Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 256/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 73/1980, 23. gr., 27. gr.   Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 4. tl. 31. gr., 53. gr., 59. gr., 66. gr., 4. tl. 74, gr., 100. gr.  

Landbúnaður — Kartöfluræktun — Vörubirgðir — Framleiðsluvörubirgðir — Matsverð vörubirgða — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Reiknað endurgjald — Uppskerutjón — Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Endurupptaka ríkisskattanefndar — Sönnun — Frávísun — Niðurfærsla vörubirgða

Með bréfi dags. 5. janúar 1982 fara kærendur fram á að ríkisskattanefnd endurupptaki úrskurð sinn nr. 723/1981 og kveði upp nýjan kæruúrskurð þess efnis að felldar verði úr gildi breytingar skattstjóra á birgðafærslu kartaflna á verðbreytingarfærslublaði, að reiknað endurgjald, sem tilfært var á skattframtali kærenda 1980, verði lækkað og loks að uppskerutjón 1979 verði heimilað til frádráttar. I kæru sinni til ríkisskattanefndar gera kærendur ítarlega grein fyrir kröfum sínum.

1. Að því er fyrsta kæruatriðið snertir bendir kærandi á að skattstjóri hafi ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd breytingarinnar og sé hún því ógild af þeim sökum. Að því er efnisþáttinn varðar getur kærandi m. a. þess að samkvæmt upplýsingum Stéttarsambands bænda hafi ekki verið skylt samkvæmt skattalögum að telja birgðir fram sem tekjur, enda hafi verið sú venja ríkjandi í sveit hans áratugum saman að kartöflubirgðir væru ekki tekjufærðar á uppskeruárinu. Hafi skattstjóri aldrei gert athugasemdir við það. Hins vegar hafi bændur ævinlega fært sér til tekna á uppskeruárinu það sem fengist hafi sem afurðalán út á birgðirnar. Inn í útreikninga vegna verðbreytingarfærslu eigi m. a. að koma birgðir og helmingur af matsverði bústofns. Það sé staðreynd að það er ekki bústofninn sjálfur sem þarna sé verið að reikna, heldur sé verið að fá út verðmæti eðlilegs fóðurforða í heyjum, sem þurfi handa bústofni viðkomandi bónda, en þessi hey séu ekki talin fram sem tekjur af framleiðsluárinu. Kærandi spyr hvers vegna annað eigi að gilda um kartöflur. Við framtalsgerð sína kveður hann það hafa verið augljóst af innleggsnótum hvað hafi verið til í kartöflubirgðum í ársbyrjun 1979 eða í 15 734 641 krónum. Þessa fjárhæð hafi skattstjóri síðan lækkað í 4 000 000 kr. án þess að tilkynna það, en skattstjóri vitni til þess að sú fjárhæð sé færð á skattframtali kæranda árið 1979 sem birgðir. Gerir kærandi síðan grein fyrir því hvernig sú fjárhæð sé tilkomin á því framtali, en hann hafi heimilað skattstjóra að færa hana að hans kröfu. Krefst kærandi þess að birgðafærsla kartaflna verði látin standa óbreytt eins og hann færði á verðbreytingarblað sitt.

2. Á skattframtal sitt hafði kærandi tilfært samtals 6 000 000 kr. sem reiknað endurgjald sitt og maka síns vegna starfa þeirra við reksturinn á árinu 1979. Er þess krafist að sú fjárhæð verði alfarið felld niður. Gerir kærandi í kæru grein fyrir þeirri kröfu sinni.

3. Loks krefst kærandi þess að „30% af vottfestu uppskerutjóni sínu árið 1979 (30% af 26 millj. =7,8 millj. kr.) komi til frádráttar á framtali 1980 sem um er deilt. 70% tjónsins komi til frádráttar á næsta árs framtali 1981 (þ. e. 18,2 millj. kr. uppfært).“ Til stuðnings þessari kröfu sinni lætur kærandi fylgja með kæru sinni til ríkisskattanefndar vottorð Bjargráðasjóðs um tjón kæranda af völdum uppskerubrests á kartöflum haustið 1979. Kemur þar m. a. fram að uppskera kæranda á árinu 1979 hafi numið alls 80 tunnum af kartöflum að innleggsverðmæti 1 840 000 kr. en miðað við meðaluppskeru kæranda árin 1976 — 1978 hefði uppskeran átt að nema 1064 tunnum.

Í tilefni af framkominni beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðar ríkisskattanefndar gerir ríkisskattstjóri svofelldar athugasemdir í bréfi dags. 16. mars 1982:

„Ríkisskattstjóri fellst á endurupptöku úrskurðarins með því að nú hefur verið lögð fram greinargerð um kæruefnið. Af því tilefni hefur ríkisskattstjóri uppi þær kröfur að krafist er staðfestingar á niðurstöðu skattstjóra um skattstofna kæranda gjaldárið 1980 að öðru leyti en því að sú athugasemd er gerð að fallist er á að við ákvörðun á reiknuðum launum verði að nokkru tekið tillit til nú framkominna upplýsinga um störf kæranda að atvinnurekstri sínum.“

Kærandi hefur nú bætt úr frávísunarástæðu úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 723/1981 og er því fallist á að endurupptaka hann.

Um 1. Kærandi stundar kartöflurækt í atvinnuskyni. Samkvæmt 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, bar honum við útreikning á verðbreytingarfærslu samkvæmt þeirri grein að taka tillit til framleiðsluvörubirgða sinna í ársbyrjun 1979, sbr. 3. og 7. mgr. greinarinnar. Skv. 4. tl. 74. gr. ber að telja vörubirgðir þessar til eignar á kostnaðar- eða framleiðsluverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum á gölluðum og úreltum vörum. Þó skal heimilt að draga allt að 10% frá þannig reiknuðu matsverði. Af gögnum málsins þykir ljóst að við nefndan útreikning verði ekki byggt á þeim upplýsingum um þá birgðaeign kæranda af kartöflum pr. 31/12 1978 sem fram koma í skattagögnum hans gjaldárið 1979. Kærandi hefur gert rokstudda grein fyrir verðmæti kartöflueignar sinnar við útreikning á verðbreytingarfærslu samkvæmt nefndri 53. gr. vegna ákvörðunar opinberra gjalda 1980. Hefur fjárhæð hennar ekki sætt tölulegri vefengingu. Þegar það er virt svo og önnur atvik málsins þykir mega fallast á þennan þátt í kæru kæranda.

Um 2. Ekki er fallist á þá kröfu kæranda að fella alfarið niður sem tekjur reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, sbr. 2. mgr. A-liðs 7. gr. nefndra laga. Kærandi hefur upplýst að með tilliti til vinnuframlags sé hið reiknaða endurgjald ofmetið til tekna í framtali 1980. Bendir hann á að eiginkona hafi vegna veikinda og vinnu utan búsins aðeins unnið 1 — 2 vikur við reksturinn á árinu 1979. Þá bendir kærandi m. a, á hinn mikla uppskerubrest sem varð á árinu 1979. Að virtum atvikum þykja ekki hafa verið næg efni til að reikna eiginkonu endurgjald til tekna og hið reiknaða endurgjald eiginmanns telst hafa hæfilega verið metið með 2 000 000 kr. Er þá m. a. tekið tillit til þess að vinnuframlag hans liggur ekki fyrir. Yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs verður 1 152 162 kr.

Um 3. Lagaheimild skortir til að verða við þessari kröfu kæranda, og er því eigi fallist á hana. Þess er að geta að ríkisskattanefnd fjallar eigi um beiðnir er kunna að berast um ívilnanir í tekjuskattsstofni og útsvarsstofni samkvæmt heimildarákvæðum 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 23. gr. og 27. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Ber að snúa sér til skattstjóra og ríkisskattstjóra og eftir atvikum viðkomandi sveitarstjórnar að því er þetta varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja