Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 52/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981. 61. gr.. 99. gr., 100. gr.  

Bókhaldsþjónusta — Tekjuuppgjör — Þjónusta — Endurskoðunarstarfsemi — Kæruréttur — Kæruheimild — Lögaðili — Kæranleiki ákvörðunar skattstjóra — Tekjutímabil

I

Kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma gjaldárið 1980. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. í framhaldi af kæru dags. 28. september 1980 barst skattframtal kæranda árið 1980. Með úrskurði dags. 29, desember 1980, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar með nokkrum breytingum. M. a. féllst skattstjóri ekki á að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, svo sem kærandi hafði gert, í stað unninnar og bókfærðrar þjónustu. Á það væri að líta, að með frestun þessari myndaði kærandi yfirfæranlegt rekstrartap að fjárhæð 4 805 777 kr. er væri m. a. andstætt ýmsum ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, um að heimila ekki skattaðilum að fresta skattlagningu skattskyldra tekna meðan þeir ættu ónotuð rekstrartöp frá fyrri árum eða mynda á þann hátt yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs. Samkvæmt breytingu skattstjóra varð tekjuskattsstofn kæranda 731 482 kr. í stað fyrrnefnds rekstrartaps að fjárhæð 4 805 777 kr.

II

Kærandi vill eigi sætta sig við þessa ákvörðun skattstjóra og hefur með kæru dags. 26. nóvember 1980 skotið úrskurði hans til ríkisskattanefndar. í bréfi dags. 28. janúar 1981 barst rökstuðningur kæranda. Þar segir m. a. svo:

„Aðalkrafa í kæru er að leyft verði tekjuuppgjör til skatts samkvæmt 61. gr. laga nr. 40/ 1978 með áorðnum breytingum.

Einu rök skattstjóra fyrir neitun eru þau að við þessa meðferð skattstofns myndist yfirfæranlegt tap til skatts, svo sem eðlilegt er, á fyrsta ári sem skattstofn er reiknaður eftir þessari aðferð.

Á það ber að líta að hið umrædda tap myndast sökum þess að innistæður í ársbyrjun hafa áður myndað tekjuskattsstofn, samkvæmt eldri skattalögum og eru þannig samkvæmt anda þessarar greinar búinn að mynda eins konar fyrirfram skattlagðan stofn.

Ekki verður annað séð en umrædd neitun skattstjóra teljist taka til ákvörðunar á skattstofni og yfirfæranlegu tapi skv. 1. mgr. 99. gr. laga 40/1978 og sé því unnt að skjóta úrskurðinum til ríkisskattanefndar skv. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Varakrafa er sú, verði ekki fallist á aðalkröfu, að frá skattstofni, eins og hann er úrskurðaður af skattstjóra, dragist 279 996 kr. sem 5% tillag í afskriftasjóð útistandandi viðskiptaskulda skv. 2. mgr. 5. tölul. 74. gr. laga 40/1978 og kr. 112 939 sem 25% tillag í skattfrjálsan varasjóð skv. 12. tölul. 31. gr. sömu laga.

Þar sem hvorug þessi ráðstöfun rekstrarhagnaðar kom til álita við skattuppgjör skv. 61. gr., hlýtur að teljast eðlilegt að leyfa þessa breytingu á framtali við breyttar forsendur.

Samkvæmt varakröfu yrði skattstofn þannig:

Skattstofn skv. úrskurði skattstjóra ......................................... .... kr. 731 482

Reikningsskekkja skattstofu .................................................... kr. 270

5% afskrift útistandandi tekna................................................. kr. (279 996)

25% tillag í varasjóð ............................................................... kr. (112 939)

Tekjuskattstofn ...................................................................... Kr. 338 817,"

III

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 21. desember 1981:

„1. Þess er krafist að vísað verði frá ríkisskattanefnd atriðum sem varða leyfisveitingu eða synjun um leyfi til að haga skattalegu tekjuuppgjöri þannig að miðað verði við innborganir seldrar þjónustu, sbr. 61. gr. skattalaga, enda verður ekki séð með hvaða hætti sú ákvörðun skattstjóra sé kæranleg eftir hinum sérstöku kæruleiðum 100. gr. skattalaga.

2. Tekið skal fram að hefði kærandi sótt um heimild skv. 61. gr. fyrir byrjun reikningsárs þá hefðu sjónarmið þau er varða töp til yfirfærslu, sbr. úrskurð skattstjóra og kæru til ríkisskattanefndar, ekki átt við eftir eðli máls.

3. Krafist er að varakröfu kæranda um færslu tekna í afskriftasjóð verði hafnað sem tölulega órökstuddri, að frátöldu því að fallist er á kröfu um varasjóðstillag."

IV

Skattstjóri felldi úrskurð um kæruefnið, er kæranlegur væri til ríkisskattanefndar. Hið umdeilda atriði varðar skattstofn, þ. m. t. rekstrartöp kæranda, og verður að telja, að hin almenna kæruleið samkvæmt 99. og 100. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eigi hér við. Verður því eigi fallist á frávísunarkröfu ríkisskattstjóra. Aðalkrafa kæranda er tekin til greina með vísan til 1. ml. 61. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja