Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 102/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 73/1980   Lög nr. 75/1981, 5. tl., 7. tl. og9. tl. 3. gr., 29. gr., 2. tl. B-liðs og 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr., 1. tl. 1. mgr. 62. gr., 71. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Námsmaður erlendis — Arður — Hlutabréf — Arðsfrádráttur — Vaxtagjöld — Hjón — Sköttun hjóna — Reiknaðar húsaleigutekjur — Íbúðarhúsnæði — Ákvörðun eignarskattsstofns — Ákvörðun tekjuskattsstofns — Ákvörðun útsvars — Fasteign — Arðberandi eignir — Lögskýring — Námsfrádráttur — Húsaleigutekjur

Kærandi var búsettur erlendis árið 1979 vegna náms og bar takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal hans árið 1980 er dagsett 28. mars 1980. Samkvæmt framtalinu hafði kærandi 590 700 kr. sem arðstekjur af hlutabréfum. Til frádráttar þeim tekjum voru færðar 500 000 kr. samkvæmt 3. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá voru vaxtagjöld að fjárhæð 357 557 kr. Eignatekjur og vaxtagjöld voru helminguð og hvor hluti um sig færður hjá kæranda og eiginkonu hans. Tekjuskattsstofn hvors um sig var samkvæmt þessu 134 428 kr.

Með bréfi til kæranda, dags. 31. mars 1981, tilkynnti skattstjóri honum að frumálagning á innsent skattframtal hans árið 1980 hefði fallið niður. Væri fyrirhugað að leggja á opinber gjöld eftir skattframtalinu með þeim breytingum, að skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna leyfðist ekki til frádráttar eign skv. 3. mgr. 76. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, arður að fjárhæð 500 000 kr. leyfðist ekki til frádráttar skv. 7. tl. 3. gr. og 2. tl. 71. gr. sömu laga og tekjur á framtali yrðu hækkaðar um 520 209 kr., sem væru reiknaðar leigutekjur af fasteignum skv. 2. tl. C-liðs 7. gr. laganna. Var gefinn 10 daga frestur til andsvara. Ekki bárust svör og með bréfi dags. 14. apríl 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að opinber gjöld hans gjaldárið 1980 hefðu verið ákvörðuð í samræmi við boðaðar breytingar. Af hálfu kæranda var álagningin kæfð með bréfi dags. 6. maí 1981. Var þar gerð grein fyrir notkun íbúðarhúsnæðis, er væri til eigin þarfa, svo og öðrum fasteignum er eigi féllu undir ákvæði um reiknaðar leigutekjur. Þá var þess krafist af hálfu kæranda, að arðsfrádráttur og vaxtagjöld yrðu látin óbreytt standa, enda yrði ekki annað séð en frádráttarheimildir þessar giltu jafnt hvort sem menn bæru takmarkaða eða ótakmarkaða skattskyldu.

Með úrskurði dags. 26. maí 1981 féllst skattstjóri á kröfur kæranda varðandi reiknaðar leigutekjur. Hins vegar hafnaði skattstjóri kröfum kæranda um arðsfrádrátt. Kærandi bæri takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. skattalaga. Arður af hlutabréfum félli undir 7. til. 3. gr., en í 2. tl. 1. mgr. 71. gr. laganna kæmi skýrt fram, að tekjuskattur af tekjum skv. 7. tl. 3. gr. reiknaðist 35% af tekjuskattsstofni. Með gagnályktun frá 3. tl. 1. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt væri kröfum kæranda hafnað.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 18. júní 1981. Bendir kærandi á, að í 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt sé fjallað um skattstiga en ekki um það, hvernig tekjuskattsstofn skuli fundinn. Hér sé um að ræða frádrátt frá tekjum manna og geti ekki skipt máli hvort þeir beri takmarkaða eða ótakmarkaða skattskyldu.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar athugasemdir með bréfi dags. 27. október 1981:

„Kærandi bar takmarkaða skattskyldu á Íslandi árið 1979 skv. 3. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Takmarkaða skattskyldu þykir bera að skýra á þann hátt að takmörkuð réttindi séu henni samfara, þannig að einungis þeir lögmæltu frádráttarliðir eru heimilaðir er tengjast tekjum.

Með vísan til ofangreinds þykir mega fallast á kröfu umboðsmanns kæranda hvað varðar frádrátt skv. B-lið, 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, og með vísan til bréfs ríkisskattstjóra dags. 13. júní 1980, þykir kærandi eiga rétt á frádrætti skv. C-lið, 1. mgr., 30. gr. áðurnefndra laga.

Í úrskurði skattstjóra voru reiknaðar leigutekjur af fasteignum í eigu kæranda felldar niður. Við þá breytingu þykir með vísan til 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 eiga að fella niður eignarskatt af þeim eignum þar eð þær gefa engar skattskyldar tekjur, þó með þeirri undantekningu að telja verður að fasteignin að X 1, Vestmannaeyjum, gefi af sér tekjur sem nýttar eru til viðhalds eignarinnar.

Ríkisskattstjóri fellst eigi á skýringu skattstjóra á 71. gr. laga nr. 75/1981 þar eð tilvísan greinarinnar í aðrar greinar verður að teljast leiðbeining um skattstiga en eigi um á hvern hátt skattstofnar skulu ákvarðaðir.“

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt telst tekjuskattsstofn manna, sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, tekjur samkvæmt II. kafla laganna, eftir því sem við á, að teknu tilliti til þess frádráttar sem slíkum aðilum er heimilaður samkvæmt 30. gr. Með tilvísan til þessa þykir bera að ákveða tekjuskattsstofn kæranda með þeim hætti er fram kemur í athugasemdum ríkisskattstjóra. Þá verður eignarskattsstofn ákveðinn með þeim hætti sem þar kemur fram. Útsvar er ákveðið í samræmi við lög nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, með þeim breytingum sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 13/1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja