Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 799/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr. 2. mgr., 100. gr.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Verðbætur — íbúðarhúsnæði — íbúðarlán — Veðskuldabréf — íbúðarsala — Skuldabreyting — Uppgjör lána — Gjaldfallnar verðbætur gagnvart seljanda — Yfirtaka lána — Verðbætur, greiddar — Málflutningsumboð ríkisskattstjóra — Vísitala — Fjármálaráðuneytið — Ríkisskattstjóri — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að árið 1981 seldi kærandi íbúð sína að M-götu og keypti aðra íbúð að f-götu. Kærandi færði til frádráttar á skattframtali sínu 1982 vaxtagjöld að fjárhæð 50.948 kr. þar af sem gjaldfallnar verðbætur 38.783 kr. Skattstjóri lækkaði tilfærð vaxtagjöld um 38.743 kr. á þeim forsendum að líta bæri svo á að verðbætur gjaldféllu ekki fyrr en á hverja afborgun og bæri þá fyrst að telja þær til frádráttar með vöxtum.

Í kæru til skattstjóra dags. 9. ágúst 1982 mótmælti umboðsmaður kæranda niðurfellingu verðbóta á þeim forsendum að um væri að ræða endanlegt uppgjör umbjóðanda síns á umræddri skuld og verðbæturnar því gjaldfallnar gagnvart honum að fullu. Jafnframt gat hann þess að vandséð væri hvernig sú aðferð er skattstjóri vildi beita við gjaldfærslu verðbótanna væri í raun framkvæmanleg þar eð kærandi í þessu tilfelli yrði þá um ókomna framtíð á meðan lánið væri ekki fullgreitt að fylgjast með hver hans hluti í framtíðargreiðslum af láninu yrðu. Síðan væri hugsanlegt að enn fleiri eigendur ættu eftir að verða að hinni seldu íbúð og yrði þá framkvæmdin mun erfiðari.

Með kæruúrskurði dags. 7. desember 1982 synjaði skattstjóri kærunni. Í forsendum úrskurðar skattstjóra segir m.a. að í 3. ml. lokamálsgreinar 51. gr. laga nr. 75/1981, sé það skilyrði fyrir frádrætti verðbóta af skuldum sem ekki tengjast atvinnurekstri, að þær séu gjaldfallnar. Eðlilegast þyki að skilja það þannig, að verðbæturnar þurfi að vera gjaldfallnar gagnvart eiganda skuldarinnar. Uppgjörsaðferð kæranda og kaupanda íbúðar hans varðandi hinar áföllnu en ógjaldföllnu verðbætur skapi kæranda því ekki rétt til frádráttar á fjárhæð þeirra verðbóta sem hann fer fram á.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið ágreiningsefninu til ríkisskattanefndar með sömu kröfum og röksemdum og frá greinir í kæru til skattstjóra.

Í bréfi, dags. 1. nóvember 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að fallist verði á kröfur kæranda þess efnis að heimilaður verði vaxtafrádráttur, 38.783 kr., sem skattstjóri felldi niður í framtali 1982.

Í framtali sínu 1982 færði kærandi, undir liðnum „Vaxtagjöld til frádráttar“, 38.783 kr. með skýringunni „Veðdeild L.í. gjaldf. vísitala“.

Vaxtagjöld í heild námu skv. framtali, sbr. reit 87, 50.984 kr., sem kærandi færði til frádráttar tekjum í reit 60 í skattframtali.

Í fskj. kæranda „Kaup og sala eigna“, með framtali 1982 gerir kærandi grein fyrir sölu sinni á eigninni M-götu, dags. kaupsamnings 29.09.81, og afhendingardagur eignar 10.12.81. Í lið B í greindu fskj. gerir kærandi grein fyrir því að kaupandi hafi við kaupin yfirtekið áhvílandi skuldir að fjárhæð 65.070 kr., skuldareigandi Veðdeild L.í. í frekari greinargerð í þessum hluta fskj. segir svo orðrétt:

„Nafnverð ofangr. skuldar við yfirtöku er 26.287, gjaldfallin vísitala seljanda er því 38.783 þar sem kaupandi yfirtekur skuldina á uppreiknuðum eftirstöðvum.“

Hinn 10. maí 1982 ritaði skattstjóri kæranda bréf þar sem hann tilkynnir kæranda að fyrirhugað sé að gera breytingar á skattframtali 1982, en í 1. tl. þessa bréfs segir svo:

„1. Fella niður frádregið gjaldfallið vísitöluálag 38.783 kr. á fasteignalán, þar sem líta verður svo á að vísitöluálag gjaldfalli ekki fyrr en á hverja afborgun og beri þá að teljast til frádráttar með vöxtum.

Í svarbréfi umbm. kæranda til skattstjóra, dags. 11. maí 1982, segir svo í 1. mgr. 1. tl. bréfsins:

„1) Mótmælt er niðurfellingu vísitöluálags, 38.783 kr. Hér er um að ræða endanlegt uppgjör umbjóðanda míns á umræddri skuld og vísitöluálagið þar með gjaldfallið gagnvart honum að fullu.“

Með bréfi, dags. 26. júlí 1982, sendi skattstjóri kæranda tilkynningu um breytingar á framtali hans 1982 og segir svo í 2. mgr. bréfsins:

„Vaxtagjöld í reit 87 lækka um 38.783 kr. Ekki er fallist á að umrædd upphæð sé gjaldfallin í skilningi skattalaga.“

Umrædda breytingu skattstjóra í framtali kæranda kærði umbm. hans með kæru, dags. 09. ágúst 1982, með vísan til fyrrgreindra bréfaskrifta.

Í forsendum fyrir úrskurði skattstjóra, dags. 7. des. 1982, segir svo í 1. mgr.

„Í 3. málslið lokamálsgreinar 51. gr. laga nr. 75/1981 er það skilyrði fyrir frádrætti verðbóta af skuldum, sem eigi tengjast atvinnurekstri, að þær séu gjaldfallnar. Eðlilegast þykir að skilja þetta þannig, að verðbæturnar þurfi að vera gjaldfallnar gagnvart eiganda skuldarinnar. Uppgjörsmáti kæranda og kaupanda íbúðar hans varðandi hina áföllnu en ógjaldföllnu verðbætur skapar kæranda því eigi rétt til frádráttar á fjárhæð þeirra verðbóta sem hann fer fram á.“

Í kæru umbm. kæranda til ríkisskattanefnda, dags. 14. des. 1982, kemur enginn frekari rökstuðningur fram heldur alfarið vísað til fyrri kröfu og röksemda.

Umræddar skuldir eru við Veðdeild Landsbanka Íslands, svonefnd Húsnæðismálastjórnarlán, og eru skuldabréfin gefin út 15/2/78; 11/8/78 og 15/3/79, öll með gjalddaga 1. maí ár hvert. Samkvæmt upplýsingum veðdeildarinnar hefur skuldurum þessara veðskuldabréfa verið leyft að greiða þau þegar þeir óskuð þess, enda þótt ákvæði þar að lútandi séu aðeins í hinum nýjustu veðskuldabréfum. Séu lánin ekki greidd upp verða þau ávallt að fylgja hinni upphaflega veðsettu íbúð (íbúðarhúsnæði). Seljandi svo veðsettrar íbúðar getur ekki flutt lán þessi af íbúð er hann selur yfir á íbúð sem hann kaupir eða byggir í staðinn.

Það er álit ríkisskattstjóra að yfirtaka lána þeirra sem hér um ræðir af hálfu kaupanda megi leggja að jöfnu við greiðslu seljanda á umræddum lánum, bæði að því er varðar höfuðstól, svo og vexti og verðbætur til söludags, þ.e.a.s. álíta verður að vextir og verðbætur að þessu leyti séu gjaldfallnir gagnvart seljanda. Hins vegar geti kaupandi ekki notað þennan hluta vaxta og verðbóta við ákvörðun á frádráttarbærum vaxtagjöldum sínum.

Í þessu sambandi þykir þó rétt að benda á bréf fjármálaráðuneytisins til ríkisskattstjóra, dags. 3. febrúar 1983. Ljósrit af bréfi þessu fylgir hér með.

Samkvæmt gögnum, sem ríkisskattstjóri hefur aflað sér, námu upphaflegar eftirstöðvar veðskuldabréfanna 26.287,71 kr. þann 1. maí 1981, en eftirstöðvar þann dag miðað við vísitöluálag námu 56.269,50 kr. Mismunur nemur því 29.981,79 kr. þann 1. maí 1981 og er því fjárhæðin 38.783 kr. mjög sennileg miðað við dags. kaupsamnings þann 29. sept. 1981.“

Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 3. febrúar 1983, sem vitnað er til í kröfugerð ríkisskattstjóra, kemur eftirfarandi fram:

„Í framhaldi af símtali þann 1. þ.m. varðandi túlkun á 51. gr. 1. nr. 75/1981 vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Skv. 2. málslið 2. mgr. 51. gr. teljast til gjalda sem verðbætur og gengistöp aðeins gjaldfallnar verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti ef í hlut eiga menn og skuldirnar eru ekki í tengslum við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Er það skoðun ráðuneytisins að til afborgana í þessu sambandi verði það alls ekki talið hjá seljenda fasteignar að verðtryggður höfuðstóll skuldar sé yfirtekinn af kaupanda eignarinnar. Sýnist sú túlkun alls ekki geta samrýmst orðalagi tekjuskattslaganna.“

Með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja