Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 116/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 2. tl. A-liðs 7. gr., 3. tl. C-liðs 30. gr. 2. mgr. 70. gr.t 92. gr., 94. gr., 96. gr.
Álagningarmeðferð skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Skatteftirlit — Skatteftirlitsheimild — Vanframtaldar tekjur — Upplýsingaskylda — Bótamiði — Málsmeðferð áfátt — Námsfrádráttur — Andmælareglan — Opinber stjórnsýsla — Útreikningsaðferð tekjuskatts
Kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1981 í framtalsfresti það ár. Með bréfi dags. 10. júní 1981 krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um tekjur hans frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1980. í svarbréfi sínu dags. 17. júní 1981 vísaði kærandi á Tryggingastofnun ríkisins varðandi þessar upplýsingar, Að þessu svari fengnu sýnist helst ráðið, að skattstjóri hafi áætlað kæranda 3 000 000 kr. í tekjur. í kæru dags. 24. ágúst 1981 mótmælir kærandi þessari álagningu. Kveður einu tekjur sínar hafa verið sjúkradagpeninga frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur að fjárhæð 430 000 kr. Þá gerði kærandi grein fyrir högum sínum. Hann hefði verið við nám í Danmörku til 15. júní 1980, orðið fyrir slysi þar í landi og átt við alvarlegar afleiðingar þess að glíma síðan, svo sem nánar var lýst. Með úrskurði dags. 12. nóvember 1981 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda þó þannig að hann dróst á að lækka áætlun tekna um 500 000 kr. Byggði skattstjóri á því, að engin gögn hefðu verið lögð fram til rökstuðnings kæruatriðum og framtal væri ófullnægjandi. Þá tók skattstjóri fram, að gjöld væru ákvörðuð skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981 og var fyrri álagning reyndar með þeim hætti.
Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 22. nóvember 1981 og krefst hann þess að álögð gjöld verði niður felld með sömu rökum og áður. Fylgdi kæru vottorð læknis, dags. 20. nóvember 1981, um óvinnufærni kæranda vegna sjúkdóma frá júlíbyrjun 1981 til áramóta það ár. Þá fylgdi ljósrit prófskírteinis, dags. 28. júní 1980 um nám kæranda í Danmörku,
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. febrúar 1981:
„Með hliðsjón af framlögðu vottorði um skólavist kæranda í Danmörku fellst ríkisskattstjóri á að við álagningu gjalda á árinu 1981 verði lögð til grundvallar skattaleg heimilisfesti kæranda hér á landi allt árið 1980.
Skattframtal kæranda árið 1981 þykir tortryggilegt en með hliðsjón af framkomnum skýringum þykir mega fallast á að framtalið verði lagt til grundvallar álagningu gjalda.“
Kærandi skilaði skattstjóra staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1981. Kærandi gat um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í tekjudálki án þess að greina fjárhæð. Skattstjóri krafði kæranda um upplýsingar um greiðslur þessar. Kærandi vísaði á greiðanda.
Fyrir skattstjóra lágu þá þegar upplýsingar um sjúkradagpeninga frá sjúkrasamlagi að fjárhæð 422 935 kr. Eigi verður það talin viðhlítandi framkvæmd stjórnsýslu að gera svarbréf kæranda frá 17. júní 1981 að tilefni til þeirrar teknaáætlunar sem í málinu greinir. Er þá litið til ákvæða 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að því er ætla mætti umstangslítilla upplýsingaskipta þeirra opinberra stofnana sem hér um ræðir. Þá er á það að líta, að skattstjóri gætti þess eigi að tilkynna kæranda ákvörðun sína um áætlun tekna, sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Að þessu athuguðu og að virtum efnisatriðum málsins er hinni kærðu álagningu skattstjóra hrundið og kröfur kæranda teknar til greina. Námsfrádráttur ákveðst 1 450 000 kr.