Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 43/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981,3. tl. A-liðs 7. gr., 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 95. gr., 96, gr., 3. mgr. 30. gr.  

Lög nr. 75/1981,3. tl. A-liðs 7. gr., 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 95. gr., 96, gr., 3. mgr. 30. gr.

Kærandi hafði tekjur af sölu málverka árið 1979 er hann hafði sjálfur gert. Fylgdi skattframtali hans árið 1980 yfirlit yfir tekjur og gjöld vegna þessarar sölustarfsemi og nam tap 64 091 kr. samkvæmt yfirlitinu. Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að honum hefði verið ákvarðað reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur að fjárhæð 150 000 kr. Var vísað til 1. mgr. 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra. Kröfu kæranda í kæru dags. 29. ágúst 1980 hafnaði skattstjóri með úrskurði dags. 30. október 1980. Vísaði skattstjóri til þess, að með hliðsjón af 2. mgr. 1. tl. 7. gr. og 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt hefði ekki verið komist hjá því að reikna kæranda laun vegna vinnu við þá iðju sem fyrr greinir.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 28. nóvember 1980. Er á það bent að um hafi verið að ræða tómstundastarf kæranda sem hann hafi gripið til eftir að hann varð óvinnufær vegna vinnuslyss á árinu 1976. Telur kærandi að ekki hafi verið um að ræða sjálfstæða starfsemi í skilningi skattalaga og taka beri tillit til aðstöðu hans og umfangs starfseminnar. Er þess því krafist, að tekjuhækkunin verði með öllu felld niður.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 11. janúar 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi var rétt af skattstjóra að fara með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og á stóð bar að styðjast við ákvæði 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Þá verður að virtum málsatvikum að fallast á það sjónarmið kæranda, að eigi hafi hér verið um tekjur að ræða af sjálfstæðri starfsemi. Sýnast hér frekast hafa verið um þær tekjur að ræða sem greinir í 3. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og gjöld færð á grundvelli þeirrar frádráttarheimildar sem um ræðir í 3, mgr. 30. gr. sömu laga. Með vísan til framanritaðs er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja