Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 814/1983

Gjaldár 1983

Reglugerð: 986/1982   Reglugerð: 417/1982   Lög nr. 33/1982   Lög nr. 75/1981, 107. gr.   Lög nr. 47/1978   Lög nr. 10/1974   Lög nr. 51/1968   Lög nr. 10/1960, 25. gr., 26. gr.  

Skattsektir — Skattrannsókn — Bókhald — Bókhaldsbækur — Tekjuskráning — Bókfærsla — Skattrannsóknarstjóri

Með bréfi, dags. 7. september 1983, hefur skattrannsóknarstjóri sent ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál T. s.f., X-götu, Z-firði, nnr. 0000-0000, „þar sem tilskilið bókhald lögum samkvæmt hefur ekki verið fært rekstri fyrirtækisins til grundvallar.“ Í bréfinu er gerð svofelld grein fyrir málinu:

„T. s.f. er sameignarfélag, stofnað árið 1977. Eigendur eru B.A., B-götu, Z-firði, sem jafnframt er framkvæmdastjóri og K.F., M-götu, Y-firði.

Bókhaldari fyrirtækisins er B.F., B-götu, Z-firði. Starfsemi félagsins er fólgin í almennri trésmíðavinnu. Að sögn B.A. hefur hann starfað einn hjá fyrirtækinu T. s.f. að því undanskyldu að yfir sumartímann hefur yfirleitt verið ráðinn einn maður í tvo til þrjá mánuði.

Félagið er sjálfstæður skattaðili og framtölum og söluskattsskýrslum hefur verið skilað eins og lög gera ráð fyrir. Heildarvelta T. s.f., árið 1981 var 293.569,00 kr., þar af söluskattskyld velta 64.286,00 kr. Árið 1982 var heildarveltan 402.433,00 kr. og þar af skattskyld velta 183.341,00 kr.

MÁLAVEXTIR OG LAGARÖK:

Þann 7. júlí 1981 var gerð athugun af hálfu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi félagsins rekstrarárið 1980 og fram í júlí 1981. Í ljós kom að bókhaldsbækur fyrir rekstrarárið 1980 voru ekki í lögskipuðu formi. Ekkert bókhald hafði verið fært á skoðunardegi fyrir rekstrarárið 1981 og frumgögn ekki í því formi sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Í bréfi dagsettu þann 30. mars 1982, er sent var T. s.f., b.t. hr. B.Á., ásamt skýrslu um ofangreinda bókhaldsskoðun var annmörkum bókhaldsins fýst, sbr. fylgiskjal I. Einnig var lagt fyrir forsvarsmann fyrirtækisins að færa bókahald í samræmi við ákvæði laga nr. 51/1968 um bókhald og laga nr. 10/1960 um söluskatt, með síðari breytingum, sbr. og reglugerðir settar með stoð í sömu lögum.

Hinn 7. júlí 1983 gerðu starfsmenn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra enn á ný athugun á bókhaldi félagsins, sbr. fylgiskjal II. f ljós kom að ofangreindum fyrirmælum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra hafði ekki verið framfylgt.

Bókhald rekstrarársins 1983, hafði ekki verið fært, þrátt fyrir skýlaus ákvæði II. kafla laga nr. 51/1968 um bókhald sbr. 3. tl. A-liðar 2. gr., sbr. 1. gr. og 1. mgr. 4. gr. sömu laga með áorðnum breytingum og ákvæði 15. gr. og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 486/1982 um söluskatt með síðari breytingum. Þá voru frumskráningargögn ekki í samræmi við fyrirmæli 13. gr. bókhaldslaga né ákvæði 18. gr. ofangreindrar reglugerðar um söluskatt. Þau voru ekki fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð, heldur í töluröðinni 1-50.

Af framanskráðu er ljóst að forsvarsmenn T. s.f. hafa vanrækt að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum nr. 51/1968, sbr. lög nr. 47/1978 og lög nr. 10/1960 með síðari breytingum, sbr. og reglugerð nr. 486/1982 um söluskatt með síðari breytingum og reglugerð nr. 417/1982 um bókhald með áorðnum breytingum.

Hér með er þess farið á leit við ríkisskattanefnd að hún geri T. s.f. að greiða sekt vegna ofangreindrar vanrækslu, á grundvelli 2. mgr. 25. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum með lögum nr. 10/1974 og lögum nr. 33/1982.“

Með bréfi, dags. 20. september 1983, var félaginu veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindu bréfi. Var það gert með bréfi, dags. 18. október 1983. Í því bréfi er svofelld greinargerð umboðsmanns félagsins:

„Þegar T. s.f. á sínum tíma hóf starfsemi sína, var okkur sagt, að við töldum ábyrgum aðila, að við mættum nota venjulegar frumbækur ef reikningarnir væru sérprentaðir og í hlaupandi töluröð, og létum við þá prenta reikninga sem hafa verið notaðir síðan. Þegar svo menn skattrannsóknarstjóra komu hingað 1981 sögðu þeir að þetta væri rangt og okkur bæri að hafa frumbækur áprentaðar í hlaupandi töluröð en ekki reikninga, og gáfu fyrirmæli um breytingu þar á. Seinna kom upp sú staða, að vegna atvinnuástands (þetta er fyrirtæki með einn starfsmann, eiganda), var útlit fyrir að fyrirtækið hætti störfum og eigandi (B.Á.) réði sig í vinnu hjá opinberum aðila, og hefur þetta ástand allt verið mjög óljóst í nokkra mánuði, þó ekki hafi orðið neitt úr því og fyrirtækið starfi enn á sama grundvelli. Vegna þessa ástands var ekki farið út í að láta prenta bækur, sem kannski yrðu aldrei notaðar, og sömu skýringar gilda um form á öðrum bókum. Úr þessu hefur nú verið bætt og er nú allt bókhald uppfært, prentaðar hafa verið frumbækur í hlaupandi töluröð, keypt tölusett dálkabók og sjóðbók, og mun ég reyna að sjá til þess að það verði í framtíðinni í lagi. Ég undirrituð, hef séð um færslur á bókhaldinu, en við höfum fengið endurskoðanda til að gera ársuppgjör, því ég hef ekki nægilega kunnáttu til þess. Ég ætla ekkert að reyna að afsaka þann trassaskap minn, að færa ekki bókhaldið jafnóðum, en einhvern veginn er það nú svo, að af því þetta er ekki umfangsmeira en það er (fylgiskjöl f. árið 1982 voru 210), þá finnst manni ekki taka því, að setjast við fyrr en kominn er svolítill bunki til að færa.

Ég held ég verði að láta þetta duga sem svar við bréfi yðar, og verð svo bara að taka því sem út úr þessu kemur, þó ég voni nú að ég sleppi við sekt, en við því er víst ekkert að gera.“

Engin efni eru til sektarbeitingar í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eigi er fallist á kröfur skattrannsóknarstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja