Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 270/1982
Gjaldár 1981
Lög nr. 46/1937, 8. tl. 2. gr., 37. gr. Lög nr. 75/1981, 53, gr.
Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Gjöld vegna verðbreytingar — Stofnsjóðsinnstæða — Samvinnufélög — Stofnsjóður samvinnufélags — Óverðtryggð innstæða — Lögskýring — Skattskyldar eignir — Samvinnufélagasamband — Peningakrafa — Kaupfélag — Stofnsjóður
Kærandi er kaupfélag og í kæru umboðsmanns hans til ríkisskattanefndar segir m. a.: „Deiluefnið er hvort heimilt sé, að reikna og gjaldfæra verðbreytingarfærslu á innstæðum félagsins í stofnsjóðum annarra samvinnufélaga skv. 3. mgr. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981.“
Skattstjóri taldi, að eignarliðina stofnsjóður hjá SÍS 69 797 808 kr., verksmiðjustofnsjóður 2 752 412 kr., stofnsjóður hjá Samvinnutryggingum 390 368 kr. og aðrir stofnsjóðir 74 074 kr. eða alls 73 014 662 kr. samkvæmt efnahagsreikningi kæranda 31/12 1979 bæri eigi að taka með við útreikning verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 á svofelldum forsendum:
„Í bréfi dags. 31. júlí s. 1. var kæranda gert viðvart um, að það væri ætlun skattstjóra að fella inneign í stofnsjóðum út úr eignahlið verðbreytingafærslu. Þessu mótmælti kærandi í bréfi dags. 7. ágúst s. 1. og vitnaði til 2. mgr. 53. gr. þar sem segir, að útreikningurinn nái yfir allar óverðtryggðar eignir, en inneign í stofnsjóði SÍS sé „einungis peningakrafa í þeim skilningi, að félagið á ekki og fær aldrei meira greitt t. d. við slit en nafnverð kröfunnar“. Með bréfi skattstjóra dags. 24. sept. s. 1. er kæranda gert viðvart um, að sú breyting sé gerð á framtalinu að úr eignahlið uppgjörs vegna verðbreytingarfærslu sé felldur liðurinn
stofnsjóðir 84 472 656,- gkr. Jafnframt er vitnað til þess að í skuldahlið séu teknar til frádráttar stofnsjóðsinneignir félagsmanna og sé það í samræmi við 1. málsl. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 40/1978.
Í 4. málsl. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 eru taldar upp eignir sem ekki mynda stofn við útreikning verðbreytingar, en þar segir: „Til þessara eigna teljast t. d. fyrnanlegar eignir, íbúðarhúsnæði og aðrar ófyrnanlegar fasteignir og eignarhlutar í félögum.“
Í fylgiskjali með skattframtali 1981 merkt „123 Verðbreytingarfærsla“ segir í skýringum í bakhlið um lið Al: „Til eigna teljast ekki í þessu sambandi: Allar fyrnanlegar eignir svo og íbúðarhúsnæði og aðrar ófyrnanlegar fasteignir og eignarhlutar í félögum, þ. m. t. eigin hlutabréf og eignfærð hlutafjárloforð og stofnsjóðseign í samvinnufélagi, svo og skuldir eigenda einkafyrirtækja og sameignarfélaga“. Um lið A 2 segir: „Til skulda teljast ekki í þessu sambandi: Hlutafé, stofnsjóðir, þ. m. t. stofnsjóður samvinnufélags, stofnfé“ o. s. frv.“
Kærandi gerir þá kröfu, að nefndar stofnsjóðsinnstæður verði teknar með eignum við uppgjör verðbreytingarfærslunnar. Bendir umboðsmaður kæranda á, að inneignir í stofnsjóði SÍS sé einungis peningakrafa í þeim skilningi, að félagið eigi ekki og fái aldrei meira greitt t. d. við slit en nafnverð kröfunnar, sbr. 8. tl. 2. gr. laga um samvinnufélög nr. 46/1937 og 37. gr. sömu laga. Hér sé því ekki um eignarhlut í félagi að ræða hliðstætt því ef SIS hefði t. d. verið sameignarfélag og reglur þess félagsforms um það gilt. Inneignin sé því alfarið óverðtryggð. í samræmi við þennan skilning hafi endurmat á stofnsjóðsinneignum í samvinnufélögum ekki verið heimilað í skattalögum.
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 1. apríl 1982 gerð sú krafa í málinu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. í kröfugerðinni segir m. a.:
„Í 1. málslið 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt kemur fram sú meginregla að til eigna skattaðila við útreikning til verðbreytingarfærslu skuli telja allar óverðtryggðar eignir sem ekki hækka í verði við almennar verðhækkanir svo og þær eignir sem eru verðtryggðar eða hækka í verði við almennar verðhækkanir, ef verðtryggingin eða verðhækkunin eru skattskyldar tekjur skv. tekjuskattslögunum.
Umboðsmaður kæranda heldur því fram að stofnsjóðsinneignir kæranda falli undir framangreinda skilgreiningu, sbr. bréf hans til skattstjóra, dags. 7. ágúst 1981 og nefnir hann í því sambandi inneign kæranda í stofnsjóði SIS sem verði að skilgreina sem peningakröfu með vísan til 8. tl. 2. gr. laga um samvinnufélög nr. 46/1937 og 37. gr. sömu laga þar eð kærandi fái aldrei meira greitt t. d. við slit en nafnverð kröfunnar.
Ríkisskattstjóri getur eigi fallist á ofangreint sjónarmið þar sem í 4. málsl. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 eru skýr fyrirmæli um að eigi skuli telja til eignar eignarhluti í félögum við ákvörðun á verðbreytingarfærslu skv. 2. mgr. 53. gr. áður tilvitnaðra laga. Inneign kæranda í stofnsjóði SÍS verður að telja eignarhlut í félagi í skilningi áður tilvitnaðs lagaákvæðis er telja verður ótvírætt í þessu sambandi. Framangreinda niðurstöðu verður að telja í samræmi við þann megintilgang er stefnt er að með 53. gr. laga nr. 75/1981.
Önnur niðurstaða en framangreind hefði í för með sér mismun í skattlagningu gagnvart skattaðilum eftir því hvert félagsform þeir veldu.“
Krafa kæranda er tekin til greina.