Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 170/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr.  

Vaxtagjöld — Frádráttarheimild — íbúðarhúsnæði — Frádráttarbærni — Dráttarvextir — Opinber gjöld — Íbúðarlán — Lán

Kæruefnið er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1981 að lækka tilfærð vaxtagjöld til frádráttar um 660 819 kr. er voru vextir greiddir bæjarsjóði og innheimtumanni ríkissjóðs vegna vanskila opinberra gjalda. Taldi skattstjóri, að hér væri ekki um að ræða vexti af skuldum sem sannanlega hefðu verið notaðar til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða endurbóta á því, en frádráttarbærni vaxtagjalda væri bundin því skilyrði samkvæmt ákvæðum 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Dráttarvextir vegna opinberra gjalda gætu ekki fallið hér undir.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að fyrrnefnd vaxtagjöld verði heimiluð til frádráttar, enda væru vextir af öllum þeim lánum sem hann tæki hvort heldur á almennum lánamarkaði eða með drætti á opinberum gjöldum beinn sannanlegur fjármagnskostnaður við öflun íbúðarhúsnæðis. Væri þá tekið tillit til skuldastöðu framteljanda við upphaf og lok tímabilsins og til kostnaðar sem lagður væri í bygginguna á tímabilinu, auk þess sem aðrar eignir væru í sama bókfærða verði við upphaf og lok ársins.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. febrúar 1982:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Vaxtagjöld vegna vanskila á álögðum opinberum gjöldum geta eigi talist vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“ Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja