Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 65/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 123. gr.   Lög nr. 75/1981, 29. gr., 1. tl. 1. mgr. 31. gr.   Lög nr. 68/1971, B-liður 12. gr.  

Eignarskattur — Frádráttarbærni — Álagður eignarskattur — Frádráttarheimild — Rekstrarkostnaður — Gildistaka skattalagabreytinga — Rekstrarútgjöld — Lögskýring — Lögaðili — Hlutafélag

Kærandi, sem er hlutafélag, krefst þess að álagður eignarskattur gjaldársins 1979 verði viðurkenndur sem rekstrarkostnaður þess árs og því frádráttarbær frá tekjum við ákvörðun tekjuskatts gjaldárið 1980. Með úrskurði sínum dags. 21. nóvember 1980 hafnaði skattstjóri þeirri kröfu á þeim forsendum, að í 31. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kæmi ekki fram að við ákvörðun tekjuskattsstofns væri unnt að draga álagðan eignarskatt gjaldárið 1979 frá tekjum.

Með bréfi dags. 7. janúar 1981, mótteknu af ríkisskattanefnd 7. janúar 1982, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur f. h. gjaldkrefjanda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Lög nr. 40/1978 öðluðust gildi 1. janúar 1979 og komu til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna á árinu 1979 og eigna í lok þess árs, sbr. 123. gr. laganna.

Í 29. gr. nefndra laga, sbr. nú lög nr. 75/1981, kemur fram að frá tekjum af atvinnurekstri er heimilt að draga frá rekstrarkostnað, þ. e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. í 31. gr. laganna eru nánari fyrirmæli um hver sá rekstrarkostnaður sé. Hvorki þar né annars staðar í lögum nr. 75/1981 er að finna heimild til að draga frá tekjum á árinu 1979 álagðan eignarskatt.

Lagaheimild er þannig eigi fyrir hendi til að verða við kröfu kæranda.“

Samkvæmt ákvæðum B-liðs 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, var „eignarskattur félaga, sem greiddur hefur verið á árinu,“ frádráttarbær frá tekjum áður en tekjuskattur var á þær lagður. Sambærileg frádráttarheimild er eigi í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sem leystu fyrrnefnd lög af hólmi, en samkvæmt gildistöku ákvæðum komu þau lög til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna á árinu 1979 og eigna í lok þess árs. Frádrátt frá skattskyldum tekjum er því aðeins heimilt að veita að til þess sé ótvíræð lagaheimild. Eignarskattur sá, sem um er getið í máli þessu og lagður var á kæranda á gjaldárinu 1979 vegna eigna hans í loks ársins 1978, telst hvorki falla undir rekstrarkostnað hans á árinu 1979 í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. síðastnefndra laga né annarra frádráttarbærra útgjalda samkvæmt öðrum töluliðum í þeirri málsgrein. Með þessum athugasemdum er fallist á kröfur ríkisskattstjóra en kröfum kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja