Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 25/1982

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 15. gr.  

Sameignarfélag — Aðilaskipti — Stofnverð — Gengistap — Söluhagnaður eignarhluta — Stofnfé — Fyrning gengistaps — Söluverð — Skip — Útgerð — Stofnun sameignarfélags — Fyrningargrunnur — Heildarfyrningarverð

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

I

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 30. janúar 1980 krafði skattstjóri kæranda m. a. um kaupsamninga vegna kaupa á eignarhlutum H og G í tilteknum báti á árinu 1978 svo og um kaupsamning vegna kaupa S sf. á sama bát. Þá var óskað sundurliðunar á höfuðstól að fjárhæð 70 746 515 kr. skv. efnahagsreikningi útgerðar bátsins þann 31.12. 1978 svo og skýringa á gjaldfærðu gengistapi á rekstrarreikningi bátsins árið 1978 að fjárhæð 31 662 881 kr. Þá var óskað sundurliðunar á stöðu viðskiptamanna S sf. 26 113 933 kr. svo og ljósrita af lánareikningum við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð. I bréfi dags. 8. febrúar 1980 gaf kærandi umbeðnar upplýsingar og lét í té umbeðin gögn.

Með bréfi dags. 25. mars 1980 krafði skattstjóri kæranda m. a. frekari upplýsinga um rekstur umrædds báts á árinu 1978. Kærandi svaraði með bréfi dags. 27. s. m.

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi ásamt þremur öðrum 36% af bát og útgerð hans. Afsöl voru dags. 15. apríl 1978 og 30. desember 1978. Átti kærandi fyrir hlut í bátnum. Við kaup á eignarhlutum þessum var miðað við að heildarverð báts væri 83 000.000 kr. í apríl og 92 000 000 kr. í desember. Verð útgerðar var miðað við hlutdeild í bókfærðu verði sjóðs, skuldunauta og veiðarfæra þann 31.12. 1977. Að gerðum þessum kaupum seldu eigendur bátsins fjórir nýstofnuðu sameignarfélagi S sf. bát og útgerð þann 31. desember 1978 og var söluverð alls 160 000 000 kr. Yfirtók félagið allar skuldir áhvílandi bát og útgerð, en mismunur söluverðs og skulda varð eign félagsaðila að S sf., seljendanna fjögurra, að jöfnu. Kærandi færði sér til eignar í skattframtali sínu árið 1979 fjórðungshlutdeild sína í S sf., 17 686 629 kr. Sameignarfélag þetta skyldi vera sjálfstæður skattaðili. Rekstur bátsins var á ábyrgð þeirra fjögurra eigenda er í árslokin seldu sameignarfélaginu hann og áttu þeir, er seldu eignarhluti sína á árinu, ekki hluttöku í rekstrinum sama ár. Tap af rekstri bátsins árið 1978 nam samkvæmt rekstrarreikningi fyrir það ár 20 201 378 kr. Fjórðungshlutdeild sína í því eða 5 050 345 kr. færði kærandi til frádráttar í skattframtali sínu.

Með bréfi dags. 14. apríl 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að taka skattframtal hans árið 1979 til endurálagningar. Ekki væri fallist á söluverð bátsins til sameignarfélagsins, 160 000 000 kr. enda væri félag þetta stofnað af seljendum bátsins. Stofnverð bátsins bæri að telja 33 380 178 kr., þ. e. kaupverð á 64% bátsins 1973 og 36% 1978 að frádregnum fyrningum. Næmi lækkun á bókfærðu verði því 126 619 822 kr. Þá væri uppfærsla á gengistryggðum lánum of há um 2 057 831 kr. skv. innsendum gögnum miðað við gengi 31.12. 1978. Skuld við Fiskveiðasjóð yrði 47 090 459 kr. og við Byggðasjóð 4 990 914 kr. Gengistap lækkaði því um 2 057 831 kr. og yrði 29 605 050 kr., er mætti afskrifast samkvæmt 5. mgr. C-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971 að fullu á eftirstöðvum fyrningartíma hlutaðeigandi eignar eða á 5 árum að vali skattaðila. Miðað við fyrningu á 5 árum yrði ársfyrning 5 921 010 kr. Hækkun eigna og lækkun rekstrarhalla yrði 25 741 871 kr. Gengistap að fjárhæð 31 662 881 kr. hafði verið gjaldært að fullu á rekstrarreikningi bátsins árið 1978. Þá felldi skattstjóri niður tekjufærðan söluhagnað vegna sölu á innleystum eignarhlutum G og H í bát og útgerð að fjárhæð alls 25 740 000 kr. með vísan til hinnar fyrstnefndu breytingar. Eftir þessu öllu varð lækkun eigna kæranda vegna bátsins, þ. e. eignarhlutur í S sf., eignfærður á 17 686 629 kr., 25 219 488 kr. og hlutdeild í skuldum umfram eignir frá 7 532 859 kr. Lækkun rekstrarhalla vegna bátsins yrði að hlut kæranda 468 kr. eða 25% rekstrarhalla 5 049 877 kr.

Kærandi mótmælti ráðgerðum breytingum skattstjóra með bréfi dags. 23. apríl 1980. Kvað hann bátinn hafa verið seldan sjálfstæðum skattaðila, þ. e. S sf., á eðlilegu verði, þ. e. nálægt vátryggingaverði, sem væri eðlilegt markaðsverð. Ekki væri bent á nein lagarök til stuðnings ákvörðuninni. Gengistap taldi kærandi ekki ofáætlað, en það yrði leiðrétt í reikningum S sf. fyrir árið 1979 til hækkunar eða lækkunar.

Með bréfi, dags. 16. maí 1980, tilkynnti skattstjóri kæranda, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1979 hefðu verið endurákvörðuð í samræmi við boðaðar breytingar í bréfi dags. 14. apríl 1980. Leiddu breytingarnar til lækkunar á eignarskatti um 305 667 kr. Endurákvörðunin var kærð af hálfu kæranda með bréfi dags. 13. júní 1980. Með úrskurði dags. 30. september 1980 hafnaði skattstjóri kröfunni, enda gæfi kæran ekki tilefni til breytinga.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 29. október 1980 og þess krafist að breytingum skattstjóra verði hrundið.

II

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 9. nóvember 1981:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Eigi er fallist á það að stofnun sameignarfélagsins S sf. og kaup þess á bátnum, heimili félaginu að afskrifa bátinn af kaupverði, þar eð eigendur félagsins eru þeir sömu og seldu bátinn, þannig að einungis er um að ræða breytingu á nafngift á eigendum bátsins en raunverulegir eigendur eru hinir sömu og áður. Niðurstaða þessi verður að teljast í samræmi við grundvallarsjónarmið 15. gr. laga nr. 68/1971. Varðandi breytingu skattstjóra á gengistryggðum skuldum félagsins er eigi annað sjáanlegt en að hún sé rétt. Gengistap ársins lækkar því úr gkr. 31 662 881 í gkr. 29 605 050 eða um gkr. 2 057 831.

Eigi er fallist á að félaginu sé heimilt að gjaldfæra allt gengistap ársins heldur einungis 1/2 hluta þess skv. 3. mgr. C-liðar 15. gr. I. 68/1971.“

III

Að gerðum kaupum kæranda og sameigenda hans þriggja á 36% eignarhluta í bát og útgerð þeirri, sem í málinu greinir, voru þeir einir og að jöfnu orðnir eigendur að nefndum eignum. Þessir sömu eigendur stofnuðu sameignarfélag, S sf., um útgerð bátsins er yfirtók bát og útgerð fyrir 160 000 000 kr. jafnframt því að taka að sér allar skuldir áhvílandi á eignunum. Mismun svonefnds söluverðs og yfirtekinna skulda töldu félagsmenn stofnfé sitt í sameignarfélaginu. Þegar litið er til þess, að eigendur S sf. eru þeir sömu og áður áttu þær eignir er til félagsins gengu og aðilaskipti í reynd því eigi orðið á eignunum, svo og að virtum öðrum atvikum málsins, verður eigi á það fallist, að við stofnun þessa félags verði yfirtaka eignanna að skattarétti byggð á svonefndu söluverði þeirra við þessar ráðstafanir. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er þetta kæruatriði snertir. Þá þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að því er varðar meðferð gjaldfærðs gengistaps með vísan til forsendna hans, enda engar tölulegar athugasemdir fram komið af hálfu kæranda við þær fjárhæðir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja