Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 260/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 75/1981, 2. tl. A-liðs. 7. gr., 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 100, gr.
Skattskyldar tekjur — Námsstyrkur — Námskostnaður — Námsfrádráttur — Nám erlendis — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Gengi — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Frávísun
Með bréfi dags. 9. júlí 1981 fór umboðsmaður kæranda þess á leit við skattstjóra, að sú leiðrétting yrði gerð á skattframtali árið 1981, að færður yrði til frádráttar samkvæmt ákvæðum 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, námskostnaður að fjárhæð 3 853 370 kr. Hér væri um kostnað að ræða vegna framhaldsnáms kæranda 1/9 1980 — 31/12 1980 við A í kennslu og umönnun vangefinna ásamt námi í skólastjórn. Kærandi gegndi störfum sem skólastjóri X. Kostnaður var talinn 10 107 bandaríkjadalir, er var fjargjald, skólagjöld, húsaleiga, framfærsla og rekstur bifreiðar. Frá kostnaðarfjárhæð þessari var dreginn námsstyrkur frá B að fjárhæð 3 790 bandaríkjadalir. Mismuninn krafðist kærandi að fá til frádráttar sem námskostnað miðað við gengi 1 USD = 610 gkr.
Með úrskurði dags. 3. nóvember 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að kærandi hefði fengið námsstyrk er næmi hærri fjárhæð en reiknaður námsfrádráttur miðað við 4 mánaða nám.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 3. desember 1981, og áður gerðar kröfur ítrekaðar með vísan til rökstuðnings í bréfi til skattstjóra dags. 9. júlí 1981.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist aðallega með bréfi dags. 14. apríl 1982, að kærunni verði vísað frá, þar sem kærandi hafi ekki undirritað skattframtal sitt. Til vara krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Fenginn námsstyrkur kæranda að fjárhæð 3 790 bandaríkjadali er skattskyldur samkvæmt ákvæðum 7, gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. tl. A-liðs greinarinnar. Miðað við gengi það sem kærandi tilfærir nemur fjárhæð styrksins 2 311 900 kr. Kærandi á rétt til frádráttar vegna náms síns samkvæmt 1. mgr. 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. nefndra laga. Nám var stundað í 4 mánuði á árinu 1980 og miðast námsfrádráttur kæranda því við % hluta þeirrar fjárhæðar sem veitt var til frádráttar vegna fulls náms erlendis á árinu 1980, þ. e. a. s. að minnsta kosti 6 mánaða náms. Fullur námsfrádráttur vegna náms erlendis nam 1 450 000 kr. gjaldárið 1981. Samkvæmt þessu bar kæranda 967 000 í námsfrádrátt.
Samkvæmt framansögðu hefur skattstjóri því veitt ríflegan frádrátt vegna náms kæranda, en með því að ríkisskattstjóri hefur hvorki neytt heimildar eftir 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 til þess að kæra til hækkunar né gert kröfu um hækkun í þessu máli þykir eftir atvikum rétt þegar af þessum sökum að taka aðalkröfu hans um frávísun til greina.