Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 80/1982
Gjaldár 1980
Lög nr. 75/1981, 7. gr., 3. tl. A-liðs 1, mgr. 30. gr., 96. gr.
Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Reiknað endurgjald — Málsmeðferð áfátt — Einkanotkun — Fyrirspurnarbréf skattstjóra — Andmælareglan — Endurákvörðun
Kærandi fékk bifreiðastyrki frá vinnuveitendum á árinu 1979. Lét hann fylgja skattframtali sínu árið 1980 yfirlit yfir rekstur þeirrar bifreiðar, sem léð var til afnota, þar sem bifreiðastyrkir voru færðir til tekna og bifreiðakostnaður til gjalda. Var hagnaður samkvæmt uppgjöri þessu, 255 240 kr., færður á framtal. Kærandi átti og aðra bifreið, sem notuð var til einkaþarfa.
Skattstjóri reit kæranda bréf, dags. 30. október 1980, þar sem hann tilkynnti honum, að reiknaðar tekjur af atvinnurekstri samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðs7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt virtust vanreiknaðar um 1 000 000 kr. samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Með bréfi dags. 7. nóvember 1980 mótmælti kærandi ráðgerðri breytingu skattstjóra, enda hefði hann engan atvinnurekstur með höndum. Þann 20. janúar 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að þær breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans að bifreiðastyrkir að fjárhæð 1 935 240 kr. hefðu verið færðir til tekna í reit 22 í skattframtali og frádráttur á móti bifreiðastyrk að fjárhæð 1 000 000 kr. hefði verið færður í reit 32. Þá hefðu hreinar tekjur af útgerð bifreiðar, 255 240 kr., er færðar voru í reit 62 verið felldar niður. Þessu mótmælti kærandi með bréfi dags. 31. janúar 1981 og krafðist þess, að rekstrarkostnaður bifreiðarinnar, sem næmi samkvæmt yfirliti 1 680 000 kr., yrði að fullu tekinn til greina. Benti kærandi á, að hann hefði aðeins reiknað afskrift 190 000 kr. í stað 385 000 kr., sem heimilt væri. Um einkanot væri ekki að ræða með því að örskot væri frá heimili að vinnustað og hann ætti aðra bifreið til einkaþarfa. Með úrskurði dags. 20. mars 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, enda hefði hann ekki gert fullnægjandi grein fyrir skiptingu aksturs á milli einkanota og í þágu vinnuveitanda eða sent umsögn þeirra um þörf fyrir afnot af bifreiðinni.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 11. apríl 1981 og ítrekar áður fram komnar kröfur og rök.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 18. janúar 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi hafi ekki fært nægjanleg rök að því, að fólksbifreið í eigu hans hafi ekki verið notuð í einkaþarfir.
Fyrirspurnarbréf skattstjóra, dags. 30. október 1980, varðaði annað en kæruefni máls þessa. Átti kærandi þess því ekki kost að koma að athugasemdum sínum og skýringum og eftir atvikum bera fram ný gögn, áður en skattstjóri breytti skattframtali hans honum í óhag og hækkaði áður álögð opinber gjöld. Þá er það fyrst í úrskurði, að skattstjóri getur þess, hverra gagna og upplýsinga vant var að hans mati af hendi kæranda. Þessi málsmeðferð fer í bága við ákvæði 96. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Af þeim sökum þykir bera að fella hina kærðu breytingu úr gildi og taka kröfu kæranda til greina.