Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 144/1982

Úrskurður 144/1982

Lög nr. 75/1981, 3. mgr. 53. gr., ákvæði til bráðabirgða VH  

Verðbreytingarfærsla — Gengismunur — Stofn til verðbreytingarfærslu

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1981. Sættu þau því áætlun skattstjóra. Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 8. desember 1981, barst skattframtal kærenda árið 1981, dags. 7. desember 1981. Er þess farið á leit, að skattframtalið verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra án viðurlaga. Ástæðuna til dráttar á framtalsskilum kveða kærendur vera þá, að ekki hafi tekist að fá gerða upp útgerðarstarfsemi í tæka tíð.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 8. febrúar 1982:

„Við ákvörðun á stofni til verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 um tekju-og eignarskatt færir kærandi til eignar gengismun, 3 682 258 gkr.

Ríkisskattstjóri getur eigi fallist á að framangreindur gengismunur falli undir eignir skv. 53. gr.

Að virtu ofangreindu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fallist ríkisskattanefnd á að taka innsent skattframtal kæranda til greina verði skattstofnum breytt í samræmi við framanritað.“

Samkvæmt framtalsgögnum hafa kærendur eignfært gengismun, er fallið og hefur á skuldir fyrir gildistöku laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og gjaldfærir hann með sama hætti og gert hefur verið samkvæmt eldri lögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 40/1978 og 53. gr. laga nr. 7/1980. Gengismunur slíkur, sem hér um ræðir, verður eigi talinn til þeirra eigna skattaðila sem um getur í 3. mgr. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Með þeirri breytingu, sem af þessu leiðir á færslu verðbreytingar í skattframtali kærenda, er fallist á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja