Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 189/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 3. ml. 1. mgr. 95. gr., 1. og 2. mgr. 96. gr., 1. mgr. 99. gr.  

Reiknað endurgjald — Sameignarfélag — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Kæruúrskurður skattstjóra — Viðtakandi kæruúrskurðar — Lögskýring

Kærandi færði sér til tekna laun vegna starfa við Verslun A sf. að fjárhæð 1 200 000 kr. í samræmi við launauppgjöf verslunarinnar. Með bréfi dags. 15. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að þar sem „tilfærð laun yðar á rekstrarreikningi eru ekki í samræmi við viðmiðunartekjur ríkisskattstjóra hefur þeim verið breytt til samræmis við þær. Við þetta sýnir rekstrarreikningur 963 432 kr. tap í stað 463 432 kr.“ Þá vitnaði skattstjóri til 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo væri kveðið á um, að manni, sem starfaði við eigin atvinnurekstur bæri að telja sér til tekna reiknað endurgjald af starfinu eigi lægri upphæð en ætla mætti að laun hans hefðu orðið hefði hann unnið sem launþegi hjá óskyldum aðila.

Þessari breytingu var mótmælt af hálfu kæranda með kæru dags. 11. september 1980, sbr. greinargerð dags. 6. október 1980. Var því haldið fram að málsmeðferð væri áfátt þar sem kæranda hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig áður en skattframtalinu var breytt. Þá bæri að líta til aðstæðna svo sem mælt væri fyrir um í 59. gr. nefndra laga. Þegar tekið væri mið af aldri kæranda, umfangi starfs og afkomu verslunarinnar væri ekki grundvöllur til hækkunar.

Með úrskurði dags. 30. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Tók skattstjóri fram, að gætt hefði verið 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og kæranda gert viðvart um breytinguna. Þá hefði við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds verið tekið tillit til þeirra atvika sem kærandi hefði nefnt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 28. nóvember 1980. Barst rökstuðningur fyrir kæruatriðum í bréfi dags. 10. febrúar 1981. Eru ítrekaðar þær kröfur og rök sem áður höfðu verið fram borin fyrir skattstjóra.

Með bréfi dags. 12. janúar 1982 krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Skattstjóri fór ranglega með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga. Þá er tilkynningu skattstjóra um breytinguna, dags. 15. júlí 1980, áfátt á ýmsan hátt. Ranglega er skýrt frá efni 59. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi hafði launatekjur frá tilgreindu sameignarfélagi og verður eigi séð að bréf skattstjóra geti efni sínu samkvæmt átt við um kæranda. Af úrskurði skattstjóra verður helst ráðið, að tekjuhækkun sú sem í málinu greinir sé gerð á grundvelli 2. ml. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi verður þó séð hvernig það ákvæði eða önnur ákvæði 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga geti leitt til hinnar kærðu tekjuhækkunar. Þá er hinn kærði úrskurður stílaður á eiginmann kæranda, og verður ekki séð að kæranda sjálfum hafi verið sendur úrskurðurinn svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 99. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Með tilvísan til alls framanritaðs er hin kærða breyting úr gildi felld og krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja