Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 811/1983

Sölugjald 1981

Reglugerð 316/1978, 2. gr   Reglugerð 169/1970, 7. gr., 10. gr. 5. tl., 14. gr. 1. tl.   Lög nr. 10/1960, 2. gr. 2. mgr., 4. gr. 1. mgr. E-liður, 7. gr. 1. mgr. 1. tl., og 2. mgr., 13. gr., 20. gr.  

Söluskattsskylda — Eigin notkun — Sköttunarheimild — Söluskattsskyld starfsemi — Söluskattsundanþága — Vinna við húsbyggingar — Múrbrot — Vélanotkun — Ris 1980.529 — Dómur bæjarþings Reykjavíkur mál nr. 4616/1984

Í kæru til skattstjóra, dags. 22. febrúar 1982, segir umboðsmaður kæranda m.a.:

„Málavextir eru eftirfarandi: Á árinu 1980 var stofnað sameignarfélagið K. Eigendur félagsins eru húsasmiðir. Skv. stofnsamningi er tilgangur þess að annast steinborun, múrbrot og skyld störf með þar til sérhönnuðum vélum og verkfærum, svo og ísetning hurða, karma, glugga og aðra trésmíðavinnu. (Sjá meðf. mynd af borvél félagsins.)

Áður en starfsemin hófst, var leitað til söluskattsdeildar Skattstofu Reykjavíkur og spurst fyrir um söluskattsskyldu þeirrar þjónustu sem félagið hugðist bjóða. Í fyrstu voru þau svör gefin, að starfsemin væri ekki söluskattsskyld, en síðar var því áliti breytt smbr. meðf. ljósrit af bréfi yðar dags. 31/12 1980.

Félagið hefur síðan og þar til í janúar s.l. (vegna söluskatts des. '81) staðið skil á söluskatti vegna starfsemi sinnar.

Við nánari eftirgrennslan telja eigendur félagsins hinsvegar að starfsemi þeirra sé að öllu leyti söluskattsfrjáls og mótmæla þess vegna þeirri breytingu sem gerð hefur verið á söluskattsskýrslu fyrir desember 1981, með eftirfarandi röksemdafærslu:

Eins og segir í bréfi yðar 30/12 1980 er hvers konar vinna og þjónusta, sem látin er í té af iðnaðarmönnum - eða iðju- og iðnaðarfyrirtækjum söluskattsskyld skv. 3. og 4. tölulið 10. gr. reglug. 169/1979 um söluskatt en í 1. tölulið 14. gr. sömu reglugerðar sbr. 2. gr. reglugerðar 316/1978 segir:

„Eftirtalin starfsemi og þjónusta er undanþegin söluskatti:

1. Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, svo og vinna við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja og skiptir ekki máli hver lætur vinnuna í té.“ í bréfi yðar hafið þér skotið inn orðinu „manna“ á eftir „vinna“ og sagt að vinna „manna“ væri undanþegin söluskatti. Ekki verður séð hvaða stoð þessi útfærsla á reglunni á í reglugerðinni sjálfri.“

Þá segir í kærunni, að úrskurður skattstjóra virðist fela í sér aðgreiningu á vinnu með „meiri háttar“ tækjum og öðrum tækjum að því er varði skyldu til greiðslu söluskatts. Verði ekki séð að slík aðgreining eigi stoð í 10. eða 14. gr. reglugerðarinnar. Skv. 14. gr. virðist öll vinna við húsbyggingar undanþegin söluskatti.

Í niðurlagi kærunnar segir:

,,a) Skv. úrskurði ríkisskattanefndar nr. 529/1979 (sic), var notkun byggingarkrana í eigu byggingarfyrirtækis, sem það notar við störf sín ekki talin söluskattsskyld.

b) Ekki hafa snittvélar sem pípulagningamenn nota, þótt vera „meiri háttar“ ekki hefur þótt ástæða til þess að innheimta söluskatt af vinnu með slípirokkum sem múrarar nota á nýsteypt gólf, né vinnu með slípirokkum sem trésmiðir nota á gömul trégólf. Snittvélin kostar það sama og kjarnaborvél. Slípirokkarnir kosta litlu minna. Verður að telja ótvírætt að umbj. minn eigi kröfu til að verða ekki verr settur að þessu leyti en þeir menn aðrir sem eins eða álíka háttar um.

Eigendur K s.f. krefjast þess að söluskattur desembermánaðar verði felldur niður og að söluskattsfrelsi starfseminnar verði viðurkennt.

Með úrskurði uppkveðnum 31. mars 1982, synjar skattstjóri kærunni og segir m.a. í forsendum þess úrskurðar:

„Um það, hvort hér sé um meiriháttar tæki að ræða eða ekki, er rétt að taka tillit til þess að hér virðist vera um nýja tækni að ræða til þess að leysa verk sem löngum hefur verið unnið með vélum eða meiri háttar tækjum s.s. loftborum, en sú þjónusta er talin söluskattsskyld. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum söluskattslög og reglugerð að eigi sé rétt að valda þannig mismunun með söluskatti að það raski verulega samkeppnisaðstöðu aðila. T.d. mundi gluggasmíði á byggingarstað vera talin söluskattsskyld vegna þess að yfirleitt er hún unnin með vélum á verkstæði.

Auk þess er vél sú eða tæki, sem hér er um að ræða, alldýr í innkaupi.

Þá vitnar kærandi í úrskurð ríkisskattanefndar nr. 529,1980 um notkun byggingarkrana. Hvað sem um þennan úrskurð má annars segja virðist engin leið að túlka hann þannig, að þjónusta byggingarkrana sé undanþegin söluskatti þegar hún er seld út sérstaklega eins og gert er við nefnda kjarnaborun.

Um slípirokka og snittvélar er það að segja, að samkv. 20. gr. söluskattslaga getur fjármálaráðherra, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi ákveðið að undanþiggja söluskatti tilteknar tegundir vörusölu eða þjónustu umfram það sem undanþegið er í 6. og 7. gr. Hefur sennilega ekki þótt svara kostnaði að eltast við þjónustu þessara tækja, enda virðist það ekki raska samkeppnisaðstöðu neinna aðila.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 13. apríl 1982, krefst umboðsmaður kæranda þess að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Um rökstuðning er aðallega vísað til áðurnefndrar kæru til skattstjóra. Þá er þess óskað, að munnlegur málflutningur fari fram í kærumáli þessu fyrir ríkisskattanefnd. Einnig er þess krafist, að kæranda verði úrskurðaður hæfilegur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Með bréfi, dags. 25. maí 1982, lagði ríkisskattstjóri fram svohljóðandi kröfugerð í málinu:

„1. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að mati ríkisskattstjóra fullnægjandi rökstuðningur fyrir ákvörðun sölugjalds af starfsemi kæranda. Með vísan til forsendna úrskurðarins svo og annarra gagna málsins er gerð krafa um staðfestingu ríkisskattanefndar á sölugjaldsákvörðun skattstjóra.

2. Krafist er að ríkisskattanefnd vísi frá sér kröfum umboðsmanns kæranda um „kærumáls“ kostnað honum til handa þar eð úrskurður um slík atriði hafa eigi verið talin falla til valdsviðs ríkisskattanefndar.“

Á fundi ríkisskattanefndar 21. júlí 1982, var eigi fallist á þá ósk umboðsmanns kæranda að fram færi munnlegur málflutningur í kærumáli þessu. Hins vegar var ákveðið að í málinu færi fram skriflegur málflutningur og var kæranda veittur frestur til 1. september 1982 til að skila sókn sinni í málinu.

Með bréfi, dags. 18. nóv. 1982, skilaði umboðsmaður kæranda sókn sinni í málinu. Eru þar ítrekaðar fyrri kröfur um að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og vísað til fyrri rökstuðnings. Þá segir m.a. í bréfinu:

„2. Skattstjóri telur að skattyfirvöld og fjármálaráðuneyti hafi oft úrskurðað, að ýmiss konar vinnuvélaþjónusta við mannvirkjagerð (vélavinna og vélaleiga) sé söluskattskyld starfsemi. Bendir hann í því sambandi á lokaákvæði 7. gr. söluskattslaga sem hljóði um að ráðherra kveði nánar á um, hvað falli undir undanþáguákvæði 6. og 7. gr.

Um þetta er það að segja í fyrsta lagi að skattstjóri bendir ekki á neinn úrskurð um þetta. Er ekki unnt að byggja á því, að úrskurðir hafi gengið, nema menn viti hverjir þeir séu.

Í öðru lagi hefur fjármálaráðherra ekki úrskurðarvald um söluskattskyldu. Í lokaákvæði 7. gr. er verið að fela ráðherra að ákveða með reglugerð nánari útfærslu á hinum tilgreindu reglum laganna. Er heimild þessi til fyllingar almennri heimild í 27. gr. laganna (nú 28. gr.) um reglugerð. Sú skoðun, að með lokaákvæði 7. gr. sé verið að mæla fyrir um úrskurðarvald ráðherra er alveg út í hött. Það heyrir til undantekninga í skattalögum að ráðherra eigi slíkt úrskurðarvald í einstökum málum og verður tvímælalaust að telja að skýrt verði að koma fram í lögum ef ætlunin er að fá honum þannig vald. Í söluskattslögunum er alveg ljóst að engu úrskurðarvaldi er til að dreifa hjá ráðherra. Um úrskurði skv. þeim lögum er beinlínis fjallað í 13. gr., þar sem m.a. kemur fram að fjármálaráðherra er málspartur en ekki úrskurðaraðili.

Í þriðja lagi læt ég í ljósi grunsemdir um, að það sem skattstjóri nefnir „úrskurði“ skattyfirvalda og ráðherra sé formlaust samráð (líklega oftast í síma) við ráðuneytisstarfsmenn. Í þessu sambandi get ég tekið fram til stuðnings mínum lögskýringum í málinu, að þær eru ekki byggðar á samráði við starfsmenn í fjármálaráðuneytinu.

3. Sá hluti „rökstuðnings“ skattstjóra, sem fjallar um „meiri háttar“ tæki er furðulegur. Skal þá haft í huga m.a. að þessa aðgreiningu er hvergi að finna í lögum eða reglugerðum. Í „rökstuðningnum“ kemur fram, að skattstjórinn er búinn að búa sér til reglukerfi um aðgreininguna, sem áreiðanlega er hvergi skráð, nema þá e.t.v. innan veggja á skrifstofu hans. Þannig finnst honum skipta máli, hvort tækni sé ný eða gömul, hvernig tæki hafi áður verið notuð og hversu vel svari kostnaði að „eltast við þjónustu vélanna“. Þessar reglur skattstjórans hafa ekki þýðingu í málinu.“

Með bréfi, dags. 29. júní 1983, lagði ríkisskattstjóri að nýju fram kröfugerð í málinu þar segir m.a.:

„Umboðsmaður kæranda byggir kröfu sína um skattfrelsi kæranda á undanþáguákvæði 7. gr. 1. mgr. 1. tl. söluskattslaga, sbr. 14. gr. 1. tl. reglugerðar nr. 169/1970 er gilti þar til reglugerð nr. 486/1982 tók gildi.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á svo víðtækan skilning á framangreindu undanþáguákvæði. Allt frá gildistöku söluskattslaganna hefur það verið skoðun skattyfirvalda að einungis vinna manna væri undanþegin söluskattsskyldu skv. nefndu ákvæði en öll vinna véla og tækja væri söluskattsskyld skv. meginreglu laganna um skattskylduna. Framkvæmd skattyfirvalda í samræmi við framangreinda skoðun hefur eigi sætt aðfinnslu í þeim fjölmörgu söluskattsmálum sem hafa verið til meðferðar hjá dómstólum landsins og ríkisskattanefnd.“

Til stuðnings þessarar skoðunar vísar ríkisskattstjóri síðan til framsöguræðu fjármálaráðherra með frumvarpi til laga um söluskatt þann 10. mars 1960. Í niðurlagi kröfugerðar ríkisskattstjóra segir:

„Kærandi er atvinnufyrirtæki og felst aðalstarfsemin í að selja út þjónustu við allskyns steinborun, múrbrot og skyld störf og til þessara starfa notar kærandi sérhannaðar vélar og verkfæri er einungis eru nýttar til þessarar starfsemi kæranda.

Í starfsemi kæranda felst þannig bein sala til neytanda og þykir slík sala ávallt skapa söluskattsskyldu skv. meginreglu söluskattslaga. Engin ákvæði söluskattslaga verða skv. framansögðu talin undanþiggja starfsemi kæranda söluskattsskyldu.

Tilvísun kæranda í úrskurð ríkisskattanefndar nr. 529, dags. 24. október 1980, þykir ekki eiga við í máli þessu þar sem tilvikin eru ekki sambærileg.

Í hinum tilvitnaða úrskurði var deilt um söluskattsskyldu vegna eigin nota byggingaraðila á krana við húsbyggingar og var niðurstaðan að slík not teldust ekki söluskattsskyld skv. ákvæðum söluskattslaga.

Í tilviki kæranda er hins vegar um að ræða starfsemi er felur í sér sölu til neytenda og ágreining um hvort hún geti talist falla undir undanþáguákvæði laganna.

Að virtu framangreindu hafnar ríkisskattstjóri því alfarið að nefndur úrskurður hafi fordæmisgildi í máli kæranda.

Ríkisskattstjóri ítrekar gerðar kröfur og leggur málið til úrskurðar.“

Eigi er lagaheimild til að úrskurða kæranda málskostnað.

Svo sem gögn málsins liggja fyrir verður eigi séð að á tímabili því sem um er að ræða í máli þessu hafi falist söluskattsskyldur þáttur. Er því fallist á framkomnar kröfur.

(Staðfestur með dómi bæjarþings Reykjavíkur í málinu nr. 4616/1984: Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn Kjarnborun s.f.)

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja