Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 216/1982

Gjaldár 1978

Lög nr. 75/1981, 3. mgr. 101. gr.   Lög nr. 68/1971, D-liður 1. mgr. 5. gr., A-liður 11. gr., 37. gr., 38. gr.  

Samlög — Skattaðili — Skattskyldar tekjur — Afurðasala — Rekstrarkostnaður — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Sönnun — Vanreifun — Áætlun

Kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1978. Því fylgdi ársreikningur fyrir árið 1977, undirritaður af stjórn kæranda. Samkvæmt rekstrarreikningi var tekjuafgangur endurgreiddur framleiðendum, aðilum að kæranda, skv. lista þar að lútandi er fylgdi reikningsskilum. Skattstjóri ákvað kæranda tekjur til skatts að fjárhæð 2 479 195 kr., er voru ætlaðar vantaldar tekjur frá X hf. að fjárhæð 1 918 914 kr. að viðbættum 15% viðurlögum og 200 000 kr. vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs um áætlaðan stjórnunar- og fundarkostnað sem nam 700 000 kr. svo og ferðakostnað. Ekki var ákvörðun þessi kærð.

Með bréfi dags. 27. júní 1979 leitaði umboðsmaður kæranda eftir því við ríkisskattstjóra, að ákvörðun skattstjóra þeirri er fyrr greinir yrði breytt og hún felld niður. í bréfinu var gerð grein fyrir ferðakostnaði svo og funda- og stjórnunarkostnaði. Þá var gerð grein fyrir tekjuliðum er væru einungis félagsgjöld þeirra fiskverkenda sem væru aðilar að kæranda, þ. á m. nefnt X. Hefðu félagsgjöld þess numið 107 828 kr. og væri það eina greiðsla þess fyrirtækis til kæranda. Hins vegar hefði tilgreint hlutafélag annast sölu afurða kæranda og væri líkast til um umboðslaun að ræða til þess hlutafélags, sem vegna mistaka hefðu verið gefin upp á kæranda. Þá var tekið fram af hálfu kæranda, að markmið samtakanna væri að selja framleiðslu félagsmanna á erlendum markaði. Til þess að standa straum af kostnaði við söluna greiddu félagsmenn félagsgjöld er væru ákveðinn hundraðshluti af útflutningsverðmæti. Tekjuafgangi væri síðan skipt í samræmi við hlutdeild þeirra í afurðasölunni og skattlagður hjá félagsmönnum, sbr. D-lið 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þann 16. apríl 1980 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda og felldi niður hækkun vegna tekna frá X hf. ásamt viðurlögum, svo og 200 000 kr. vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs. Hins vegar ákvað ríkisskattstjóri hreinar tekjur kæranda 700 000 kr., þar sem áætlaður stjórnunar- og fundarkostnaður leyfðist ekki til gjalda. Með úrskurði dags. 14. maí 1981 ákvað ríkisskattstjóri að fyrrgreind niðurstaða skyldi óbreytt standa.

Úrskurði ríkisskattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. maí 1981, og ítrekaðar eru þær kröfur að opinber gjöld gjaldárið 1978 verði með öllu felld niður með vísan til þess að kærandi falli undir ákvæði D-liðs 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi dags. 8. febrúar 1982 krefst ríkisskattstjóri þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, enda hafi kærandi ekki gert fullnægjandi grein fyrir hinum umdeilda kostnaði, sem hefði verið áætlaður vegna ársins 1977, og krafa kæranda ekki studd neinum sönnunargögnum til staðfestingar á því á hvaða ári kostnaðurinn hafi fallið til.

Samkvæmt framtalsgögnum þeim er fyrir liggja í málinu og varða gjaldárin 1977—1979 hefur kærandi haft þann hátt á að áætla téðan gjaldalið. Engin frekari grein hefur verið gerð fyrir þessum kostnaði þrátt fyrir áskoranir um það. Með tilliti til þessa og þar sem telja verður að tekjuhækkun sú sem af hinni kærðu breytingu leiddi falli ekki undir ákvæði 2. ml. D-liðs 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta úrskurð ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja