Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 211/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 67/1971 — 14. gr. — 35. gr. Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. og 2. tl. og C-liður 9. tl. — 28. gr. 1. og 4. tl. — 91. gr. 1. mgr.
Skattskyldar tekjur — Almannatryggingar — Barnalífeyrir — Lífeyrir — Lífeyristryggingar almannatrygginga — Slysatrygging — Slysatryggingar almannatrygginga — Lífeyrisgreiðslur — Lífeyrissjóður — Eingreiðsla — Skattfrjálsar tekjur — Eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Skattskyldur eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Skattfrelsi — Íbúðarhúsnæði — Húsbygging — Húsbyggjandi — Eigin vinna — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Húsbyggingarskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Leiðréttingarbeiðni skattaðila á framtali — Sönnun — Lögskýring
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Kæruatriði eru sem hér segir:
1. Kærandi, X, fékk greiddan barnalífeyri 101.191 kr. frá Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna á árinu 1988. Ekki færði hún greiðslu þessa sér til tekna í skattframtali sínu árið 1989. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 3. janúar 1990, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. janúar 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. mars 1990, að umrædd greiðsla barnalífeyris hefði verið færð henni til tekna í skattframtali árið 1989 og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1989 endurákvörðuð af þeim sökum. Skattstjóri tók fram, að ekki hefði verið sýnt fram á, að um hefði verið að ræða skattfrjálsa greiðslu samkvæmt 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá tæki 3. ml. 2. tl. A-liðs 7. gr. sömu laga aðeins til greiðslna frá almannatryggingum samkvæmt lögum nr. 67/1971. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru til hans, dags. 20. apríl 1990, og því borið við, að umrædd greiðsla hefði verið innt af hendi á sama hátt og á sömu forsendum og greiðslur samkvæmt 14. og 35. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Slíkar greiðslur teldust ekki til skattskyldra tekna, sbr. 3. ml. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, því að ekki væri kveðið á um það, að slíkar greiðslur skyldu greiddar af opinberum sjóðum, t.d. Tryggingastofnun ríkisins. Með kæruúrskurði, dags. 23. júlí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda og tók fram, að undanþáguákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt ætti einungis við um barnalífeyri, sem greiddur væri samkvæmt heimild í almannatryggingalögum en tæki ekki til sams konar lífeyris, er greiddur væri úr almennum lífeyrissjóðum. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 22. ágúst 1990, krefst umboðsmaður kæranda þess, að umrædd greiðsla barnalífeyris verði ekki skattlögð og færir fram sömu rök og áður.
2. Í húsbyggingarskýrslu, dags. 2. mars 1989, er fylgdi skattframtali kærenda árið 1989, gat kærandi, Y, þess, að aukavinna við eigin íbúð hefði verið 320 klst. árið 1988 á 209 kr. pr. klst. eða alls fjárhæð þessarar eigin vinnu 66.880 kr. Þá greindi hann frá því í skýrslu þessari, að önnur eigin vinna og gjafavinna hefði verið 280 klst. eða að verðmæti 58.520 kr. metin með sama hætti. Ekki var síðastnefndur liður tekjufærður í skattframtali kærenda árið 1989.
Með bréfi, dags. 3. janúar 1990, boðaði skattstjóri kærendum tekjufærslu á eigin vinnu og gjafavinnu 58.520 kr. á framtali 1989, enda væri hér um skattskyldar tekjur að ræða samkvæmt 9. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og féllu ekki undir undanþáguákvæði 4. tl. 28. gr. sömu laga. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 15. janúar 1990, kom fram, að þau mistök hefðu orðið, að í stað þess að tilgreina undir D-lið í húsbyggingarskýrslu alla eigin vinnu utan venjulegs vinnutíma, hefðu óvart verið færðar 280 klst. í E-lið. Hið rétta væri, að í D-lið ættu að standa 600 klst. en engar í E-lið húsbyggingarskýrslunnar. Umboðsmaðurinn tók fram, að framteljandi hefði unnið meira en fulla vinnu á árinu 1988 eins og launatekjur hans bæru vitni um, og væri því ljóst, að umrædd eigin vinna félli undir ákvæði 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Hinn 22. mars 1990 hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð gjöld kærenda m.a. vegna tekjufærslu á umræddri eigin vinnu 58.520 kr., enda hefði ekki verið gerð nægjanleg grein fyrir ætluðum mistökum við framtalsgerðina viðvíkjandi útfyllingu húsbyggingarskýrslu. Í kæru til skattstjóra, dags. 20. apríl 1990, mótmælti umboðsmaður kærenda ákvörðun skattstjóra með vísan til þeirra skýringa, er fram komu í svarbréfi, dags. 15. janúar 1990, og þess að um hefði verið að ræða aðstoðarvinnu maka við húsbygginguna á árinu 1988. Með kæruúrskurði, dags. 23. júlí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda og tók fram, að einföld yfirlýsing fengi ekki breytt þeim upplýsingum, er fram kæmu í húsbyggingarskýrslu. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 22. ágúst 1990, ítrekar umboðsmaður kærenda kröfu sína um niðurfellingu skattlagningar á umræddan lið á sömu forsendum og áður, að hér sé um að ræða skattfrjálsan eignaauka vegna aukavinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota, er vegna mistaka hafi verið færður sem skattskyld aukavinna á húsbyggingarskýrslu.
Með bréfi, dags. 14. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f. h. gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Ákvæði 3. ml. 2. tl. 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt á eingöngu við um greiðslur frá almannatryggingum skv. lögum nr. 67/1971.“
Um 1. tl. Barnalífeyrir sá, sem um ræðir í máli þessu, var greiddur úr Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna. Engin ákvæði skattalaga undanþiggja greiðslu þessa skattlagningu. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra varðandi þetta kæruatriði.
Um 2. tl. Eftir öllum atvikum og með hliðsjón af skýringum kærenda þykir mega taka kröfu þeirra til greina um þetta kæruatriði.