandi ekki átt bifreið og því sinnt öllum einkaerindum með bifreið vinnuveitanda síns, þar á meðal akstri milli heimilis og vinnustaðar, sem allur teldist til hlunninda. Sá 7.000 km akstur sem algengt væri að miða við og umboðsmaður kæranda teldi óskert hlunnindamat tæki ekki til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og hækkaði því hlunnindamatið eftir því sem sá akstur væri meiri. Við mat þessara hlunninda hefði umboðsmaður kæranda augljóslega sleppt öllum akstri milli heimilis og vinnustaðar.

Í kæru til skattstjóra dags. 22. apríl 1983 hefur umboðsmaður kæranda eftirfarandi röksemdir og kröfur fram að færa:

„1. Að niður verði felld hækkun álagningar 1980, þar sem skattstjóra er óheimilt á árinu 1983 að endurákvarða gjöld sem lögð voru á árið 1980 skv. 97. gr. skattalaga.

2. Að niður verði felld hækkun álagningar 1981. Umbjóðandi okkar hlýtur að vera betur í stakk búinn til að meta akstur í einkaþágu en skattstjóri enda hefur ekki annað komið fram. Ekki er heldur unnt að fallast á að skattstjóri geti lagt gjöld á hugsanlega möguleika skattþegns til hlunninda sem ekki voru nýtt.

3. Að hækkun skattstjóra vegna álagningar 1981 sem er miðuð við 8.000 km akstur verði lækkuð þannig að miðað verði við 3.500 km akstur sbr. bréf til skattstjóra frá 7. mars sl. þar sem var skýrt hvers vegna umbjóðandi okkar átti þess ekki kost að nýta sér möguleika til að aka jafnmikið í einkaþágu og skattstjóra þykir eðlilegt.“

Með kæruúrskurði, dags. 5. maí 1983, synjaði skattstjóri kærunni. Skattstjóri taldi að 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 girti ekki fyrir endurálagningu opinberra gjalda þar sem ekki mætti ótvírætt ráða af skattframtölum eða fylgiskjölum þeirra að bifreiðahlunnindi kæranda væru vanmetin. Hvað varðaði efnishlið málsins kæmi ekkert nýtt fram, sem leitt gæti til breytinga á hinum kærða úrskurði.

Í bréfi, dags. 21. júní 1983, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda þá kröfu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ríkisskattanefnd sendi ríkisskattstjóra bréf, dags. 2. september 1983. Var því beint til ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, með stoð í 7. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, „að afla eftirfarandi gagna og upplýsinga málinu til skýringar:

1. Upplýsinga þeirra sem skattstjóri getur um í meðfylgjandi ljósriti af bréfi til kæranda dags. 17. janúar 1983, en 4. mgr. bréfsins er svohljóðandi: „Hjálagt fylgir ljósrit af gögnum þeim sem umræddar upplýsingar frá vinnuveitanda yðar eru sóttar í.“

2. Skýrslur vinnuveitanda um afnot kæranda af bifreið hans árin 1979 og 1980.“ Ríkisskattstjóra voru veittir 20 dagar til þess að svara bréfinu. Svar hefur ekki borist.

Svo sem mál þetta liggur nú fyrir ríkisskattanefnd eru hinar kærðu breytingar skattstjóra felldar úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja