Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 193/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 1. mgr. 44. gr., 7. mgr. 53. gr.
Verðbreytingarfærsla — Fyrning tekjufærslu — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Sérstök fyrning — Áætlun stofns til verðbreytingarfærslu — Tímaviðmiðun stofns til verðbreytingarfærslu
Kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1981. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda barst skattstjóra að liðnum kærufresti og var það tekið sem skattkæra. Með bréfi dags. 31. ágúst 1981 benti skattstjóri kæranda á heimild 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til fyrningar um 40% af tekjufærslu samkvæmt ákvæðum 53. gr. laganna. Ekki barst svar frá kæranda. Með úrskurði dags. 26. október 1981 féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu með leiðréttingum vegna reikningsskekkja svo og áætlaðri tekjufærslu vegna verðbreytingar, þar sem sú færsla kæranda væri röng.
Þessum úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 20. nóvember 1981, og fer fram á að fyrningarheimild sú sem að ofan greinir megi verða nýtt. Gerir kærandi grein fyrir skuldum þann 31.12. 1980 samtals að fjárhæð 30 092 371 kr.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 15. febrúar 1982:
„Af kærunni verður helst ráðið að kærandi sé að fara fram á fyrningu tekjufærslu skv. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Í úrskurði skattstjóra kemur fram að verðbreytingafærsla kæranda skv. 53. gr. áðurnefndra laga hafi verið röng og af þeim sökum hafi skattstjóri áætlað tekjufærslu.
Með kæru fylgdi eigi nýr útreikningur á verðbreytingarfærslu og þykir meðan svo er verða að gera kröfu um frávísun kærunnar frá ríkisskattanefnd.“
Samkvæmt 7. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal verðbreytingarfærslu samkvæmt greininni reikna í lok hvers reikningsárs og skal miða við stöðu eigna og skulda í lok næst liðins reikningsárs. Kærandi taldi eigi fram árið 1980 og álagning það ár byggðist á áætlun. Upplýsingar kæranda með tilliti til verðbreytingarfærslu miðast við eignir og skuldir í árslok 1980. Svo sem gögn málsins liggja fyrir verður fjárhæð tekjufærslu því eigi fundin, en eigi verður talið að byggja megi á áætlunarfjárhæð við nýtingu fyrningarheimildar 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessum athugasemdum þykir bera að vísa kærunni frá.