Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 173/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr.
Vaxtagjöld — Frádráttarheimild — Frádráttarbærni — Íbúðarhúsnæði — Eigin notkun — Lögskýring — Ráðstöfun íbúðarhúsnæðis — Útleiga íbúðarhúsnæðis
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að leyfa ekki til frádráttar tekjum vaxtagjöld samtals að fjárhæð 4 020 726 kr. Skattstjóri vísaði til þess, að skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr.
laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt væru vaxtagjöld af skuldum því aðeins frádráttarbær að þær væru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. íbúðarhúsnæði kæranda að X-hólum, Reykjavík, hefði ekki verið til eigin nota árið 1980 og væri skilyrði laganna því ekki uppfyllt.
Af hálfu kæranda er þess krafist, að tilfærð vaxtagjöld verði látin óbreytt standa og leyfð til frádráttar. Sá skilningur, sem skattstjóri haldi fram, eigi sér ekki stoð í tilvitnuðu lagaákvæði. Ekki sé þar krafist að íbúðareigandi verði að búa í hlutaðeigandi íbúðarhúsnæði til þess að hann geti notið umrædds vaxtafrádráttar. Talað sé um öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Kærandi greinir frá ástæðum til þess að hann býr ekki í íbúðinni. Til þess að afla fjár til greiðslu afborgana og vaxta af íbúðarlánunum hafi hann brugðið á það ráð að flytjast til V-fjarðar, þar sem honum hefði boðist betur launað starf en hann ella átti kost á. Þá er á það bent af hálfu kæranda, að þetta sé eina íbúðin í hans eigu og ekkert bendi til annars en íbúðarkaupin hafi verið gerð með eigin not fyrir augum.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. febrúar 1982:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Í kæru kemur fram að íbúð kæranda að X-hólum, Reykjavík, er leigð út. íbúðin er þannig nýtt af öðrum en eiganda og getur því ekki, meðan það ástand varir, talist til eigin nota eiganda.“
Sá skilningur skattstjóra og ríkisskattstjóra, að skattaðili verði í öllum tilfellum að búa sjálfur í hlutaðeigandi íbúðarhúsnæði til þess að njóta frádráttarbærni vaxtagjalda af skuldum til öflunar þess samkvæmt 1., tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir ekki tækur, enda gefur lagaákvæði þetta eigi tilefni til slíkrar túlkunar. Þegar litið er til skýringa kæranda á bráðabirgðaráðstöfun íbúðarhúsnæðisins og annarra upplýsinga af hans hendi, þykir verða að fallast á það, að honum ber frádráttur vegna vaxtagjalda af þeim skuldum, sem hann tilfærði, að væru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.